05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í gær, þá var ráðgert, að þetta mál yrði rætt á sameiginlegum fundi beggja sjútvn., og var það gert í morgun. Þess var ekki að vænta, að það gæti orðið mikið samkomulag á einum fundi, sem stóð aðeins klukkutíma og 10 menn mættir, og því ekki tækifæri til að setja sig vandlega inn í þetta stóra mál. Þó má ég segja, að niðurstaðan hafi orðið sú, sem vitað var áður, að nauðsynlegt er, að málið nál fram að ganga á þessu þingi og ef með þyrfti, þá yrði afl atkv. látið ráða afgreiðslu málsins í þessari d., og svo mundi því ekki verða breytt mikið í Nd., svo að það þyrfti ekki að taka mikinn tíma í þessari d., ef það kæmi hingað aftur. Ég vil því mjög mælast til þess við hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að ljúka þessari umr.

í dag, þó að það þyrfti að hafa hér fund eftir kl. 4 eða í kvöld, vegna þess hve stuttur tími er eftir til að ljúka þessu mikla máli. Gæti ég þá hugsað mér, að atkvgr. væri frestað og þeir aðilar, sem styðja hæstv. ríkisstj., fái þá tækifæri, áður en atkvgr. fer fram, til að ræða um það og taka afstöðu til þess og standa utan um þau ákvæði frv., sem meiri hl. beggja d. þykir betur, svo að það komi nokkurn veginn fram vilji meiri hl. við afgreiðslu þegar hér í þessari d. Þætti mér það ekki óeðlileg lausn, að þessi háttur yrði hafður eftir yfirlýsingu hæstv. ráðh., og mér virðist, að það sé einnig tekið undir það af flestum hv. þm., að málið verði afgr. á þessu þingi.

En vegna þess, að ég fór ekkert efnislega inn á frv. í gær, þá er ég að sjálfsögðu neyddur til að fara hér nokkrum orðum um frv. sjálft, áður en ég svara þeim hv. þm., sem hér hafa talað, og skal ég þó reyna að stytta mál mitt, eftir því sem mér er frekast unnt, en ég hef borið fram svo víðtækar brtt., að mér er ómögulegt annað en að mæla nokkuð fyrir þeim.

Hæstv. ráðh. minntist á það hér, að málið hefði verið mjög vel undirbúið, því að það hefði verið sett í þá n., sem getið er um í aths. við frv. Skal ég viðurkenna, að það hafi verið góðra gjalda vert að gera það út af fyrir sig. Hins vegar verð ég að segja, að mér þykir dálítið einkennilegt, að þegar sá aðili í n. gerir ágreining, sem mér þó skilst, að frv. sé sérstaklega gert fyrir, eins og hv. 1. landsk. sagði, að það væri sérstaklega gert fyrir útgerðarmenn, — þegar fulltrúi útgerðarmanna gerir ágreining, vill fara í gagnstæða átt og gerir skoðanamun um uppbyggingu frv., þá virðist mér hafa eitthvað skort á í undirbúningi þessa máls. Ég held, að það sé ekki heldur rétt, að það hafi ekki legið fyrir þau gögn, sem þurft hafi til að byggja á þessa lagasetningu. Vil ég í sambandi við það benda á, að það lágu fyrir Alþingi gögn í sambandi við verð á sjávarafurðum og uppbætur á þær úr ríkissjóði á þessu ári. Ég veit, að þau voru ákaflega víðtæk, þau gögn. Þau þóttu nægileg til að byggja á milljónaútgjöld úr ríkissjóði á þessu ári. Mér þykir því einkennilegt, ef ekki hefur verið hægt að byggja nokkuð á þeim gögnum, þegar þetta frv. var byggt upp.

