04.11.1948
Efri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Eins og hv. 7. landsk. sagði, flyt ég tvær brtt. við þetta frv., og vil ég gera nokkra grein fyrir þeim. Fyrri till. gengur út á það, að hætt verði að framlengja þetta gjald árlega og að í stað þess verði ákveðið, að það skuli lagt á frá og með 1. jan. 1948. Í síðari till. er farið fram á, að brúasjóður verði endurreistur og að fyrst verði byggð brú á Jökulsá í Lóni. Með þessu ákvæði yrði í fyrsta sinn í sögu þingsins ákveðinn tekjustofn ætlaður til brúargerða og séð fyrir því, að framkvæmdir geti haldið áfram á þessu sviði. Ég tel það tvímælalaust afturför, spor í skakka átt, að halda ekki áfram eins og til var ætlazt með stofnun brúasjóðs 1941. Hins vegar er hér gengið nokkru lengra, en þar er gert ráð fyrir, þar sem hér er ætlazt til, að 5 aura gjaldið sé allt notað til að byggja brýr yfir stórár. Ég get tekið fram, að í áliti, sem vegamálastjóri sendi samgmn. á síðasta þingi vegna frv., sem hann var beðinn að segja álit sitt um, er hann meðmæltur því að endurreisa ákvæðið um brúasjóð, þ.e.a.s. láta 5 aura gjaldið fara til að byggja þessar stóru brýr. Hann telur, að ekki muni veita af því til að koma á næstu 3–4 árum brúm yfir 3 verstu stórvötn landsins, sem hann telur, að eigi að brúa á þessum tíma. Í þessari till. er gert ráð fyrir að lögfesta þetta í samræmi við álit vegamálastjóra um þetta efni. Hins vegar get ég tekið fram, að hann mun ekki vera því fyllilega samþ., að þessi brú verði sú fyrsta, enda mun hann hugsa sér, að Þjórsárbrú verði á undan. Hins vegar vil ég leyfa mér að gera grein fyrir, hvers vegna ég sæki svo fast, að Jökulsá í Lóni verði brúuð fyrir þetta fé. Í fyrsta lagi vil ég benda á, að það er þegar farið að byggja Þjórsárbrú. Það er búið að leggja mikið fé til hennar og búið að vinna þar að byggingu í sumar, búið að steypa stöplana. Það má telja, að það mannvirki sé komið næsta langt áleiðis. Því verður ekki neitað, að Jökulsá í Lóni er eitt versta stórfljót landsins, sem enn þá er óbrúað. Hún er erfiðasti farartálminn á leiðinni frá Hornafirði til Austurlandsins, því að þjóðvegurinn þar liggur yfir hana. Hins vegar er svo komið með samgöngumál Austurlands, að það má segja, að það sé í þann veginn að koma vegasamband að Jökulsá í Lóni austan frá, og er hún þá eftir sem aðalþröskuldurinn á leiðinni til Austfjarða. Þess vegna leggjum við Skaftfellingar mikið kapp á, að áður en langt um líður verði hafizt handa um að brúa þetta vatnsfall og koma þessu héraði í samband við aðalhéraðið austanlands. Þetta má telja mesta framfaramál héraðsins í heild sinni. Það er kunnugt, að á leiðinni frá A-Skaftafellssýslu til Vesturlandsins eru miklu stærri fljót óbrúuð og litlar líkur til, að það geti orðið í náinni framtíð. — Ég mun svo ekki orðlengja þetta meira. Út af þeirri fyrirspurn frsm. n., hvort ég mundi taka brtt. aftur til 3. umr. til þess að n. geti athugað hana, þá vil ég það mjög gjarnan.