05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs við fyrri hluta þessarar umr., og tilefni þess er það, að ég hafði skrifað undir nál. meiri hl., en þó með fyrirvara, þar sem ég ásamt fleirum áskil mér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv. Ég hreyfði því innan n., að ég mundi flytja brtt.brtt. er nú komin í prentun, en ég mun leggja hana fram hér skriflega. En úr því að ég stóð á fætur, get ég ekki stillt mig um að ræða anda og stefnu frv. og viðhorf mitt til þessarar lagasetningar. Ég hygg, að innan sjútvn. sé a.m.k. sú skoðun ríkjandi, að frv., sem stefnir í þessa átt, eigi fullan rétt á sér. Ég hreyfði því fyrir 3–4 árum í fjölmennum hópi, þ.e. í stéttarfélagi, að eina leiðin fyrir útgerðina til að tryggja sig fyrir áföllum væri sú að mynda tryggingasjóð eða tryggja sig hjá einhverju tryggingafélagi, sem tæki þá upp slíkar tryggingar. Það hefur sýnt sig á undanförnum aflabrestsárum, að útgerðarmenn hafa átt fullt í fangi með að standa við skuldbindingar sínar, svo sem að greiða aflatryggingu, sem er nú yfirleitt í gildi í samningum, því að útgerðarmaður hefur ekki vald til að taka af þeim afla, sem á að ganga í hlut til einstaklinga. En nái hlutur ekki því marki, sem hlutatryggingalögin segja, þá verður útgerðarmaður að greiða það, sem á vantar, og það er af þessum ástæðum, sem menn hafa komizt á þá skoðun, að útgerðin þurfi að mynda sjóð til að tryggja sig. Hugmyndin fyrir frv. er sú, að útgerðarmaður tryggi það með opinberum stuðningi, að hann fái bætt úr tryggingasjóði það, sem aflahlutur dregur ekki til að greiða hlutatryggingu, enda ber nafn frv. með sér tilgang hans, þar sem það nefnist hlutatryggingasjóður, en ekki útgerðartryggingasjóður. Úr þessum sjóði fæst því fé, sem ekki væri hægt að afla annars til að uppfylla þessar kvaðir, og af þeim ástæðum einum er þetta formað, en ekki vegna þess, sem útgerðarmaður hefur kostað til skips síns eða vegna tjóns á veiðarfærum eða til að greiða opinber gjöld. Meginmarkmið sjóðsins er því að tryggja það, að launþegar fái það, sem þeim ber, og út frá þessu lít ég — og að minni hyggju aðrir, sem bera hag launþega fyrir brjósti, á málið. En að vísu getur maður reiknað með því eins og frv. nú er, að frv. tryggi útgerðarmenn fyrir fleiru, og eins og ég hef áður sagt, þá er og í prinsipinu með hugmynd og stefnu frv. Menn deila um það, hvernig svona frv. eigi að vera sniðið, og lái ég þm. það ekki, þó að þeir séu ekki fullráðnir í því, hvernig fyrirkomulagið skuli vera. Málið er afar vandasamt, þar sem við höfum enga reynslu og verðum að þreifa okkur áfram og greinir á um leiðir, sem sést bezt á því, að tveir hv. þm., hv. form. n. og hv. 6. landsk., hafa lagt fram brtt., sem ganga að ýmsu leyti í allt aðra átt en frv., og sannar þetta vel, hve þm. eru óráðnir i, hvaða leið skuli fara. Vitanlegt er, að gerð hafa verið drög að frv. um hlutatryggingasjóð, að ég hygg af hálfu Landssambands ísl. útvegsmanna í sameiningu við Fiskifélagið, og mun fleira en eitt uppkast hafa verið gert, en eftir því, sem mér hefur skilizt, hefur hæstv. ríkisstj. ekki getað fallizt á þessar tillögur og skipaði því 3 manna n. hér á þingi til að vinna úr þessum tillögum og liggur það frv. hér fyrir. En regindjúp er á milli skoðana L.