06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

8. mál, Landsbókasafn

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. — Ég vil beina þeirri fyrirspurn til n., hvað margir bókaverðir séu nú starfandi í safninu. Samkvæmt l. eru aðeins tveir aðstoðarbókaverðir, en samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir, að þeir verði sex, og er því gert ráð fyrir, að fjölgað verði um fjóra. Mér er ekki kunnugt, hvað margir eru starfandi við safnið nú, en mér virðist, að áður en frv. fer héðan, væri rétt, að d. fengi nákvæmar upplýsingar um, ef á að fjölga bókavörðunum langt fram yfir það, sem nú er í safninu, hvort þörf sé á þeirri fjölgun. Það má vera, að n. geti strax svarað þessari fyrirspurn, því að ég geri ráð fyrir, að hún hafi kynnt sér það mál. En ég vil endurtaka það, að ef mönnunum er fjölgað með þessu frv. fram yfir það, sem talið hefur verið nauðsynlegt, þá þarf að athuga, hvort sú fjölgun er nauðsynleg.