22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

8. mál, Landsbókasafn

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Mér virðist svo sem þessar umræður hafi gefið tilefni til þess, að þetta mál verði tekið fyrir til nánari athugunar. En ég vildi láta þá skoðun koma fram, að mér finnst réttara, að umr. sé frestað. Mér væri illa við að greiða við 2. umr. atkv. með greinum, sem fyrir fram er vitað, að muni verða breytt.

Það er ekki ófyrirsynju, að þessar umræður hafa orðið hér um starfslið landsbókasafnsins, og kom hæstv. dómsmrh. réttilega að því. Hins vegar þarf fróðari mann en mig til að leggja dóm á það, hvort starfsliðið er of mikið eða ekki. En samkv. upplýsingum hv. þm. Barð., virðist hafa verið greitt talsvert fé fyrir ýmis störf, sem bókaverðirnir sjálfir gætu e. t. v. unnið. Og ég hygg, að þetta mál verði a.m.k. dálítill prófsteinn á viljann til þess, sem hér hefur réttilega verið minnzt á, þ.e.a.s. fækkun starfsmanna ríkisins við opinber störf; og ég hjó einmitt eftir því í ræðu hæstv. dómsmrh., að menn vildu jafnvel ganga svo langt í slíkum sparnaði að draga úr kostnaði við störf, sem enginn ágreiningur er þó um, að séu þjóðnauðsynleg. Og ég vil segja það, að þar sem hægt er að leiða gild rök að því, að draga megi úr slíkum kostnaði, þá er ég því fylgjandi.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að við allar þær yfirheyrslur, sem farið hafa fram í fjvn., hefur engum þótt fært að draga úr kostnaði viðkomandi fyrirtækja. Hins vegar er það rangt, að nokkur hafi farið fram á, að vinnutíminn yrði styttur, — a.m.k. hef ég ekki heyrt neinn forstjóra tala um að hann væri of langur. Hitt er svo ekki nema mannlegt, þótt menn vilji hafa sem mest fé úr að spila og kæri sig ekki um, að dregið sé úr því.

Ég vil svo beina því til hæstv. forseta, að fresta þessari umr. á meðan málið er tekið til frekari athugunar.