09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

8. mál, Landsbókasafn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. beindi til mín þeirri spurningu, hvort ég teldi hægt að láta tvo menn fara, sem þegar eru komnir í safnið, ef brtt. mín yrði samþ. Hæstv. dómsmrh. hefur svarað þessu, en ég vil þó bæta því við, að jafnvel þótt það væri ekki hægt, meðan þessir menn lifa, væri ekki nauðsynlegt að ráða í stöðurnar aftur, ef þessir menn skyldu hverfa til annarra starfa eða falla frá, þannig að það er mikill eðlismunur á því, hvort skylt er að hafa framvegis 6 menn við starfið eða 4, eins og verða mundi, ef brtt. mín yrði samþ.

Hv. 3. landsk. spurði, hvers vegna ég hefði ekki borið fram sparnaðartill. í fjvn. í sambandi við þetta mál. Ég vil fyrst og fremst benda hv. þm. á það, að sú fullyrðing hans, sem hann hefur haldið fram á Alþ., að ég hafi alla fjvn. í vasanum, er ekki á rökum byggð, og þess vegna veit hann ekkert nema ég hafi gert þetta. Þetta er þá borið fram í þeirri trú, að ég ráði öllu í fjvn. og enginn annar.

Þessi brtt. er, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, mælikvarði á það, hvort menn vilja raunverulega spara eða þetta er aðeins í nösunum, þar sem ég legg hér til, að ekki sé hér lögboðin full tala þessara manna. Ég vil því vænta þess, að hv. 3. landsk. og aðrir þm. ljái brtt. minni fylgi sitt, sem er ekki fram komin til þess að spilla málinu, heldur af hreinni nauðsyn.