Brtt. mínar eru á þskj. 614, og er fyrsta till. við 3. gr., en þar stendur nú, með leyfi hæstv. forseta:

„Réttindi í almennu fiskideildinni eiga þau skip bátaflotans, sem þorskveiðar stunda með línu, botnvörpu, dragnót, netum o.s.frv., ef skipshöfn er ráðin upp á hlut eða hundraðshluta af aflaverðmæti.“

Nú vil ég benda á, að það er megintilgangur þessa frv., að allir hlutir séu jafnt bættir upp. En ef svo er, þá er alveg rangt að hafa þessa síðustu setningu „ef skipshöfn er ráðin upp á hlut eða hundraðshluta af aflaverðmæti“, því að þá er útilokað, að sá maður, sem kynni að vera þar upp á laun, fengi sinn hlut bættan. Ég tel þetta ákaflega mikinn galla á frv., sérstaklega ef það er vitað, að það kemur varla fyrir nokkur vertíð, að ekki sé meira og minna um það, að menn veikist og hverfi úr skiprúmi af einhverjum ástæðum og útgerðarmaður verði að taka mann upp á ákveðin laun til að bjarga vertíðinni. Ef þetta ákvæði er haft hér, þá skilst mér, að þann hlut eigi ekki að bæta, en það tel ég rangt, og ef það hefur verið hugsað af n., að það skyldi vera þannig, þá tel ég það ranglátt, en ef það er yfirsjón hjá n., þá er það rangt, og má leiðrétta það. Þess vegna ber ég fram mína brtt., að orðin „ef skipshöfn er ráðin upp á hlut eða hundraðshluta af aflaverðmæti“ falli niður. Við skulum hugsa okkur, þó að ég geri ekki ráð fyrir, að það komi til, að öll skipshöfnin sé upp á kaup. Mér finnst sjálfsagt fyrir því, að slík skip ættu að vera skyldug til að greiða í sjóðinn og hefðu þá full réttindi, þó að enginn maður væri þar ráðinn upp á hlut, heldur væri skipt eftir sömu hlutföllum og önnur skip hefðu í sömu veiðistöð. Þetta kemur að sjálfsögðu ekki til greina, því að eins og hv. 1. landsk. sagði, þá hefur það verið venja gegnum aldir og verður ekki breytt innan skamms, en þetta þarf að laga vegna þessara hluta, sem ég hef bent á, að alltaf kemur fyrir meira og minna í öllum verstöðvum.

Þetta er síðari brtt. mín við 3. gr. Fyrri brtt. er við 2. málsgr., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Réttindi í síldveiðideild eiga öll íslenzk skip bátaflotans, sem gerð eru út á síldveiðar með herpinót eða svipuðum veiðarfærum.“

Þar legg ég til, að orðin „með herpinót eða svipuðum veiðarfærum“ falli niður, vegna þess að þau útiloka, og það hygg ég, að sé ætlun n., reknet, lagnætur og annað slíkt. Nú skal ég leyfa mér að benda á, að reknetaveiðar eru kannske undirstaðan undir, að hægt sé að gera út á þorskveiðar. Fyrir það, að þessir menn við Faxaflóa í vetur höfðu ekki tryggingu fyrir að fá sanngjarnar tekjur, vildu þeir ekki gera skip sín út á reknetaveiðar, með þeim árangri, að landið varð að eyða stórkostlegu fé til að kaupa lélega beitu frá Noregi. Þessir menn voru tilbúnir að fara á veiðar í stórum stíl, ef hægt hefði verið að tryggja þeim sæmilegar tekjur. Þetta er atvinnuvegur, sem ég tel, að eigi að flokka, eins og ég geri ráð fyrir í brtt. við 4. gr., og það er engum vandkvæðum bundið að hafa þetta sérstakan flokk. Ég tel því sjálfsagt að taka þetta inn.

