22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

8. mál, Landsbókasafn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég efast ekki um, að þetta frv. út af fyrir sig sé til bóta, ef málið er skoðað eingöngu frá sjónarmiði landsbókasafnsins, og út af fyrir sig hljóta allir að óska eftir því, að jafngóð og þörf stofnun eins og landsbókasafnið er hafi sem allra bezta og fyllsta starfskrafta. Á hinn bóginn verð ég að segja það, þegar ég sé frv. eins og þetta, er ekki liggur ljóst fyrir, hvort hér sé raunverulega starfsmannaskortur eða ekki, en er samkv. upplýsingum hv. frsm., sem hefur athugað málið, raunverulega um fjölgun að ræða, þó að nafninu til kunni að vinna þarna svona margir, að mér finnst dálítið kynlegt, að frv. eins og þetta skuli fljúga í gegn. En vitað er, að aðalvandamál þessa þings er að reyna að standa á móti eða draga úr hinum mikla vexti ríkisbáknsins, sem talað hefur verið um. Það má segja, að hvar sem drepið er niður, sé þörf á þeim starfsmannafjölda sem nú er. Sannleikurinn er sá, að það mun erfitt að finna starfsmenn hjá ríkisstofnunum, sem ekki er þörf fyrir, og þess vegna verður naumast fækkað starfsliði hins opinbera, meðan það blandar sér í öll þau mál, sem það nú gerir. Hins vegar er starfsmannafjöldinn orðinn svo mikill, að mönnum blöskrar og allra ráða er leitað til, að þeim verði fækkað. — Þetta vildi ég benda á, án þess að ég sé á þessu stigi málsins að leggja nokkurn dóm á það, hvort við landsbókasafnið eigi að vinna fleiri eða færri menn.

Úr því að ég er byrjaður að taka þátt í umr. um þetta mál, þá ætla ég að minnast á aðra hlið málsins, sem mér er dálítið kunnugt um. Eins og menn vita, þá eru nú starfandi tvö bókasöfn á þeim vettvangi, sem landsbókasafnið hafði eitt áður, þ.e. landsbókasafnið eins og það er nú, en auk þess háskólabókasafnið. Þessi söfn sinna, eins og nú er háttað, bæði sömu verkefnum, og vaknar þá sú spurning, hvort ekki væri heppilegt að láta þessar stofnanir skipta með sér verkum, þannig að háskólasafnið hafi alveg með eina eða fleiri fræðigreinar að gera, en landsbókasafnið aðrar. Með slíku fyrirkomulagi ætti að þurfa færri menn við söfnin. Ég vil láta þetta koma fram, annars skortir mig þekkingu til að dæma um þetta mál til hlítar, þó að ég sé að vísu dálítið kunnugur því frá fornu fari.