09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

16. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er viðvíkjandi því, sem fram kom hjá hv. frsm. landbn., 1. þm. Skagf. Það er rétt hjá honum, hvað snertir fyrri till., að samsvarandi till. hefur verið felld í Ed., en hins vegar gildir það ekki um síðari brtt. mína. Síðari brtt. mín fer fram á það, að meðan ríkið stendur í ábyrgð fyrir áburðarverksmiðjuna fram yfir aðra hluthafa, ef áburðarverksmiðjan er rekin sem hlutafélag, þá skuli stjórnarfyrirkomulag haft eins og segir í 4. gr. M.ö.o. svo framarlega sem þessi brtt. mín er samþ., þá mundi það þýða, að þeir hluthafar, sem legðu fram 4 millj. af 10 millj. kr. hlutafé, yrðu skyldir til þess að taka á síg ábyrgð að sama skapi og ríkissjóður, svo framarlega sem þeir ætluðu að fá þennan rétt, að skipa 2 af 5 í verksmiðjustjórnina. Þetta mundi sem sé þýða, að tryggja virkilega samvinnu og að meira eða minna leyti sameiginlega ábyrgð ríkissjóðs og einkaframtaksins, að þessu leyti. Ég álít þess vegna, að þó að það væri ef til vill skiljanlegt, að meiri hl. þessarar d. tæki það tillit til afstöðunnar, sem kom fram í Ed. um þá fyrri brtt., sem ég ber fram, að hún vildi ekki aðhyllast hana, þá ætti hún alvarlega að athuga afstöðuna til síðari hlutans. — Nú er hv. 1. þm. Skagf. búinn að lýsa yfir, að hann sé sammála því, að till. hv. þm. Ísaf. sé samþ., þannig að málið fer hvort sem er til Ed., og ef síðari till. mín er samþ., þá gerir það engan mun hvað það snertir, að málið fer hvort sem er til Ed. En ég vil vekja athygli hv. þm. á því, hver eðlismunur yrði á þeirri tvenns konar afgreiðslu, hvort mín brtt. á þskj. 639 er samþ. eða felld. Ef hún er ekki samþ. þá þýðir það, að þeir einkahluthafar, sem leggja fram 4 millj., fá ef til vill nokkurn veginn meirihlutavald í fyrirtæki, sem ríkið auk hlutafjárins verður að skaffa a.m.k. 36 millj. kr. í ábyrgðum. Það mundi þýða að hluthafar, sem leggja fram 4 millj. kr., fá a.m.k. jafnmikinn rétt og ríkið til þess að ráðstafa ábyrgðum ríkisins upp á 30–40 millj. kr. Þeir hafa vald á fyrirtækinu, ef þannig vill til, að tengsl eru á milli þeirra, sem þeir kjósa, og þeirra, sem Alþ. kýs. Og ef fyrirtækið stækkar upp í það að vera 20–30 þús. tonn, þá mundi þessu fyrirkomulagi verða haldið áfram, og það yrði erfiðara að breyta þessu eftir á. Ef við göngum inn á þetta sem reglu, að leyfa svona afstöðu, þá verður erfiðara að breyta þessu eftir á, þó að fyrirtækið stækkaði í stóra áburðarverksmiðju, sem ætti að framleiða 30 þús. tonn. Ef mín brtt. er felld, þá þýðir það, að það er verið að gefa þessum einkahluthöfum mjög mikið vald yfir þessu fyrirtæki til þess að hagnýta ábyrgðir ríkissjóðs fyrir sig. En hins vegar, svo framarlega sem mín till. er samþ., þá þýðir það ekki það að bægja einkaframtakinu frá, — það þýðir ekki það, að það sé verið að neita um samvinnu ríkisvaldsins og einkaframtaksins, heldur þýðir það aðeins, að skylda einkaframtakið til að taka á sig jafnmiklar ábyrgðir og ríkissjóður, þannig að ef þeir aðilar leggja fram 4 millj. kr. á móti því, að ríkissjóður leggi fram 6 millj., þá taka þeir á sig ábyrgðir í sömu hlutföllum, þegar verður að fá að láni 30–40 millj. kr. Völdin í félaginu og ábyrgðin skiptist jafnt, og er þetta fyrirkomulag haft, þegar samvinna er á milli hins opinbera og einstaklinga. Ríkið er því að fara inn á nýjar brautir, sem gefa einstökum aðilum meiri hlunnindi, en nokkrum manni hefur dottið í hug að gefa þeim. Þetta er miklu praktískara fyrir þá, sem hafa viljað láta ríkið selja einstaklingum ýmis fyrirtæki sín, og hefur þá ríkið völdin og ábyrgðina, en þeir hagnaðinn og stundum einnig völdin. Nú er það ekki svo, að þeir menn, sem Sþ. kýs, séu skuldbundnir til að standa saman. Þeir eru kosnir sem einstaklingar, og ef þeir ganga til samvinnu við einstaklinga þá, sem eru í stjórninni, þá geta þeir myndað meiri hluta. Þegar um samvinnu er að ræða, þá skyldar ríkið sína fulltrúa til að standa saman. Því sagði ég það, að betra væri, að atvmrh. skipaði fulltrúa ríkisins, og með því móti er ríkisstj. tryggður hreinn meiri hl. og allir þessir 3 fulltrúar tækju tillit til hagsmuna ríkisins, en einn færi ekki að fylgja hinum. En ef þetta bráðabirgðaákvæði verður samþ., þá er girt fyrir þetta og samt héldist þetta fyrirkomulag, þar sem ég er ekki í principinu á móti þessu. En ég vildi að ábyrgð og vald héldust í hendur. Því vildi ég óska, að hv. deild samþ. síðari brtt. Ég vona, að þetta verði samþ., þar sem málið þarf hvort sem er að fara til Ed.