09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það liggja fyrir brtt. á tveimur þskj., sem voru ræddar við fyrri hluta umr. Ég vil fyrst taka það fram, að landbn. hefur ekki komið saman til að ræða till. En út af brtt. 637 frá hv. þm. Ísaf. vil ég segja það, að þær brtt. eru í fullu samræmi við þann skilning, sem landbn. vildi leggja í 13. gr. frv., og hæstv. landbrh. staðfesti það einnig með því, sem hann sagði við fyrri hl. umr., að vakað hefði fyrir Ed., þegar gr. var sett inn í frv. þar. Hins vegar verð ég að segja það, að úr því að þessi brtt. er komin fram, þá þykir mér nokkuð óviðfelldið að þurfa að fella hana; af því að því er ekki að leyna, eins og kom fram í umr. seinast, að þessi ákvæði gr., sem hér um ræðir, eru ekki að öllu leyti eins ljóst orðuð og æskilegt hefði verið og það orðalag, sem er hjá hv. þm. Ísaf., er öllu greinilegra, þó að ég líti svo á, að það mætti taka af allan vafa með reglugerðarákvæði. Vil ég því ekki mæla gegn þessari brtt., sérstaklega af því að ég hef mjög mikla ástæðu til að ætla, að það muni ekki á neinn hátt tefja fyrir málinu eða stofna því í hættu, þannig að Ed. muni samþ. málið eins og það liggur fyrir, þó að þessi brtt. verði samþ. Virðist mér því eftir atvikum, þar sem till. er fram komin, að eðlilegast væri, að hv. d. samþ. hana.

En út af brtt. 639 frá hv. 2. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að þó að ég hafi ekki rætt sérstaklega við landbn.-menn, þá mæli ég gegn því, að þær brtt. verði samþ. Í fyrsta lagi er það að segja um fyrri brtt., að það var hliðstæð brtt. felld í Ed., og liggur því í hlutarins eðli, að ef ætti að fara að setja inn slík ákvæði hér eins og þar voru felld, þá mundi það aðeins verða til þess, að málið yrði ekki afgr. á þeim fáu dögum, sem nú eru eftir af þingtímanum, svo að það eitt út af fyrir sig er nægileg ástæða til þess, og ég hygg, að ég mæli þar fyrir hönd meiri hl. landbn., er ég mæli á móti því, að brtt. 639 verði samþ.