17.02.1949
Efri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er nokkuð langt liðið síðan menn urðu þess varir, að húsakostur Menntaskólans í Reykjavík var orðinn allt of lítill og ófullkominn á ýmsa lund. Var þá farið að athuga, hvaða ráð væru heppilegust til úrbóta. Var í því sambandi skipuð byggingarnefnd, og þessi byggingarnefnd lagði til, að byggt yrði nýtt skólahús á öðrum stað í bænum. Síðan var aflað lóðar með þetta fyrir augum, en litlu síðar vildi bærinn fá lóðina til annarra nota, og þá þurfti í samráði við stjórn bæjarins að útvega annan stað fyrir skólann. Þegar þetta var á döfinni, kom það í ljós, að um það voru mjög skiptar skoðanir, hvort heppilegt væri að reisa nýjan skóla, og mætti það mikilli mótspyrnu, bæði hér á Alþ. og utan þess. Þáverandi menntmrh. hafði þetta mál til athugunar og síðan ég, og var niðurstaðan af þeim athugunum sú, að rn. vildi ekki leggja í það, eins og á stóð, en fjárhagur ríkisins var þá farinn að versna, að fara að láta byggja nýtt skólahús á nýjum stað í bænum. Enn fremur var vitað, að mikill ágreiningur var um þetta og mundi það verða til þess að þyngja róðurinn til þess að afla fjár til nýrrar byggingar. Þá hefur og verið athugað að fara aðra leið, sem sé þá að stefna að því að byrja að bæta við húsakost menntaskólans þar, sem hann er núna til húsa, og haga byggingum þannig, að þær gætu orðið liður í byggingum, sem hægt er að nota til frambúðar um lengri tíma, og jafnvel að aðrir skólar eða stofnanir fengju þarna líka stað, ef ekki kæmi síðar í ljós, að aðrir staðir væru heppilegri fyrir það.

En það verður að leysa þetta mál úr þeirri sjálfheldu, sem það er komið í, og gera það vel úr garði, svo að það gæti verið opið fyrir síðari tíma að ákveða, hvort á þessum stað skuli vera framtíðaraðsetur skólans eða hvort horfið skuli að öðru ráði. Við athugun á þessu, sem gerð var af fræðslumálastjóra, rektor skólans og húsameistara ríkisins, kom það í ljós, að nauðsynlegt var að færa svæðið nokkuð út, og var lagt til, að ríkið eignaðist lóðir þær og lóðahluta, sem taldar eru í frv. þessu, vegna viðbótarbygginga, sem nauðsyn ber til að reisa á næstunni vegna Menntaskólans í Reykjavík. Þetta er miðað við þær byggingar, sem nauðsyn þykir að reisa. En þessar lóðir eru Amtmannsstígur 2C, Amtmannsstígur 4A og Bókhlöðustígur 7, og auk þess neðri hluti lóðarinnar Þingholtsstræti 14. Þetta er miðað við það, að byggingu verði þannig hagað, að gamla leikfimihúsið verði rifið, en á svipuðum stað, sem það er núna, verði byggt nýtt hús, sem verður hluti af framtíðarbyggingu skólans, og verði það þá byggt frá Bókhlöðustíg. Ef þetta verður framkvæmt, þá er skólinn vel settur með húsakost. En ég fer nú ekki út í það núna að lýsa húsakosti skólans, en eins og þm. vita, þá er skólinn allt of ófullkominn hvað húsakost snertir fyrir alla þá nemendur, sem þar eru nú. Það verður svo aftur annað mál á sínum tíma, hve þingið verður örlátt við framkvæmdir þessara nýbygginga.

Ég skal ekki segja, hvernig það er með lóðirnar. Það hafa lítið verið athugaðar kröfur eigendanna, en eins og frv. ber með sér, þá er þarna lagt til, að það verði látið fara fram eignarnám, en samningaleiðin verður að sjálfsögðu reynd.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta hér meira en orðið er, en vil láta það í ljós, að ég er reiðubúinn til þess að gefa n. kost á að athuga þessi plögg nánar. Svo legg ég að endingu til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. (GJ: Það á að vísa þessu til fjhn., þar sem þetta hefur fjárútlát í för með sér.) Ég vil minna hv. þdm. á, að það eru ekki öll mál, sem eiga undir fjhn., þó að í þeim séu einhver útgjöld, heldur eru það skattamál og fjáröflunarmál, sem heyra til fjhn. Öðrum málum er vísað til þeirra sérstöku nefnda, sem þau heyra helzt undir, og þess vegna er það langeðlilegast, að þessu máli verði vísað til menntmn.