02.05.1949
Neðri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

16. mál, áburðarverksmiðja

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég er ekki á móti þessu ákvæði í frv., ef með því móti er hægt að fá eitthvað af hlutafé frá einstaklingum handa verksmiðjunni, en þá þyrfti að setja fyllri ákvæði um stjórn verksmiðjunnar og arðsúthlutun, en nú er. Í 13. gr. er þess getið, að einstaklingum og félögum sé leyfilegt að leggja fram fé í fyrirtækið og að Áburðareinkasalan leggi fram allt að 1 millj. kr., sem sé óafturkræft framlag. Nú upplysti hæstv. landbrh., að með þessari 1 millj. kr. heimild væri átt við það, að áburðareinkasalan legði þetta fram sem hlutafé, en það er ekki skýrt í gr., og er undarlegt, ef þetta á að vera hlutafé, að komast svo að orði, að það eigi að vera óafturkræft, fremur en annað fé, sem lagt er fram. Ef þetta er ágóðavænlegt fyrirtæki; þá verður að setja nokkuð fyllri ákvæði um arðsúthlutun, en gert er. Það er tekið fram, að greiða megi 6% arð, en ekki tekið fram, að áður skuli greiða til þeirra sjóða, sem skylt er samkvæmt frv. Það getur verið, að það sé talið sjálfsagt, en ég tel heppilegra að setja það í l. Ég vil því benda á það, hvort ekki sé réttara, og óska eftir, að hæstv. landbrh. athugi það, hvort ekki sé réttara að setja ákvæði um það í l., að arðsúthlutun komi þá fyrst til greina, að búið sé að leggja til lögmætra sjóða, því að þegar gert er ráð fyrir, að fyrirtæki sé undanþegið sköttum, er það nauðsynlegt ákvæði og eðlilegt.