Í sambandi við 4. gr. hef ég gert till. um að gerbreyta þeirri gr. Það er ákaflega mikil grundvallarbreyt. Hér er ætlazt til samkvæmt frv., að reiknað sé út af Fiskifélagi Íslands, hvað sé almennur aflabrestur, og lagt til grundvallar meðalaflamagn síðustu fjögur árin á þorskveiðum. Þetta verður til þess, að á hvetju ári fer út fyrsta árið af þessum fjórum og inn kemur nýtt í staðinn. Slíkt meðalveiðimagn er alltaf mismunandi. Það gæti farið þannig, ef í röð kæmu fjögur góð aflaár og síðan fjögur léleg, líkt og kýr Faraós — nema þær voru sjö, þá skapaði það engar meðaltekjur fyrir menn, en yrði hins vegar stórkostlegt áfall fyrir sjóðinn. Þó finnst mér þetta enn meiri áhætta fyrir síldveiðarnar, því að þar á að miða við meðalaflamagn síðustu átta ára. Aflamagnið sveiflast svo stórkostlega til, að ég tel ákaflega varhugavert að setja inn í l., að slíkt hafi stórkostleg áhrif á sjóðinn sjálfan. Mín till. er því, að 4. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með reglugerð, er sjóðsstjórnin semur og samþykkt hefur verið af stjórnum eftirfarandi aðila: Landssambands íslenzkra útvegsmanna, Alþýðusambands Íslands og Fiskifélags Íslands og staðfest af ráðherra, skal ákveða: 1. Bótatímabil, er miðist við vertíðarskipti í hverri veiðistöð. Stundi skip ekki veiði allt bótatímabilið, skerðist bótaréttur þess við það hlutfallslega. 2. Skiptingu veiðisvæða og verstöðva í flokka, þannig að í sama flokki séu þau veiðisvæði og þær verstöðvar, sem líkust hafa skilyrði fyrir sama meðalveiðimagni á hverri vertíð, hvort heldur um er að ræða síldveiði eða þorskveiði. 3. Skiptingu veiðiskipa í flokka, þannig að í sama flokki séu skip, sem líkust hafa skilyrði fyrir sama meðalveiðimagni, með tilliti til stærðar, veiðiútbúnaðar o.fl. 4. Meðalveiðimagn skipa í hverjum flokki fyrir sig, eftir því á hvaða svæði skipin veiða, hvaða tíma árs þau veiða og hvaða veiði þau stunda. Meðalveiðimagn, sem þannig er ákveðið fyrir hvern flokk skipa, skal gilda sem meðalveiðimagn, er reikna skal út bótagreiðslur úr sjóðnum, þar til sömu aðilar hafa á sama hátt ákveðið annað. Verði ágreiningur um einstök ákvæði reglugerðarinnar, sker ráðherra úr.“

Nú vil ég biðja menn að athuga, að þetta eru þeir aðilar, sem þetta mál snertir. Það eru útgerðarmenn, og það er Fiskifélagið, sem eitt allra stofnana hefur tækifæri til að afla þeirra gagna, sem þarf í sambandi við þetta, og það er Alþýðusamband Íslands, sem gætir hagsmuna sjómanna. Þetta eru þeir aðilar, sem ég vil, að komi sér saman um það, strax og l. hafa tekið gildi, hvað er á þessum tíma eðlilegt meðalaflamagn, til að hægt sé að gera út þessi skip, hvað á síld fyrir t.d. 60 eða 100 tonna bát, hvað á 20 tonna bát á þorskveiði á þessum og þessum stað o. s. frv. Ég tel þetta engum vandkvæðum bundið. Ég hef lagt til, að þessir aðilar skuli fyrst ákveða bótatímabilið og miða við vertíðaskipti í hverri veiðistöð. Þetta er það fyrsta, sem þarf að ákveða, hvort bótatímabilið skuli vera vetrarvertíð eða vetrar- og vorvertíð, eftir staðháttum í hverri veiðistöð. Þá er ákveðið, að stundi skip ekki veiðar allt bótatímabilið, skerðist réttur þess hlutfallslega.

