09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

8. mál, Landsbókasafn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég ætlaði ekki að taka til máls. En vegna þess að fyrirspurn var beint til mín, verð ég að svara henni. — Hv. 3. landsk. þm. spurði, hvort hægt væri að samþ. þessa till. þannig, að hún hefði áhrif og tveir embættismenn hyrfu þannig frá störfum. Ég vil vekja athygli á því, að samkvæmt landslögum eru það ekki nema 2 menn af þessum 6, sem hafa reglulega embættisveitingu og verða taldir embættismenn. Hinir 4 eru aðeins laust ráðnir með þeim hætti, að um þá gilda ekki sömu reglur og um embættismenn eða fasta starfsmenn, þannig að það hlýtur að vera hægt að losa þá við störf með sama hætti og allan þann aragrúa af opinberum starfsmönnum, sem ráðnir eru án heimildar í lögum til þess að gegna sérstökum störfum.

Ef þm. meina nokkuð með þessu tali sínu um að spara, þá er þarna kjörið dæmi til þess að fullnægja þeirri ósk með því að samþ. brtt. hv. þm. Barð. Þarna hefur ein stofnun blásið stórkostlega út á örfáum árum og meira en eftir þeim tölum sem hér eru taldar, því að hér verður einnig að taka tillit til háskólabókasafnsins, en þar eru a.m.k. 3 menn til viðbótar. Við þessi söfn starfa þá að minnsta kosti 10 menn, en munu hafa verið eitthvað 4–5 fyrir stríð. Nú er upplýst m.a., að 2 menn þarf til þess að sitja yfir innan við 10 mönnum, sem mæta á safninu fyrir hádegi og á kvöldin. Það þarf hvorki meira né minna en 2 fíleflda karlmenn, hálærða vísindamenn til þess að passa upp á þessar fáu hræður. Þetta er sjálfsagt allt í lagi, og ég efast ekki um, að hægt sé að færa rök að því. En ef menn eru að tala um óhófseyðslu hjá ríkinu, er hér ágætt tækifæri til þess að sýna vilja sinn til að spara, og tel ég miður farið, að síðasti ræðumaður skyldi ráðast á hv. þm. Barð. fyrir það að flytja brtt. Til hvers er verið að hafa 3. umr.? Til þess að menn geti komið með brtt. Það verður ekki móti því mælt, að þetta mál hefur ekki fyrr en nú við þessa umr. legið fullkomlega skýrt fyrir þdm. Ég þori að fullyrða, að þessar tölur um það, hvað fáir koma á safnið á morgnana og kvöldin, hafa ekki verið lesnar fyrr upp í deildinni, þó að frsm. hafi sýnt mér þær persónulega fyrir 1–2 vikum. Ég tel, að þetta mál, sem er í sjálfu sér lítið mál og hefur kannske orðið umræðufrekara, en efni standa til, sé því aðeins merkilegt, að það sé tekið sem dæmi til þess að sýna, hvernig ríkisreksturinn hefur blásið út og hvaða þm. það eru, sem vilja, þegar á, á að herða, gera eitthvað til þess að draga úr þessum rekstrarkostnaði. Ég hef ekki viljað stöðva þetta mál með því að bera fram brtt. En úr því að einn hv. þm. hefur sýnt sparnaðarvilja sinn með brtt., vil ég greiða henni atkvæði mitt.