28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð um þetta mál, áður en það fer í nefnd. Það eru tvenns konar rök fyrir því, að þetta mál á að ganga svo skjótt gegnum þingið. Annars vegar er tryggð lóð fyrir skólann, en hins vegar er skorið úr viðkvæmu deilumáli, sem staðið hefur vegna staðsetningar skólans í framtíðinni. Um fyrra atriðið ræði ég ekki sérstaklega, þar sem ég er algerlega samþykkur, að ríkið eignist þær lóðir, sem hér um ræðir. Hitt atriðið vil ég ræða nokkuð og þá einkum með tilliti til Alþingis. Það hafa verið færð fram þau rök fyrir því, að menntaskólinn megi ekki hverfa af þeirri lóð, sem hann er nú, vegna þess að hann hefur staðið þarna meira en 100 ár. Einkum var lögð áherzla á þetta í sambandi við 100 ára afmæli skólaris fyrir stuttu. Nú þykist ég hafa eins hlýjar tilfinningar til skólans eins og hver annar stúdent, sem þaðan hefur útskrifazt, en þó tel ég; að ein stofnun eigi meiri rétt til þessa húss, en allir þeir nemendur, sem þaðan hafa útskrifazt, og þessi stofnun er einmitt Alþingi. Áður en nokkur piltur hóf nám sitt í þessu húsi, var háð þar þing, og allt stjórnmálatímabil Jóns Sigurðssonar, glæsilegasta tímabilið í íslenzkri stjórnmálasögu, er tengt við þetta hús sterkum böndum. Ég álít því, að Alþingi eigi meiri kröfu til þessa húss en við, sem þaðan erum útskrifaðir, og þess vegna tel ég, að húsið og minningarnar, sem það geymir, eigi að tengjast við Alþingi, þegar húsið hæfir ekki lengur, sem menntaskóli. Ég vil því biðja hv. n. að athuga alvarlega þessa hlið málsins og þá sérstaklega með hliðsjón af húsnæðisvandræðunum hér á Alþingi. Ég álít, að mikið mætti bæta úr starfsskilyrðunum á Alþingi, ef það fengi þetta hús til afnota. Þar gæti forseti lýðveldisins fengið húsnæði til umráða, og mætti þá flytja forsetaskrifstofurnar úr alþingishúsinu, en við það mundi rýmkast um Alþingi. Gamli hátíðarsalurinn í menntaskólanum gæti þá verið viðhafnarsalur fyrir forsetann, og teldi ég það vel ráðið, því að varla er hægt að gera annan sal hátíðlegri, þegar sá er vel skreyttur. Sömuleiðis getur gangstígurinn upp að húsinu verið mjög glæsilegur og hátíðlegur, ef vel er til skrauts vandað. Þessu tel ég að beri að stuðla að, og mega þá allir vel við una, ef við gamla skólahúsið verða í framtíðinni tengdar glæstustu minningar úr sögu þjóðarinnar og hátíðarsalurinn notaður sem víðhafnarsalur íslenzka lýðveldisins.

Hitt tel ég ekki heppilegt, að þarna verði reistur skóli, því að bæði er landrými of lítið og auk þess óheppilegt að hafa hann í miðbænum. Þetta vildi ég biðja hv. n. að athuga gaumgæfilega, en flaustra þessu máli ekki af. Hinu er ég alveg sammála, að ríkið taki eignarnámi umræddar lóðir, því að vafalaust verður þörf á þeim fyrir opinberar byggingar í náinni framtíð.