05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða það hér við hv. 1. þm. Reykv., hvað sé heppilegast að gera í þessu sambandi. Hins vegar vildi ég gjarna fá að sjá svör Landsbankans út af þessum till., sem ég gat um áðan, og ég get ekki skilið, hvers vegna svörin skuli ekki vera komin eftir svo langan tíma. Að vísu heyrðist mér það á einum ráðherra stjórnarinnar, að stjórnin áliti þetta ekki til bóta, en ég hef hins vegar fengið að sjá gögn, sem Landsbankanum hafa verið send í sambandi við þetta mál, og fengið tækifæri til þess að athuga málið og getað myndað mér skoðanir um það, en óska þess jafnframt eindregið, að fjvn. gæti fengið svar við þessu bréfi sínu.

Út af sjálfum ríkisreikningnum langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., hvort þm. geti ekki fengið fjölritað eintak af honum á haustin, þegar þing kemur saman, eins og fjvn. fær, því þó að reikningurinn sé þá að vísu ekki alveg fullkominn, þá er þó alltaf hægt að átta sig á honum í öllum meginatriðum, og tel ég að, að því yrði stór bót.

Ég hef ekki séð reikninginn fyrir árið 1948, það er líklega ekki búið að loka honum, en hann verður sjálfsagt til og lagður fyrir fjvn., þegar þingið kemur saman í haust, og tel ég þá, að það yrði til mikilla bóta, ef allir þm. fengju eitt eintak sams konar og þau, sem fjvn. fær.