Í.Ú. og Fiskifélagsins annars vegar og nefndarmanna hins vegar, hvernig beri að gera tryggingarnar úr garði. Að vísu hefur till. þriggja manna nefndarinnar verið breytt af ríkisstj., t.d. um framlag ríkisins til sjóðsins. Nú skilst mér, að till. hv. þm. Barð. séu að meginhugsun samdar eftir till. L.Í.Ú., og það gefur ekki góða raun, þegar vitað er, að ríkisstj. gat ekki fellt sig við þær og heldur ekki tveir nm., sem sitja hér í deildinni. Nú er talað um, að hæstv. ríkisstj. leggi á það mikla áherzlu, að frv. verði hespað í gegn á þessum fáu dögum, sem þing á eftir að sitja, og er mér sagt, að það byggist á því, að lofað hafi verið í sambandi við dýrtíðarlögin í fyrra, að frv. fari í gegn á þessu þingi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þetta sé ekki nógu gagnger undirbúningur á frv., sem á að vinna í anda allra þeirra, sem eiga að njóta þessara laga. Ég hefði því talið viturlegra að fresta málinu, svo að tími gæfist til að undirbúa málið betur og athuga ýmis atriði, sem máli skipta, fyrir næsta þing. Nefndin gat ekki aflað sér hagfræðilegra talna, sem nauðsynlegar voru við samningu frv. Hins vegar er ekki ógerningur að leita þeirra í skýrslum, og ég hygg, að Fiskifélagið hafi skýrslur, sem hægt sé að byggja á slíkar hagfræðilegar tölur, bæði hvað snertir aflamagn og hvernig það skiptist niður á ýmsa flokka skipa. Mér er það ljóst, að til þess að útbúa frv. vantar hagfræðilegan grundvöll, og ég hefði talið viturlegra, ef ríkisstj. hefði séð sér fært, að láta málið bíða til næsta þings og athuga það og undirbúa rækilega í millitíðinni. Nefndin gat jafnvel ekki fengið upplýsingar um, hve há upphæð þessi hálfi eignaraukaskattur væri, sem á að renna til stofnunar sjóðsins. Ef Alþ. vill samþykkja, að ríkissjóður leggi fram ákveðna upphæð til sjóðsins, þá á sú upphæð að koma inn á fjárl. Við lauslega athugun, sem sjútvn. gerði, lítur svo út sem þetta 1% af afla muni nema um 11/2 millj. kr., og á þá ríkissjóður að leggja fram jafnt á móti, og þá er fengin sú trygging, sem sjóðurinn á að byrja með. Nú er gert ráð fyrir, að sjóðurinn taki ekki til starfa fyrr en eftir eitt ár. Það er sýnilegt, að á því ári gerist ekkert sérstakt fyrir sjóðinn, og það verður fyrst við síldveiðarnar 1950, ef þá verður aflabrestur, sem sjóðurinn á að koma að notum, og þá á fyrst að greiða úr honum. Þessar vangaveltur mínar byggjast á því, að ég tel heppilegra að fresta stofnun sjóðsins nú, en ætla honum eignaraukaskattinn og það fé, sem ríkissjóður ætlar að leggja fram. Þetta vil ég láta koma fram, þótt þetta sé kannske hjáróma rödd. Við sátum klukkustundar fund ásamt sjútvn. Nd., og ég gat ekki betur heyrt en að þeir væru mjög óráðnir í, hvernig þessu yrði bezt fyrir komið, og þótt við komumst að niðurstöðu hér í Ed., tel ég miklar líkur til, að frv. taki miklum breytingum í Nd.

