05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér hér í þessi málsatriði, sem nú fóru hér síðast fram, milli hæstv. fjmrh. og hv. þm. Barð., en ég vil þó taka það fram, að ég tel vafasamt að setja ríkisfjárhirzluna sem eina deild í bankann. Þar að auki mundi ég ekki, ef ég væri bankastjóri með sjónarmið bankans fyrir augum, hleypa slíkri stofnun inn í bankann og gera hana þar að einni deild. Ég segi þetta ekki af því, að þessi stofnun hafi illt orð á sér, síður en svo, þetta er eins og við vitum allir saman allra prýðilegasta stofnun. En eins og nú háttar, er það engan veginn heppilegt að blanda þessum tveim peningastofnunum saman. (HV: Er ríkið peningastofnun? Er það ekki miklu heldur peningaleysisstofnun?) Hv. þm. getur dregið þær ályktanir, sem honum fellur bezt. En eins og á stendur, þá tel ég, að þetta yrði ekki heppileg ráðstöfun.

Hvað endurskoðunina varðar, þá er það kunnugt, að það fer fram tvenns konar endurskoðun á ríkisreikningnum, það er endurskoðun yfirskoðunarmanna Alþingis og endurskoðun fjmrn., og má um það deila, hvorum það sé meira að kenna, hvað seint gengur. En sú reynsla, sem ég fékk þau tvö ár, sem ég hafði með þetta að gera, er sú, að þá heyrði ég aldrei frá yfirskoðunarmönnum Alþingis. Af þessu markaði ég það, að þeir væru langt á eftir, jafnvel miklu lengra á eftir, en endurskoðun fjmrn., sem þó er ærið þung í togi. Ég veit, að þetta er erfitt verk og verður ekki leyst nema með hörðum átökum, en ég vil benda á það, að aðalráðið til þess að koma þessu í viðunandi horf er að setja upp endurskoðun fyrir hinar ýmsu greinar, en sameina þetta ekki allt saman og gera það að einni stofnun í fjmrn. Það er ekki von, að vel fari, þegar þetta er framkvæmt eins og það er nú, En hins vegar ætti að vera hægt að gera þessu skil á hæfilegum tíma — tvö ár er ekki hæfilegur tími —, ef það verður fært í líkt horf og nú er farið að taka upp við ýmsar stærri stofnanir og fyrirtæki, og það er sýnt, að það verður að koma þessu í annað horf, hvernig sem því verður við komið.

Hvað prentunina snertir, þá skiptir það auðvitað ekki nokkru máli, hvar hún fer fram, aðalatriðið er, að hún sé gerð fljótt. Ég tel, að það eigi að gefa reikninginn út strax eftir mitt ár næst á eftir því, sem reikningurinn er fyrir, þó að endurskoðun sé ekki lokið, svo að menn geti glöggvað sig á honum, en talnabreytingar og aðrar leiðréttingar mætti síðan taka upp í reikninginn fyrir næsta ár á eftir. Það stoðar ekki að hafa starfandi að þessu heila stofnun, ef skýrslur hennar koma ekki fyrr en svo mörgum árum eftir, að raunverulega er ekkert gagn að. Til þess að hægt sé að læra af reynslunni, þá verða reikningarnir að koma það fljótt út, að menn geti lært af þeim, en eins og nú háttar, þá eru þeir einskis virði, ef þeir koma ekki út fyrr, en eftir svo og svo langan tíma. Þetta er að vísu aðeins lagalegt, en þrátt fyrir það er þetta alveg óviðunandi fyrirkomulag, því að ég álít, að ríkisreikningurinn sé heimild, sem þm. er nauðsynlegt að fá, og það sem fyrst.