04.11.1948
Efri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Að vísu er brtt. á þskj. 48 tekin aftur til 3. umr., en samt sem áður er það sú till., sem gaf mér tilefni til að kveðja mér hljóðs. Það er öðru nær en svo, að ég játi ekki nauðsyn þess, að gerð verði brú yfir Jökulsá í Lóni. Það er sjálfsagt mikil nauðsyn að brúa það fljót. En úr því að svo er ákveðið, að fresta skuli afgreiðslu till. og hún fari til 3. umr., svo að n. geti athugað og gert till. um hana, þá vil ég taka það fram, úr því að hv. flm. leggur svo mikið kapp á að flýta þessari brúargerð, til athugunar fyrir n., að það er önnur brú, sem Alþ. sjálft hefur ákveðið, að skuli verða fyrr gerð. Það er til alþingissamþykkt um það, að sú brú skuli reist 1948, síðastl. sumar. Sumarið er nú liðið hjá, en alþingissamþykktin stendur óhögguð. Þessi brú á að koma yfir Hvítá hjá Iðu í Biskupstungum. Það eru vitanleg atvik, sem liggja fyrir um það, að þessu var frestað. Það var gert af brýnni, sérstakri nauðsyn, þegar menn fóru að óttast um, að Þjórsárbrúin gamla þyldi ekki þann þunga, sem henni var boðinn. Menn fóru að óttast um, að eins færi fyrir þessari gömlu brú og gömlu Ölfusárbrúnni, og því þótti sjálfsagt, að Þjórsárbrúin gengi fyrir lögmætri framkvæmd hinnar brúarinnar. Það var þetta, sem ég vildi láta koma ljóst fram, og ég vona, þar sem samþykkt þingsins liggur fyrir um það, að það verði, eins og einn gamansamur hv. þm. orðaði það, látið ganga fyrir að „brúa þessa brú“. — Hv. n. vil ég segja þetta, að ég álít, að þ. eigi að standa við sínar ákvarðanir og láta byggja brúna yfir Hvítá hjá Iðu, þegar lokið er við að gera Þjórsárbrú, þó að ég viðurkenni hins vegar nauðsyn þess, að ekki verði endalaust frestað að gera brú yfir Jökulsá í Lóni. Hins vegar verður að gæta þess, hvernig málið liggur fyrir og hvernig búið er að binda röð þeirra framkvæmda, sem hér koma til greina.