Ég skal svo ekki ræða brtt. þær, sem fram hafa komið við frv., því að það tæki mjög langan tíma, ef ræða ætti hverja einstaka brtt.

Ég skal þó játa, að ég gæti fallizt á einstakar till. á þskj. 614, en þær yrðu svo bezt felldar inn í frv., að nefndin tæki þær og felldi þær sjálf inn í frv. Ég lýsti því yfir í n., að ég gæti fallizt á 2. og 3. undirlið í brtt., við 4. gr., en þeir passa ekki vel inn i, og þarf því að laga það til fyrir atkvgr.

Ég kem þá að þeirri brtt., sem ég mun leggja skriflega fyrir hæstv. forseta. Ég hef gert brtt. við sjálft frv., 8. gr., 1. tölul., en þar er gert ráð fyrir 1% af óskiptum afla. Þetta þýðir það, að tekið er 1% af aflanum, áður en hlutaskipti fara fram, og að mennirnir, sem ráðnir eru upp á prósentur, eiga að taka þessar byrðar á sínar herðar. Á það get ég ekki fallizt. Ég tel ekki rétt að láta þessa launþega greiða þetta iðgjald, til þess að þeir fái greitt kaup sitt. Frv. er til þess flutt að tryggja útvegsmönnum, að þeir geti greitt kaup, og þeim er því aðeins heimilt að leita í þennan sjóð, að þeir geti það ekki. Á síðari tímum, eða síðan 1936, hefur sú stefna verið tekin upp, og þá fyrst í sambandi við síldveiðarnar, að hverjum manni er tryggt ákveðið kaup, þannig að menn komi ekki heim til sín algerlega með tvær hendur tómar eftir vertíðina. Kauptryggingin er miðuð við það, að menn geti séð fyrir heimili sínu, meðan þeir eru fjarverandi, jafnvel þótt ekkert veiðist. Á þessu byggist kauptryggingin, og við erum svo sem ekki eina þjóðin, sem hefur tekið þetta upp. Ég hafði hugmyndina fyrir þessu frá Noregi, Hollandi og Belgíu, og reynslan hefur sýnt það í þessum löndum, að kauptryggingin hefur alltaf farið hækkandi, hvað svo sem aflabrögðum hefur liðið. Ég tel viturlegra, að launþegar á skipum séu að mestu leyti ráðnir upp á hlut, því að þá hafa allir áhuga fyrir því, að sem mest veiðist. Reynið að ráða menn á skip upp á fast kaup og frítt fæði, og þá mun sjást, hvernig fer. Ég man það, að í tið þilskipanna var ráðið upp á fast kaup, en einnig upp á prósentur, annaðhvort af hverju skippundi, sem veiddist, eða af hverjum fiski, sem maðurinn dró. Þegar árabátarnir lögðust niður og menn fóru að vera fjarverandi frá heimilum sínum meiri hluta ársins, sáu flestir, að eitthvað varð að gera, til þess að þessir menn gætu að minnsta kosti brauðfætt konur sínar og börn, meðan þeir voru í burtu. Ég skal gangast við því hér að vera faðir þessara kauptrygginga, þótt sumir álíti þær hið mesta átumein í þjóðfélaginu. Reynslan hefur sýnt það nú hin síðari ár, að með vaxandi dýrtíð og aflabresti ár eftir ár, - því að nú er það aflabrestur, sem fyrir 15 árum hefði talizt ágætur afli, — þá hefur útkoma sjómanna verið fyrir neðan hið almenna verkamannakaup. Útgerðin hefur tapað milljónum króna undanfarin ár, og þessu frv. er ætlað að fylla upp í þær eyður. Um leið og þessi sjóður hjálpar útvegsmönnum, hjálpar hann einnig ríkissjóði, sem á s.l. 5 árum hefur lagt fram stórfé til aðstoðar við þá. Það fé átti að vísu að vera lán, en verður aldrei greitt, nema lítið eitt sem var greitt fyrsta árið. Það er því nauðsynlegt, að þessi sjóður verði til, og ég get vel fellt mig við, að ríkissjóður leggi fram fé í hann, til þess um leið að firra sig sjálfan vandræðum. En ég vil taka það fram, að ég get ekki fellt míg við, að launþegarnir séu látnir greiða þessi útgjöld. Það mætti á sama hátt taka af launþegunum fé til þess að tryggja bátana og þ. u. l., nefnilega ef það væri tekið af óskiptum afla. Þetta er nákvæmlega það sama. Það er rétt að geta þess, að hlutaskiptin eru ákveðin með samningum og slík kvöð sem þessi yrði því lögþvinguð kvöð, til þess að lækka aflahlut viðkomandi manna. Þegar tekið er af óskiptum afla, er það samkomulag milli þeirra aðila, en Alþ. er komið inn á allt aðra braut, ef það ætlar að skylda launþega til þess að greiða þetta iðgjald, og ég get ekki sætt mig við það, að Alþ. grípi þannig inn í samkomulag milli atvinnurekenda og launþega. Þetta er líka gagnstætt öllum tryggingareglum, t.d. er það húseigandinn, sem borgar tryggingagjöld af húsinu, en ekki leigjandinn, og þannig er það alltaf, að sá, sem er að vernda sig fyrir skakkaföllum, verður að borga fyrir þá vernd, en ekki einhverjir aðrir.

Það liggur auðvitað í augum uppi, að ef um almennan aflabrest verður að ræða, þá verður þessi sjóður ekki fær um að greiða öllum kauptryggingu til fulls. Ég er hins vegar ekki grunlaus um, að sumir líti þannig á málið, að sá hluti kauptryggingarinnar, sem aflatryggingasjóður er ekki fær um að greiða, sé með öllu tapaður. Þetta er auðvitað mesti misskilningur, því að sjómenn eiga sjóveð í skipum jafnt fyrir þetta, og ef útgerðarmaður fær t.d. aðeins helming kauptryggingarinnar greiddan úr aflatryggingasjóði, þá á launþegi jafnt fyrir því heimtingu á fullri kauptryggingu. Hef ég því orðað viðbótartill. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hrekkur ekki úthlutað fé til greiðslu á hlut eða hundraðshluta af afla eða kauptryggingu, og útgerðarmann brestur getu til að greiða fiskimönnum að fullu hlut þeirra eða kaup, og eiga þeir þá sjóveðsrétt samkv. ákvæðum siglingal. fyrir þeim fjárhæðum, sem ógreiddar eru.“ Tel ég þetta öruggara, svo að það verði ekki neinum vafa bundið, að fiskimenn eiga sjóveðsrétt fyrir því, sem útgerðarmaðurinn getur ekki greitt.

