07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur nú látið í té út af þeim ummælum, sem urðu hér siðast þegar málið var til umr. í deildinni. Ég get ekki betur séð en að þær upplýsingar, sem ráðh. hefur gefið, séu hörð áminning til yfirskoðunarmanna Alþingis, og mér finnst það vera óviðunandi vinnubrögð, að ekki skuli vera búið að endurskoða ríkisreikninginn fyrir árið 1946. Ef slík vinnubrögð eiga að þolast, þá get ég ekki betur séð, en að Alþingi geti alveg hætt við þessa endurskoðun og þar með hætt að kjósa þessa menn. Sá eini af þessum yfirskoðunarmönnum, sem sæti á í þessari deild, er því miður ekki viðstaddur á þessum fundi, svo að ég vil ekki vera að deila á yfirskoðunarmennina, þegar enginn er til svara. — En þar sem hv. 1. landsk. er nú kominn inn í deildina, þá skal ég gjarna endurtaka það, sem ég sagði um yfirskoðunarmenn Alþingis. Ég var að segja það, að ég tel þessi vinnubrögð algerlega óviðunandi, ef það er rétt, að ekki sé lokið við yfirskoðun á ríkisreikningunum 1946, og ef hv. yfirskoðunarmenn álíta sig ekki hafa skyldu til þess að hraða þessu verki sínu, þá álit ég, að hæstv. fjmrh. verði að hnippa í þá, svo að það megi verða, því að mér skilst, að sá dráttur, sem á þessu hefur orðið, stafi ekki af endurskoðun fjmrn., því að eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti, þá er sú endurskoðun nú komin í það horf, að ekki þarf að standa á henni.

Að því er sjálfa prentunina varðar, þá skiptir það auðvitað ekki nokkru máli, hvort reikningarnir eru prentaðir í Gutenberg eða einhverri annarri prentsmiðju, þegar ríkisprentsmiðjan getur ekki afkastað öllu því, sem hún á að vinna fyrir ríkið. Ef fjmrn. leitaði til annarrar prentsmiðju um prentun reikningsins, þá ætti það ekkert að verða dýrara, eða að minnsta kosti ætti kostnaðurinn ekki að verða svo miklu meiri, að það geti verið ástæða til að draga útgáfuna af þeirri ástæðu.