03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af athugasemd hv. þm. Ísaf. Það er rétt, sem hann segir, að í grg. þessa frv. er komizt svo að orði, að starfssvið landsbókasafnsins og notkun verði eingöngu miðuð við fræðimenn. En um þetta segir ekkert í frv. sjálfu. Nefndin veitti þessu atriði athygli, og talaði um það við þá, sem við hana ræddu á fundi og ég hef áður nefnt, meðal þeirra landsbókavörð. Og eftir að hafa fengið skýringar þeirra, var hún í engum vafa um það, að ekkert slíkt lægi að baki frv., það verður engin skipulagsbreyting gerð á safninu, þótt þetta frv. verði að lögum. Landsbókasafnið er í dag aðalsafn fyrir fræðimenn eða þá, sem afla sér fróðleiks með bókakosti þess. Hins vegar gegnir það ekki hlutverki almannabókasafns að öllu leyti, hefur t.d. ekki íslenzkar bækur til útlána, það hlutverk er ætlað bæjarbókasafninu. Nú hefur landsbókavörður skýrt frá því á fundi menntmn., að ekki komi til greina að loka lestrarsal safnsins fyrir nokkrum, sem vill fræðast þar af bókakosti safnsins sjálfs. En hann sagði, að það færi mjög í vöxt, að fólk leitaði inn á safnið með eigin bækur, t.d. skólafólk, til þess að njóta þar kyrrðar, og það væru stundum svo mikil brögð að þessu, að lestrarsalurinn væri undirlagður af slíku fólki, svo að fræðimenn fengju þar ekki rúm. Hann taldi, að nokkurn hemil þyrfti að hafa á þessu, og það væri það eina, sem kæmi til greina um skipulagsbreytingu, að settar yrðu strangari reglur um, að menn kæmu ekki þangað með eigin bækur. Ég vænti þess, að þetta sé alveg skýrt fyrir hv. þm. Ísaf. og öðrum hv. þm., og legg sérstaka áherzlu á það, að frv. sjálft gefur ekkert tilefni til þess að ætla, að skipulagsbreyting verði gerð á landsbókasafninu.