Annað atriðið er skipting veiðisvæða og verstöðva í flokka, þannig að í sama flokki séu þau veiðisvæði og þær verstöðvar, sem líkust hafa skilyrði fyrir sama meðalveiðimagni á hverri vertíð, hvort sem um er að ræða síldveiði eða þorskveiði. Þetta tel ég nauðsynlegt, að sé gert.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að þetta er raunverulega gert nú, þegar verið er að ákveða hlutaskipti. Hlutaskipti manna nú eru ákveðin eftir stærð skipa og sumpart veiðistöðvum og sumpart hvað menn veiða, og tel ég engum erfiðleikum bundið fyrir þá aðila, sem ég ætlast til, að hafi með þetta mál að gera, að ákveða þetta atriði.

Í þriðja lagi skulu þessir aðilar ákveða skiptingu veiðiskipa í flokka, þannig að í sama flokki séu skip, sem líkust hafa skilyrði fyrir sama meðalveiðimagni með tilliti til stærðar, veiðiútbúnaðar o.fl., t.d. eftir því, hvort á skipunum eru fleiri eða færri menn. Það þarf ekki alltaf að verða lakari hlutur, þó að færri menn séu á skipi. Það er nauðsynlegt að skipta skipunum í slíka flokka, áður en kemur til bóta. Ég sé ekki, að þetta sé gert í frv., eins og það er nú. Því legg ég til, að þetta komi hér inn í 4. gr.

Þá er fjórði og síðasti liðurinn, að ákveðið sé meðalveiðimagn skipa í hverjum flokki fyrir sig, eftir því á hvaða svæði skipin veiða, hvaða tíma árs þau veiða og hvaða veiði þau stunda. Það meðalveiðimagn, sem þannig er ákveðið fyrir hvern flokk skipa, skal gilda sem meðalveiðimagn, er reikna skal út bótagreiðslur úr sjóðnum, þar til sömu aðilar hafa á sama hátt ákveðið annað. Verði ágreiningur um einstök ákvæði reglugerðarinnar, sker ráðherra úr.

Það getur vel komið til mála, að breyttir tímar sýni, að meðalveiðimagn, sem ákveðið hefur verið í einhverjum eða öllum flokkum, sé ekki rétt, og er þá eðlilegt, að sömu aðilar komi sér saman um að breyta því. Þá virðist mér einnig eðlilegt, að sá ráðh., sem á hverjum tíma fer með sjávarútvegsmál, skeri úr ágreiningsatriðum um einstök ákvæði reglugerðarinnar.

Það kom fram hjá hv. frsm., að með þessu móti mundu útgerðarmenn og sjómenn alltaf hafa tilhneigingu til að setja meðalveiðimagnið eins hátt og mögulegt væri. Ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að í fyrsta lagi þarf einhver rök að færa fram til að gera það, en Fiskifélag Íslands hlýtur að hafa sterkustu rökin um þetta mál, þ.e.a.s. skýrslur um aflamagnið, og ef þær tala gegn fullyrðingum þessara aðila, þá má vera einkennilegt, ef viðkomandi ráðh. og ríkisstj. leyfa sér að skera úr þeim mönnum í hag, sem hafa ekki rökin sín megin, ef það væri þar að auki ríkissjóði í óhag, en allt þetta yrði að ske, ef taka á gild rök hv. frsm. gegn þessari till.

Þá hef ég gert brtt. við 5. gr. Hún er nú þannig, að þar er ákveðið, að bótatímabil séu fyrir öll svæðin vetrar- og vorvertíð saman, en haustvertíð teljist sérstakt bótatímabil, en sumarsíldveiðar og vetrarsíldveiðar séu einnig aðskilin bótatímabil og bátar, sem sumarróðra stunda, séu undanþegnir árlegum gjöldum til sjóðsins vegna þeirra veiða.

