29.04.1949
Efri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. gat ekki stillt sig um að segja, að ég væri bara að þvælast fyrir málinu, eins og ég hefði gert frá byrjun. Mér kemur þetta ekki á óvart. Þetta er sá tónn, sem venjulegur er, þó að ekki sé annað gert en að benda á augljósa galla. Hæstv. ráðh. spurði, hvort ég væri svo skyni skroppinn, að ég skildi ekki, að fyrirtæki, sem fengi 10 millj. kr., væri betur sett en ef það þyrfti að vera komið undir því, að fé yrði veitt til þess í fjárl. eða að taka allt að láni. Það er rétt og það skil ég, en ég vil aftur spyrja hæstv. ráðh., af því að hann sagði, að ríkið væri með þessu skyldað til þess að leggja fram 6 millj., en annars færi framlag ríkisins eftir því, hvað veitt yrði í fjárl., — verður ekki nákvæmlega jafnerfitt fyrir ríkið að leggja fram þetta fé, hvor leiðin sem farin er? Ég fæ ekki betur séð. Þar sem sagt er, að ríkissjóður leggi fram 6 millj. kr. og sjöunda millj. á að koma frá Áburðarsölu ríkisins, er gert ráð fyrir því, að það verði bara 3 millj., sem koma frá prívatkapítalinu.

Ég er þakklátur fyrir ræðu hv. 1. þm. Reykv., því að þar kom greinilega fram, hvað vakir fyrir stuðningsmönnum till. Hann sagði, að hluthafar mundu ekki leggja fram fé til fyrirtækisins án þess að hafa þar yfirráð. (BÓ: Ég sagði ekki yfirráð, ég sagði ráð.) Það er nokkuð svipað. Þeir vilja fá svo mikil ráð, að þeir eigi tvo af fimm stjórnarmeðlimum, og hv. þm. heldur því fram, að þeir muni ekki leggja fram fé, ef þeir fái bara einn af fimm. Ég vildi benda á, að einn maður mundi nægja til þess að gagnrýna rekstur fyrirtækisins, ef það yrði illa rekið, eins og sumir telja, að öll ríkisfyrirtæki séu, en það fær maður nú að heyra næstum daglega í þingsölunum, og ætla ég ekki að ræða það. En ég vildi benda á annað. Það getur farið svo, og ef til vill er að því stefnt, að þeir, sem eiga prívatkapítalið, reyni að ná meiri hl. í stj. verksmiðjunnar. Þeir eiga svo mikil ítök í Alþ., að þeim verður ekki skotaskuld úr því að fá meiri hl. í stj. Ég vildi beina því til hæstv. landbrh., hvort hann hefur gert sér það ljóst, er hann gekk inn á þessa till. Hv. 1. þm. Reykv. sagði líka, að ríkissjóður hefði lagt fram fé til

Raftækjaverksmiðjunnar í Hafnarfirði og um það hefði aldrei verið nein rekistefna og kostur, að ríkissjóður hefði gleymt þessu. Það er kannske þetta, sem vakir fyrir fylgjendum till., að ríkissjóður gleymi því, sem hann leggur fram til verksmiðjunnar. Ég vildi beina því til hæstv. ráðh., hvort hann vilji ekki athuga þetta líka. Það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um Útvegsbankann, kemur ekki þessu máli við, og fer ég því ekki út í það.