26.04.1949
Efri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

137. mál, erfðalög

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er misskilningur hjá hv. þm. Barð., að ég hafi ætlað að fylgja till. hans, hvenær sem þær kæmu fram, en hafi það verið, sem ég mótmæli, að hafi verið, þá hefur mér orðið hreint og beint mismæli, en ég sagðist fylgja öllum till., sem ég teldi til gagns fyrir þetta málefni, og það væri í raun og veru sjálfsagt. Hitt var það, sem ég drap á áðan, að mér er satt að segja eins og prestinum, að mér óaði við að ganga lengra út í þetta mál, en gert er í frv., eins og það er nú, því að þar er gengið lengra, en aðrar þjóðir hafa gengið, og ég held, að ef menn eru sviptir erfðarétti eftir nánustu ættingja sína, þá fari að tíðkast hin breiðu spjótin og að það auki enn meir á þann ósóma og óvanda, sem verið hefur í þjóðfélaginu, að hin miklu fjölskylduhlutafélög fari að þróast enn meir, þannig að erfingjarnir komi í raun og veru inn í félagsskapinn, og ef tap verður, þá ber gamli maðurinn eða arfleiðandinn það, en ef vel gengur, þá hagnast hinir. Á þennan hátt verður enn meira reytt frá ríkissjóði af því, sem honum ber í erfðafjárskatt.

Ég held, að það sé engin hamingja að fara að slíta svo sundur öll familíubönd, að erfðarétturinn fái ekki að vera lítið eitt fram yfir nánustu ættingja. Við hv. þm. Barð. erum víst báðir það mannlegir, að við höfum ekki óbeit á aurum, ef við getum eignazt þá á réttlátan og heiðarlegan hátt, og þess vegna gerum við okkur tilkomnari við þá nákomnu okkar, sem við vonum að hafa einhverja arfsvon eftir. Ég held, að það séu flestir, sem eru eins og góðir kaupmenn, að þeir séu tindilfættari eftir þeim viðskiptavinum, sem gefa góða ágóðavon. Við vitum, hve ættarböndin voru sterk og hvað blóðblöndunin hafði mikið að segja. En svona stórt stökk, að niðjar erfi ekki forfeður, gengur langt úr hófi. En sá, sem flutti þetta frv., hæstv. dómsmrh., hefði þurft að vera forsvarsmaður þess, en það hefur hann ekki gert, en mælti með því við 1. umr., að það yrði samþ.

Ég ætla nú ekki að ræða þetta frekar nú, það er svo skammt síðan við hv. þm. Barð. vorum að deila, þótt hann sé nú til alls búinn eftir allt, sem fram fór í gær og nótt, og verð ég að lýsa aðdáun minni á dugnaði hans. Ég vil svo mæla með, að frv. verði samþ.