Nú er þess að gæta, að vetrarvertíð og vorvertíð eru ákaflega óskyldar vertíðir, t.d. við Faxaflóa. Fjöldi skipa hættir veiðum 14. maí eða um það leyti, önnur halda áfram og stunda vor- og sumarveiðar og undir öðrum skilyrðum, og að útiloka þá frá þátttöku finnst mér ekki rétt og ógerlegt að slengja þessu saman. Aftur á móti er gert ráð fyrir, að haustvertíð sé sérstakt bótatímabil og eins sumarsíldveiðar, en vetrarsíldveiðarnar séu sérstakt tímabíl. Ég vil ekki, að bátar, sem stunda sumarróðra, séu undanþegnir árlegum gjöldum og njóti ekki réttar. Mér finnst það óþolandi. Það eru menn, t.d. á Norðurlandi, sem stunda róðra á sumrin, og það eru þeirra aðaltekjur. Eins er það á Austurlandi. Mér finnst það fyrir utan alla sanngirni og sjóðurinn nái ekki tilgangi sínum, ef þeir eiga að vera útilokaðir, fá engar bætur, en beri þær byrðar, sem ríkissjóði eru lagðar á herðar. Ég tek það svo, að það sé af því, að hv. frsm. og aðrir hv. þm. hafi ekki athugað þetta, þegar frv. var samið, og er það ekki sagt þeim til ámælis. Þetta er svo flókið mál, að eðlilegt er, að ýmsu sé ábótavant við fyrstu gerð. Ég hef því lagt til, að gr. hverfi burt, enda er hún tekin upp í 4. gr. minni.

Þá legg ég til, að 5. gr. orðist þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Það telst almennur aflabrestur, ef meðalafli skipa í einhverjum flokki er minni en 75% af hinu ákveðna meðalveiðimagni, sbr. 4. gr. Kemur þá til aðstoðar sjóðsins með þeim takmörkunum, sem lög þessi ákveða.“

Það er sjálfsagt að ákveða þetta atriði, enda er það gert annars staðar í frv.

Við 6. gr. hef ég gert þá breyt., að 3 menn skuli skipa stjórn sjóðsins, en í frv. er gert ráð fyrir, að þeir skuli vera 5. Ég tel nægilegt fyrst um sinn að hafa þrjá menn. Þar eigum við hv. 6. landsk. samleið. Ég vil, að þeir séu skipaðir til 4 ára í senn, en í frv. sé ég ekki, að það eigi að vera neinn ákveðinn tími, hvort stjórnin á að vera skipuð til eilífðar eða hvort skipta megi um menn daglega. Þá legg ég til, að einn sé skipaður í stjórn sjóðsins eftir tilnefningu Landssambands íslenzkra útvegsmanna, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og þriðji án tilnefningar og sé hann formaður stjórnarinnar. Ég vil leyfa mér að geta þess, að það hefur komið nokkur ágreiningur um þetta, þegar málið var rætt í n. M.a. vildi fiskimálastjóri, að í staðinn fyrir þetta yrði einn tilnefndur samkvæmt till. Fiskifélags Íslands og nm. kysu sér sjálfir formann. Ég tel, að sá háttur sé ekki eðlilegur. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að ríkisstj. skipi formann n.,meðan ríkissjóður leggur fram fé í sjóðinn, eins og nú er ætlazt til. Ég tel það vera óvirðingu við ráðh., hver sem hann er, að hann sé skuldbundinn til að útnefna mann, sem er hans undirmaður, þ.e. mann frá Fiskifélagi Íslands, því að Fiskifélagið heyrir undir rn. Því er eðlilegt, að rn. tilnefni manninn, en sennilega mundi það leita til Fiskifélagsins með það, en það gæti verið fyrir þeirri stofnun maður, sem rn. þætti ekki heppilegur formaður. Ég tel því, að þessi tilhögun sé betri, og geri það að tillögu minni.

Þá hef ég einnig lagt til, að inn komi ný málsgr. á eftir 1. málsgr., svo hljóðandi: „Ráðherra ákveður laun sjóðstjórnarinnar og endurskoðenda“. Þetta er ekki tiltekið í frv. Nú hefur komið fram till. frá hv. 6. landsk., að stjórn sjóðsins skuli vera ólaunuð. Mér er tjáð, að það stríði alveg á móti ákvæðum stjórnarskrárinnar að fyrirskipa mönnum að taka að sér störf án launa. Annars er stjórnarskráin teygð á alla vegi, en það er ekki eðlilegt, að stjórn, sem á að bera ábyrgð á svo vandasömum verkum sem hér er, sé ólaunuð. Hv. 6. landsk. sagði, að það væri mikill kostur að geta fengið menn í stjórn sjóðsins, sem gætu stjórnað ólaunaðir, enda væru þeir fulltrúar einhverra aðila og launaðir af þeim, en ég álít, að í stjórnina eigi að skipa hlutlausa menn, sem séu ekki þar til að berjast fyrir hagsmunum einstakra aðila, heldur hafi hag allra fyrir augum og séu launaðir.

