03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Að gefnu tilefni vil ég enn segja nokkur orð. — Hæstv. menntmrh. hefur nú gefið upplýsingar til viðbótar því, sem ég sagði áðan, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því, sem hann sagði, eða bæta miklu við. Hv. þm. leitar enn eftir því hjá mér sem frsm. þessa máls, að ég geri grein fyrir þeim breytingum á notkun landsbókasafnsins, sem fyrirhugaðar séu með þessu frv. Mér hefur skilizt og það hefur fyrr verið tekið fram í þessum umræðum, að frv. geri í raun og veru ekki ráð fyrir neinum breytingum á notkun safnsins. Ráðuneytinu er heimilað að setja reglugerð um stjórn og starfshætti safnsins, og er þeirri heimild haldið frá gildandi lögum, svo að í því er engin breyting fólgin. Og það mun álit allra, sem hlut eiga að máli, að með reglugerðarákvæði sé ekki gerlegt að takmarka aðgang að safninu, nema fullkomin ástæða sé fyrir hendi, þ.e. safnið njóti sín ekki án slíkrar takmörkunar. En slík ástæða er ekki fyrir hendi í dag, enda stendur ekki til að breyta þessu. En úr því að hv. þm. Ísaf. hefur ekki haft tíma til að kynna sér þetta mál og fylgiskjöl þess, vil ég vísa til fylgiskjala varðandi fyrirspurn hans. Frv. þetta var borið fram í fyrra, og fylgdu því þá sömu fylgiskjöl og nú. Auk þess er það 8. mál þessa þings, svo að nægur tími hefði nú átt að vera til að kynna sér málið, og satt að segja þykir menntmn. hafa orðið allmikill dráttur á afgreiðslu þess af hennar hálfu. En allan þann tíma, frá því er frv. var prentað í fyrra, hefur hv. þm. Ísaf. ekki getað notað til þess að líta yfir þessi fylgiskjöl. Þar sem svona er ástatt, vil ég með örfáum orðum gera grein fyrir því, að þetta frv. er undirbúið ekki sízt vegna þeirrar verkaskiptingar, sem þarf að vera ákveðin í lögum og reglugerðum milli landsbókasafnsins annars vegar og háskólabókasafnsins hins vegar, sem er í örum vexti og er að móta starfsemi sína. Og ekki sízt með það fyrir augum mun hæstv. menntmrh. hafa falið þessum fræðimönnum að undirbúa málið, sem ég gat um, að hefðu samið frv. Um þetta fjölluðu af þessum ástæðum bæði landsbókavörður og menn frá Háskóla Íslands. Það er því meginatriði þessa máls að kveða á um réttindi, skyldur og störf landsbókasafnsins með hliðsjón af því, að háskólabókasafnið er í örum vexti og eðlilegt þykir, að bæði þessi söfn hafi skýrt afmörkuð starfssvið með lögum.