17.03.1949
Efri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

8. mál, Landsbókasafn

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort það voru meiningar til mín, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, að sumir vildu geyma allt til síðustu stundar. Ég veit ekki, hvort hann þar átti við mig, og þá kannske sem forseta deildarinnar. Eftir því sem orð hans féllu áður, mætti kannske búast við, að hann hefði átt við það. Mér þykir það nú koma úr hörðustu átt, að slíkt sé talað til mín, því að ég þykist hafa gert mér far um að koma málum áfram í hv. þd. og fá úrslit um þau, annaðhvort til framgangs þeirra eða hins gagnstæða. Og það var nú einmitt þess vegna, að ég tók þetta mál á dagskrá nú, að það er ekki mikið um mál, sem nú liggja fyrir þessari hv. d., og vildi ég þá heldur koma því eitthvað áfram, en að það væri að þvælast fyrir, kannske þegar eitthvað meira og stærra þarf að vera fyrir hv. þd.

Annars, ef það eru á skrá taldir sjö bókaverðir við safnið, þá hefur nefndinni verið skýrt rangt frá. Hv. 1. þm. N-M. las upp sjö nöfn á mönnum, sem hann sagi, að væru landsbókaverðir. (GJ: Ég skal lána hv. þm. skjölin frá landsbókaverði.) Já, hér eru ekki taldir nema sex bókaverðir. (GJ: Og aðstoðarbókavörður.) Já, og vélritunarstúlka. Og þetta kemur þá að því leyti alveg saman við það, sem n. var skýrt frá. Þarna eru sex bókaverðir og allir skipaðir. Auðvitað eru fjórir þeirra skipaðir á ólöglegan hátt, utan við lög og rétt. En tveir þeir síðustu munu vera skipaðir af hæstv. fyrrv. menntmrh., Brynjólfi Bjarnasyni, fyrir utan lög a.m.k. En hver, sem nokkurn tíma hefur komið í landsbókasafnið, veit það, að það er alveg ómögulegt að starfrækja landsbókasafnið, eins og það er nú, eftir lögunum frá 1907. Og það, þó að fyrrv. hæstv. ráðh. skipaði tvo bókaverði þarna án þess að hafa lagaheimild fyrir því, og einhverjir ráðh. á undan honum hafi einnig gert það sama, sem ég veit ekki, hverjir voru, hafi skipað aðra tvo á sama hátt, þá er það ekki annað en það, sem viðgengizt hefur yfir heilu línuna. Í l. um æðstu stjórn Íslands frá 1903 er gert ráð fyrir, að í hverri stjórnarráðsdeild sé einn skrifstofustjóri, einn aðstoðarmaður og einn skrifari. Ég held, að þessi lög séu í gildi enn að öðru leyti en því, að stofnað hefur verið utanríkisráðuneyti og einhver önnur ný ráðuneyti. — En síðan þetta skeði, að bókaverðir voru skipaðir við landsbókasafnið, í fyrstunni án lagaheimildar, þá er þetta þó nú orðið löglegt, því að Alþ. hefur með fjárlögum staðfest þetta hreint og beint, með því að ætla fé til safnsins með tilliti til þessara bókavarðarstarfa. — En nú vil ég benda hv. 1 þm. N-M. (nú, hann er víst rokinn burt úr deildinni, þó að hann sé manna þaulsætnastur hér) á það, að ég tel það miklu síður geta komið til, að nokkur ráðh. muni leyfa sér að fjölga bókavörðum þarna án lagaheimildar, ef þetta frv. verður samþ., heldur en annara, vegna þess að í frv. stendur: „allt að 6.“ Þetta „allt að“ sýnir það, að fleiri eiga bókaverðirnir ekki að vera en 6, eða ég kann þá ekki að lesa mælt mál, ef það þýðir ekki það. Hvað aðstoðarbókavörðinn snertir, þá sýnist mér, að ef þetta frv. verður samþ., þá verði það starf niður að falla. Um vélritunarstúlku er hins vegar ekkert í frv. Og þó að þarna sé ein vélritunarstúlka, þá er það ekki meira, en víða er á skrifstofum.