Þá legg ég til, að fiskveiðasjóður annist afgreiðslu sjóðsins, en ekki Fiskifélag Íslands. Ég tel það heppilegra, að fiskveiðasjóður hafi með fjármálin að gera, enda er Fiskifélag Íslands engin bankastofnun, og veit ég ekki betur en á þeim tíma, sem útvegurinn hefur verið studdur, þá hafi það alltaf verið gegnum fiskveiðasjóð, en ekki Fiskifélagið. Fiskveiðasjóður hefur verið rekinn af mikilli hagsýni, og hann hefur bein sambönd við flotann, og tel ég í alla staði óheppilegra að fela þetta Fiskifélaginu, þar sem þá þyrfti að bæta við nýjum starfsmönnum, en það verður til aukins kostnaðar.

Við 7. gr. hef ég lagt til, að 2. meginmálsgr. falli niður, þ.e., að ef stofnféð nær ekki 5 millj. kr., þá skuli ríkissjóður leggja fram það, sem á vantar. Er þetta ekki af því, að ég telji ekki nauðsynlegt að hafa stofnféð svo mikið, heldur finnst mér þetta varhugavert ákvæði. Ef t.d. helmingur eignaraukaskattsins næmi ekki nema 1 millj. kr., þá skyllu þarna 4 millj. kr. útgjöld á ríkissjóði. Meðal annars af þessu hef ég lagt til, að þetta ákvæði 7. gr. falli niður.

