22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

8. mál, Landsbókasafn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er mjög ásáttur með þá aðferð, sem forseti stakk upp á, að vísa málinu til 3. umr. og athuga það svo nánar milli umræðna.

Í framhaldi af því, sem ég sagði áðan, um nauðsyn á að taka fyrir aukna útþenslu ríkisbáknsins, þá væri rétt að athuga, hvenær breyting á starfsmannafjölda við landsbókasafnið hefði orðið og hvort hér eru með taldir skrásetjarar og skrifstofustúlka. Sé þetta starfsfólk ekki talið með í þessum 7 manna hóp, þá væri fróðlegt að fá skýrslu um starfsmannafjöldann og hvenær sú aukning hefði orðið. Sömuleiðis væri æskilegt að fá vitneskju um, hversu margir starfsmenn eru við háskólabókasafnið. Ég vil taka það fram, að ég er síður en svo að reka hornin í síðu landsbókasafnsins með þessum tillögum.