09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

137. mál, erfðalög

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. N. hefur athugað þetta mál, sem er komið hingað frá hv. Ed. N. klofnaði að vísu ekki um málið, en einn nefndarmanna tók ekki þátt í afgreiðslu þess, taldi, að núgildandi löggjöf um þetta efni ætti að gilda áfram og væri óþarft að gera breyt. á henni.

Í þessu frv. eru færð saman þau ákvæði, sem gilt hafa um erfðir hér á landi, en auk þess eru gerðar á núgildandi löggjöf nokkrar breyt., en þær eru einkum þær, að erfðarétturinn er takmarkaður nokkuð við það, sem áður var, þannig að felldur er burtu möguleikinn á erfðum langafa og langalangaafa, sem áður gilti. Þá er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að erfðaréttur kjörbarna öðlist lögfestingu, en það var áður ákveðið með konungsúrskurði. Enn fremur eru sett í frv. ákvæði um, að foreldrar geti sett takmörk fyrir útborgun á arfi til barna sinna, ef þeir telja ástæðu til. Þá er enn fremur gefið leyfi til munnlegrar arfleiðslu undir sérstökum kringumstæðum.

Ég tel ekki, að þetta frv. feli í sér neinar stórar breyt. á núgildandi erfðalöggjöf, en hins vegar eru í því ýmis nýmæli og lagfæringar, sem geta átt betur við það ástand, sem nú ríkir hjá okkur, heldur en þau fyrirmæli, sem um þetta efni eru gefin í eldri löggjöf.