6. brtt. er við 8. gr., og er þar um allmiklar breyt. að ræða, en engan veginn svo sem af er látið, því að nokkuð stendur á sama, hvaða leið er farin, að undanskilinni skrifl. brtt., sem er hrein bylting. Í frv. er lagt til, að tekið verði 1% af óskiptum afla, og er upplýst, að verðmæti hans hafi orðið árið 1947 94,3 millj. kr. Í mínum brtt. er lagt til, að þessu verði breytt þannig, að tekið verði 1/2% af útflutningsverðmæti þessara sjávarafurða. Þegar þetta er athugað, þá sést, að þetta verður hér um bil sama upphæðin, og hvað hefur þá skeð? Það, að útflytjendur verða að greiða til sjóðsins, en það þýðir, að innheimtan verður miklu öruggari, en ef taka ætti 1% af óskiptum afla. Ef mín brtt. væri samþ., þá regúlerar þetta allt saman sjálft, þegar eðlileg viðskiptaregla er komin á í landinu. Það kemur þó til greina, að þá fæst ekki gjald af þeim afla, sem seldur er innanlands, en megintilgangur frv. er að tryggja erlendan gjaldeyri, og auk þess munar sáralítið um það, sem selt er á innanlandsmarkaðinum. Þá legg ég til, að í staðinn fyrir framlag ríkissjóðs til jafns við 1% af óskiptum afla komi 1/2% af öllum innfluttum vörum, og ef þetta er rætt með stillingu, þá sést, að þetta kemur nokkuð í sama stað niður, ef tryggt er, eins og ég vil, að þessu megi ekki bæta við vöruverðið. Ef ríkissjóður ætti að leggja þetta fram, kemur það niður á þjóðinni í tollum og sköttum, og þess vegna vil ég láta innflytjendur greiða þetta. Ég vil í því sambandi minna á, hvílíkt kapphlaup nú er um það að fá innflutningsleyfi. Hvort halda menn að sé meira kapphlaup um, að gera út mótorbát eða flytja inn vörur? Það þarf ekki skarpan til að sjá það. Og af hverju er allt þetta kapphlaup um innflutninginn? Af því að innflutningur vöru er nú langarðvænlegasta atvinnan í landinu. Menn keppast ekki um að komast í atvinnu, þar sem er mikið erfiði og litlar tekjur, og meðan gengisskráningin er eins og hún er nú, þá er þetta lítið gjald, að leggja á þetta 1/2%, og ef þetta þykir ranglátt og óbærilegt, þá má bara flytja innflutninginn á hendur útgerðarinnar. Hv. 1. þm. Reykv. taldi þetta nýjan skatt og væri þetta brot á stjórnarskránni, en það hefur áður verið lagður á slíkur skattur, söluskatturinn gamli, sem mátti ekki leggja á vöruna. Vitanlega kostaði hann þjóðina minna, en söluskatturinn nýi, sem leggja má á vöruna og samkv. upplýsingum hv. 1. þm. Reykv. sjálfs jafngildir allt að 50% gengislækkun. Það er lítill skilningur hjá þeim mönnum, sem kveina og kvarta út af því, að eigi að leggja þetta lítilræði á innflytjendur, og ef innflytjendunum finnst þetta alveg óbærilegt, þá held ég þeir ættu að hætta þessu kapphlaupi um leyfin og fá sér bát, svo að eitthvað fækkaði þeim, sem um innflutninginn berjast. (HV: Bættur væri skaðinn.) Já, bættur væri skaðinn. Ég vildi því leggja eindregna áherzlu á, að þetta væri samþ., að taka ½% af innflutningnum og að það gjald megi ekki leggjast á vöruna. Það kom fram hjá mörgum í n., m.a. hv. þm. Ísaf., að miðla svo til, að fyrri hluti tekjuöflunar minnar yrði samþ., en tekið yrði jafnmikið úr ríkissjóði beint á móti. Hv. þm. Ísaf. taldi heppilegra að taka þetta af útflutningnum, en vildi hins vegar til samkomulags við aðra vera á móti 2. tölul. 6. brtt. minnar og greiða í staðinn beint úr ríkissjóði, en ég tel hitt heppilegra, og ég man þá tíð, er ríkissjóður gat ekki greitt sínar skuldbindingar, ekki einu sinni laun opinberra starfsmanna á réttum tíma. Því vil ég eindregið leggja til, að megintekjur sjóðsins verði svo sem segir í mínum brtt. Þá hef ég lagt til, að í þriðja lagi séu vextir og aðrar tekjur af eignum sjóðsins, og skal ríkissjóður sjá um innheimtuna. Tekjurnar skv. 1. tölulið skulu skiptast þannig, að tekjur vegna síldveiða renni til síldveiðideildar og tekjur vegna þorskveiða til þorskveiðideildar. Má þetta teljast alveg eðlilegt, enda byggt þannig upp frá fyrstu hendi.

Þá hef ég lagt til, að komi nýtt ákvæði, sem mér finnst alveg vanta í frv., svo hljóðandi: „Skylt er útgerðarmanni að láta innrita veiðiskip sitt hjá sjóðstjórninni eigi síðar en degi áður en það byrjar og tilkynna þá jafnframt, hvar og hvers konar veiði skipinu er ætlað að stunda. Skipar sjóðstjórnin þá skipinu þegar í ákveðinn flokk, sbr. 4. gr. Skylt er einnig að tilkynna stjórninni, þegar skip hættir veiðum eða breytir um veiðiaðferð. Vanræksla á tilkynningu varðar réttindamissi til bótagreiðslu úr sjóðnum.“ Mér finnst alveg óhjákvæmilegt að setja þetta, en ef mín brtt. undir 2. lið verður felld, þá þarf að breyta þessu, því að það er vísað í hana.

