04.11.1948
Efri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Með l. nr. 84 frá 1932 var svo ákveðið, að leggja skyldi 4 aura innflutningsgjald á hvern l af innfluttu benzíni. Fyrir nokkru var ákveðið að hækka þetta gjald upp í 9 aura, en þessi hækkun var þó tímabundin, þ.e.a.s. miðuð við eitt ár í senn. Síðan hefur þessi hækkun verið framkvæmd árlega, en 1947 gekk hún úr gildi. Í fjárlögum fyrir 1948 var gert ráð fyrir því, að ríkið hefði tekjur sem samsvaraði þessu 9 aura gjaldi, en það fórst fyrir að leggja fram frv. um þetta, og stj. varð því að gefa út bráðabirgðalög þau, sem nú hafa verið lögð fyrir d. Í nál. á þskj. 52 leggja 4 nm. það til, að frv. verði samþ. óbreytt. Álitinu til rökstuðnings skal á það bent, að ríkissjóður hefur haft þessar tekjur og má ekki af þeim missa. Einn af hv. nm. varð að hverfa af fundi, og kemur því ekki hans skoðun fram í nál. Á þskj. 48 ber hv. 8. landsk. fram tvær brtt. við frv., og gengur önnur út á það, að tekjur þær, sem fást samkv. ákvæðum þessara l., skuli renna til brúargerðar og að fyrst skuli byggð brú á Jökulsá í Lóni. Þessi brtt. kom ekki fram fyrr en n. hafði tekið sína afstöðu, og get ég því ekki sagt neitt um afstöðu n. til hennar. Ég vildi óska þess, að hún yrði tekin aftur til 3. umr., svo að n. geti tekið afstöðu til hennar.