07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti Ég skal viðurkenna, að ég hef ekki getað fylgzt með 2. umr. þessa máls af óviðráðanlegum ástæðum, en vil hins vegar taka það fram, að ég er ekki vel undir það búinn að taka hér til máls, en þó að ég hafi ekki nein gögn í höndunum máli mínu til frekari sönnunar, þá vil ég samt taka það fram, að það hefur gætt nokkurs misskilnings hjá hæstv. fjmrh., ef hann heldur því fram, að rétt sé að kasta allri sökinni á drættinum á yfirskoðunarmenn Alþingis. Ríkisreikningnum fyrir árið 1945 hefur þegar verið útbýtt á Alþingi. Hins vegar hefur ekki verið lokið við athugasemdir né þeim skilað fyrir ríkisreikninginn 1946, en hin raunverulega yfir,ferð og samanburður hefur farið fram alveg síðan í haust, og hafa þingannir valdið því, að ekki hefur verið unnt að klára það. Annað er það í þessu máli, að yfirskoðunarmennirnir hafa ekki talið sig geta byrjað yfirferð sína fyrr en búið væri að loka reikningnum og hann lægi fyrir prentaður. Þetta hefur alltaf verið þannig, eins og hv. 8. landsk., sem einu sinni hefur unnið að þessu, getur borið vitni um.

Nú er ég ekki vel undir það búinn að taka hér til máls, en reynslan hefur sýnt, að ekki er ávallt búið að loka reikningnum, þegar við fáum hann, og þegar við förum að grennslast eftir því, hvers vegna svo er ekki, þá fáum við þau svör, að eitthvað sé eftir óinnkomið, sem veldur því, að reikningnum er seint lokað. Ég hef ekki tölur við höndina til að sýna þetta, en það er hægt að sanna, að svona hefur þetta verið. Við 1946–reikninginn lágu öll gögn fyrir, það er alveg rétt, en hins vegar vil ég benda á það, að það fer fram önnur endurskoðun, krítísk endurskoðun, og það er vitað, að á þeirri endurskoðun verða yfirskoðunarmenn Alþingis að byggja sína skoðun, því að ef þeir eiga að fara yfir allt án hennar, þá er ekki neinn tími til þess. Ég held, að ég fari rétt með, að skrifstofustj. fjmrn. upplýsti það, að nú væri allt kapp lagt á að vinna upp gamla reikninga og þeir væru með reikninga á öðru árinu óendurskoðaða, og hygg ég, að hann hafi með því átt við reikninginn 1947 og að sá reikningur sé ekki fyllilega endurskoðaður,og er þar þó nægur mannafli. Yfirskoðunarmenn Alþingis líta hins vegar svo á, að þeir geti ekki sannfærzt um reikninginn, nema þessi endurskoðun hafi farið fram áður. Með þessu er ég ekki að fegra okkar seinagang á endurskoðun reikningsins 1946, en það eina, sem eftir er að gera í sambandi við þann reikning, er að ganga frá athugasemdum í sambandi við hann, en við munum ljúka því áður en þingi lýkur.

Ef ég hefði verið betur undirbúinn, þá gæti ég hrakið það, sem að okkur hefur verið fundið, en ég segi það, sem ég sagði áður, að það er tæplega hægt að sannfærast og prófa, hvort reikningurinn er réttur, nema reikningsleg endurskoðun hafi farið fram áður. Hv. frsm. hefur verið að víta yfirskoðunarmennina fyrir seinagang, en hann verður að taka það með í reikninginn, að við verðum að byggja okkar skoðun á upplýsingum, sem getur staðið á, að við fáum. Annars vænti ég þess, að það gefist betra tækifæri til þess að skýra þetta við afgreiðslu málsins í Nd., og mun ég benda meðnm. mínum þar í deildinni á að undirbúa sig betur undir það.

Það hefur verið sagt af hæstv. ráðh., að ríkisreikningurinn fyrir árið 1947 liggi fyrir í handriti tilbúinn til endurskoðunar. Það má kannske segja sem svo, að reikningurinn þurfi ekki að vera prentaður, til þess að endurskoðun geti hafizt, en ég vil þá spyrja, hvort búið sé að loka honum. Það getur verið, að svo sé, en þá er það líka betra en venjulega, en ég leyfi mér að efast um það, að svo sé, jafnvel þó að hæstv. ráðh. segi það. Þá er það einnig talsvert mikið verk að prenta hann, því að ég hygg, að það sé meiri vandi að prenta hann, einmitt vegna þess, að svo margar tölur eru í honum, sem mikla aðgæzlu þarf við, en á prentuðum reikningum verður að byggja endurskoðun yfirskoðunarmannanna. Þegar hæstv. ráðh. segir, að það megi ekki útbýta reikningnum nema prentuðum og endurskoðuðum; þó að undirskrift yfirskoðunarmanna sé ekki komin á reikninginn, þá minnist ég þess þó, og ég held, að ég muni það alveg rétt, að reikningnum hafi verið útbýtt í handriti til þm., þó að það hafi ekki verið gert 2–3 s.l. ár.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram vegna ádeilu á yfirskoðunarmenn Alþ. og skoðun þeirra, því að svo mikið bákn sem ríkisreikningurinn er nú orðinn, þá er það ársstarf fyrir 3 menn að minnsta kosti, ef fara á nákvæmlega í hann, því að þeirri endurskoðun, sem fram fer í fjmrn., vinna annaðhvort 9 eða 10 menn — ég man nú ekki hvort heldur var — allan ársins hring, og eru þeir þó ekki búnir að ganga frá reikningunum árið 1947.