Um bæturnar legg ég til að verði haft það fyrirkomulag sem segir í fyrri hluta 8. brtt. minnar, við 9. gr. Þar segir: „Nú hefur almennur aflabrestur orðið á einhverju veiðisvæði, svo að til sjóðsins kasta kemur um bætur samkv. 5. gr. Ber sjóðnum þá að bæta upp aflahlut allra þeirra skipa, sem tilheyra þeim flokkum, er eigi hafa náð meðalaflamagni, án tillits til aflamagns einstakra skipa innan flokkanna. Þó skal engan hlut bæta upp meira en svo, að hann verði jafnstór að verðmæti meðalaflahlut skipa í öðrum flokki, sem ekki ná rétti til bóta úr sjóðnum og stunda sams konar veiðar.“ — Þetta er ákaflega einföld leið. Næsti flokkur fyrir ofan takmarkar, hvað næsti flokkur fyrir neðan á að fá og hvaða skip í honum, því að ef hæsta skipið í honum er hærra, en meðalaflamagn í næsta flokki, þá á ekki að koma til bóta, og er þetta eina reglan, sem ekki leiðir út í hreinar ógöngur. Það bið ég hv. þdm. vel að athuga. — Síðan segir hér í sömu brtt., að uppbæturnar skuli greiðast jafnt á hluti útgerðarinnar og skipverja. Þetta er alveg sjálfsagt, enda eiga tryggingarnar að vera fyrir báða aðila. — Þá segir enn: „Hrökkvi fé sjóðsins ekki til úthlutunar samkv. ofanskráðu, skal úthlutun lækkuð hlutfallslega. Í stofnsjóð skal leggja árlega 5% af tekjum sjóðsins, og má aldrei ganga nær sjóðnum en svo, að eftir sé stofnsjóðurinn þannig óskertur.“ Þetta er meginatriði. Aðrar till. hafa um þetta fram komið, m.a. frá hv. þm. Ísaf., og gæti ég fellt mig við hana; um að vexti og vaxtavexti megi aldrei nota til bóta, og gæti ég vel fellt mig við það, því að ef við ættum nú 25 millj. kr. höfuðstól, þá væri náttúrlega enn betra að eiga 30 millj. kr. höfuðstól, og væri hann ágæt stoð til að taka af skelli, en eins og frv. er nú, þá er hægt að éta upp allan sjóðinn í einu, og þá er ekki verið að berjast fyrir að koma upp tryggingastofnun, heldur er bara verið að fá meira fé til að greiða bátaútveginum í eitt skipti fyrir öll. Tel ég frv. einskis virði, ef það verður samþ. þannig óbreytt.

Þá hef ég flutt 9. brtt., við 11. gr., um að orðin „i þeirri röð, sem hér er talið“ í meginmálsgr. falli niður. Ég vildi benda á, að það er alveg útilokað að hafa 11. gr. svona. Það er á móti siglingal. Það er ekki hægt að ákveða með þessum l., að beitukostnaður gangi fyrir lögboðnum gjöldum, en ef brtt. mín verður samþ., þá eiga þau að greiðast eins og l. mæla fyrir. Ég hef rætt um þetta við lögfræðinga, og telja þeir þetta þýðingarlaust, og geti ekki staðizt nema hinum l. verði breytt, en um það munu áreiðanlega verða átök.

Þá hef ég einnig flutt brtt. við 14. gr. um, að ráðh. geti sett nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga í reglugerð, að fengnum till. sjóðstjórnar, og loks legg ég til, að á eftir 14. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: „Fella skal niður greiðslu til hlutaútgerðarfélaga samkv. 7. gr. laga nr. 45 12. febr. 1940, eftir að lög þessi taka gildi.“ Ef þessi lög eru enn í gildi, en þau eru ekki numin úr gildi með þessu, þá eru mönnum þar samkvæmt 7. gr. lagðar skyldur á herðar um greiðslu á móti þessu framlagi.

Ég hef nú, herra forseti,í rauninni lokið minni framsögu í sambandi við þessa till., en á eftir að svara tveimur hv. þm., sem hér hafa talað. En ég vildi gjarna vita, hvort forseti ætlar að halda fund í kvöld, og væri æskilegt, að hann gæti það. [Frh.]