09.12.1948
Efri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér skilst eftir umr. um þetta mál, að þá muni þessi brtt. eiga betur við í 66. máli, og vil því sérstaklega mælast til, að flm. sjái sér fært að taka hana aftur hér og flytja hana heldur við 66. mál. Um málið sjálft verð ég að segja það, að mér er ekki fullkomlega ljóst, hvort hægt er að samþ. þessi l. Ég er nefnilega alls ekki viss um, að hægt sé að setja l. 16. júlí 1948 um það að innheimta skatt frá 1. jan. sama ár. Það er að minnsta kosti mjög hæpið, að hægt sé að láta lög verka þannig aftur fyrir sig. Annars langar mig að fá umsögn lögfróðra manna um þetta atriði, áður en ég greiði atkv. um málið.

Hvað viðvíkur framkominni brtt. um að ákveða, að fyrst skuli byggja brú yfir Jökulsá í Lóni fyrir fé úr brúasjóði, þá tel ég ekki að það sé rétt. Það á að mínu áliti að ákveðast af Alþ. á hverjum tíma, hvenær taka skuli fé úr brúasjóði og hvaða ár skuli þá brúa fyrir það. Ég vil því skora á hv. 8. landsk. þm. að taka till. aftur.

Að lokum vil ég beina því til hæstv. forseta, hvort hann telur sér fært að láta fara fram atkvgr. um frv., sem verkar aftur fyrir sig, eins og þetta gerir.