05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég sé, að það eru komnar fram margar brtt. í þessu máli, og kann það að vera að vonum, því að sjálfsagt er það svo, að sínum augum lítur hver á silfrið. Annars verð ég að segja það, að það hefur verið reynt að vanda undirbúninginn eins og hægt var, og fór til þess mikill tími og vinna. Þar sem ég er nú bundinn við störf utan deildarinnar, skal ég nú ekki að þessu sinni fara út í brtt. þær, sem fyrir liggja, né heldur út í það að ræða við hv. 1. landsk. þm., en vildi samt út af því, sem fram hefur komið varðandi það að fresta þessu máli, þar til hægt væri að undirbúa það betur og athuga nánar, eins og mér skildist þessi hv. þm. leggja megináherzlu á, taka það fram, að ég tel afgreiðslu málsins nauðsynlega á þessu þingi. Fari svo, að ekki líki öllum alls kostar við hana, þá er auðvitað hægt að breyta löggjöfinni þegar á næsta þingi. En afgreiðslan verður að vera á þessu þingi. Þetta hefur mér aðeins þótt rétt að taka fram, vegna gefins tilefnis hv. 1. landsk.