Ég hef nú lýst brtt. minni, sem ég mun afhenda hæstv. forseta, þegar er ég hef lokið máli mínu. En ég hef einnig hnotið um önnur minni háttar atriði, sem ég hef ekki enn gert brtt. við, en mun e.t.v. gera það síðar, ef ég álit þess þörf. T.d. skal ég minnast ögn á ákvæði 11. gr. frv. Þetta hefur verið borið undir lögfræðinga, og þeir hafa athugað þetta. Að mínu áliti er þessi stefna n. alveg rétt, að fyrst eigi að greiða kaup og fæði skipverja, síðan vátryggingargjöld og annað, en ég er bara ekki víss um, hvort þetta fær að standa, ef það færi í dóm, því eftir ákvæðum sjólaganna er það nú svo, að opinber gjöld eða lögveðskröfur hafa forgangsrétt á undan öðrum kröfum. Það getur hafa safnazt saman mikill fjöldi lögveðsskulda, segjum t.d. 10 þús. kr., vegna ógreiddra skatta og vátryggingargjalda, því að það er lögveð á þeim, eftir að Samábyrgðin komst undir ríkið. Mér er kunnugt um, að þannig hafi dregizt saman verulegar upphæðir á þennan hátt, sem hafa forgangsrétt fyrir öðrum kröfum, og ég man ekki betur, en að útsvörin hafi einnig forgangsrétt, svo að það er ekki nein smávegis upphæð, sem þannig getur safnazt fyrir og ætti að hafa forgangsrétt, þegar gengið er að. Ég álít samt stefnu n. rétta, að setja kaup skipverja á undan og hafa á því sjóveð, en ég veit ekki, hvort það muni halda, því að ég hef ekki leitað álits lögfræðinga um það, en ég skal leita upplýsinga um þetta fyrir 3. umr. málsins, því að ef svo væri, að ákvæði siglingalaganna ættu að víkja fyrir þessu, þá er óþarfi að breyta þessu.

Þið haldið kannske, að þetta, sem ég hef sagt, sé alveg út í loftið. En það var skip, sem síðast í vetur var krafizt af sjóveðs, og það fór „undir hamarinn“, þ.e.a.s. það var gert upp. En hvað kemur þá í ljós? Það kemur í ljós, að það hvíldu svo mikil lögveð á skipinu, að sjóveð falla. Þetta er aðeins einn dómur. Og þessi dómur er aðeins eitt dæmið, en þau eru fleiri en eitt og fleiri en tvö. En þetta verður að fyrirbyggja, að kaup manna sé sett aftur fyrir kröfur þær, sem hafa forgangsrétt samkvæmt gildandi l. Ég hef ekki enn þá gert brtt. við þetta ákvæði og mun ekki gera það fyrr en ég hef fengið betri upplýsingar um það, en mun þá gera það við 3. umr., ef nauðsyn ber til þess.

Um önnur ákvæði frv. er það að segja, að það eru til þar ákvæði, sem ég tel, að mætti lagfæra, svo sem sumt af því, sem kemur fram í till. hv. þm. Barð., t.d. um svæðaskiptinguna. Ég er ekki vel ánægður með hana, annars býst ég við því, að það verði matsatriði, hvernig það verður hagkvæmast. En um það hafa komið fram brtt., sem ég get fallizt á. Hins vegar hefur verið deilt um það, hvernig eigi að greiða út úr sjóðnum, og ég játa það, að ég er ekki búinn að gera mér það vel ljóst, hvort betra er að breyta þeirri reglu og hafa 3 manna stjórn í stað 5 manna. Hitt er ljóst, að reynslan sker úr því, hvað svo sem ég eða einhver annar hv. þm. gerir, þá sker reynslan úr því, hvernig bezt sé að breyta. En það er ómögulegt að segja: Þetta eina er rétt, allt annað er rangt. Til þess að geta sagt þetta vantar nógu glöggan undirbúning, eins og ég sagði í upphafi.

Ég býst nú við, að mitt mál sé orðið nógu langt, enda get ég tekið til máls síðar, ef tilefni gefst til.