04.05.1950
Efri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 2. umr. hér í hv. d., féll ég frá að ræða það að ráði, vegna þess að hv. frsm. landbn. lýsti yfir því, að málið yrði nánar rætt í n., og lofaði að ræða við mig atriði, sem ég taldi þurfa að breyta. Nú hefur n. haldið fund um málið, og þar fékk ég tækifæri til að mæta, og er ég þakklátur hv. n. fyrir það, en ekkert samkomulag varð um það, að hún tæki upp brtt. mínar, svo að ég mun flytja þær síðar, og væri rétt að fresta umr. þar til þær eru prentaðar, en ég skal þó fara nokkuð inn á efni þeirra nú þegar.

Í fyrsta lagi vil ég benda á það út af 3. gr., að ég tel, að það sé ekki sanngjarnt að ákveða, að bæturnar miðist við fjártölu viðkomandi bænda skv. skattaframtali tveim árum áður en fjárskipti fara fram. Ég tel eðlilegast að miða við fjártöluna árið áður, en fjárskipti fara fram, því að þá sést það tjón, sem bændur verða raunverulega fyrir. Skv. 2. tölul. er svo talað um, að bætur til þeirra, sem lógað hafa fé sínu 1947 og 1948, skuli miðaðar við skattaframtöl þrjú síðustu árin á undan. Ég mun bera fram brtt. við 3. gr. þannig, að 1. málsl. verði á þá leið, að bætur skuli miðaðar við fjártölu árið áður, en fjárskipti fara fram, en 2. málsl. falli niður. — Út af 4. gr. ber ég einnig fram brtt. þess efnis, að í stað tveggja ára á undan komi: þess árs, sem fjárskipti fara fram, — því að það verður að miða við það tjón, sem bændur verða raunverulega fyrir. Einnig legg ég til, að aftan við gr. komi ný málsgr.: þó ekki yfir 85 kr. á bótaskylda kind, — því að nauðsynlegt er að hafa þarna eitthvert hámark.

Framkvæmdastj. sauðfjárveikivarnanna lýsti því yfir við fjvn., að hann væri því hlynntur að hafa þetta hámark. Hann vildi hafa 75 kr. hámark, og hann taldi, að betra væri, en ekki að hafa 85 kr. hámarkið. Ég hef því leyft mér að bera fram brtt. um það, að 85 kr. hámarkið verði sett inn í l. og að aftan við 2. málslið 1. málsgr. bætist: „Þó ekki yfir 85 kr. á bótaskylda kind.“ Þá legg ég einnig til, að þar bætist við nýr málsliður: „Hámark þetta skal taka til bóta á árinu 1949 og framvegis.“

Þá finnst mér einnig nauðsynlegt að gera allvíðtækar breyt. á 6. gr., enda hefur hún þvælzt hvað mest fyrir, en ég vil þó ræða nokkuð um 4. gr., áður en ég kem að henni, næstsíðasta málsliðinn, en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Séu nægjanleg líflömb fáanleg, skal fjáreigendum gefinn kostur á að fá allt að því 20% til viðbótar. Sé ekki unnt að útvega þessi 50% lambanna svo fljótt, ber að greiða afurðatjónsbætur vegna þeirra, er á vantar, á sama hátt og fyrir er mælt í 39. gr.

Þessi ákvæði verð ég að segja, að eru gersamlega óviðeigandi og ekki rétt að leggja þessa byrði á herðar ríkissjóði, þótt af einhverjum ástæðum yrði ekki unnt að fá nægilega mörg líflömb — ja, við skulum bara segja vegna þess, að bændur vildu ekki láta lömbin af hendi. Ég vildi því breyta 2. málsl. 5. mgr. þannig:

„Sauðfjársjúkdómanefnd er heimilt að gera sérstakar ráðstafanir, ef nauðsynlegt þykir, til þess að tryggja, að fjáreigendur fái keypt 50% af bótaskyldri lambatölu ár hvert, og heimilast í því skyni eignarnám, enda komi fullt verð fyrir.“

Mér finnst sjálfsagt að gera slíkar ráðstafanir til þess að tryggja það, að líflömbin séu fyrir hendi, þegar um er að ræða milljóna og máske tugmilljóna spursmál fyrir ríkissjóð. Ég sé ekki annað, en þetta sé nauðsynlegur réttur og að engan veginn sé traðkað á þeim, sem hér eru aðilar að, fremur en öðrum, sem verða að beygja sig undir eignarnám.

Þessar brtt. vildi ég því leyfa mér að gera og svo að lokum við 6. gr., en ég vil leyfa mér að benda hæstv. forseta á það, að vegna þess, hve þetta er margþætt, hafði ég ekki lokið að fullu við brtt. Ég skal því gera nokkra grein fyrir því, sem ég hafði hugsað mér.

Það er sýnilegt á þskj. 624, að það hefur orðið samkomulag um það í n., að skuldabréf þau, sem hér um ræðir, skuli vera fullgild til greiðslu vaxta og afborgana fasteignaveðslána við banka, „þó aðeins þeirra aðila, er tekið hafa bréfin upp í bótagreiðslur samkvæmt lögum þessum.“ Þannig er ákveðið, að þankarnir skuli taka bréfin á nafnverði. En í þessu ætti að fara lengra. Ég vil benda á, að það var ákveðið um önnur skuldabréf á þessu þingi, að þau skuli vera lögmæt greiðsla upp í lausaskuldir við Landsbanka Íslands. Og þessi bréf ættu að vera það einnig, og ég tel að það eigi að setja það inn í frv., að þau skuli vera löggeng til greiðslu á öllum skuldum, sköttum og skyldum og á lausaskuldum við Landsbankann. Ég hafði hugsað mér — en mér hefur ekki unnizt tími til þess enn — að orða þetta svo, að bréfin skyldu vera fullgild til greiðslu á eftirfarandi skuldum og teknar síðan upp í flokka þær skuldir, sem um væri að ræða. Skal ég telja upp helztu skuldaflokkana. Voru þá í fyrsta lagi skuldir vegna vaxta og afborgana á fasteignalánum og alveg sama, hvort þar væri um að ræða skuldir við banka eða einstaklinga. Get ég ekki séð neitt athugavert við það, þótt einstaklingar verði að taka við þeim, ef þau eru gjaldgeng upp í skatta og skyldur, en það ættu þau að vera í öðru lagi, og í þriðja lagi á svo ríkissjóður að geta greitt með þeim lausaskuldir sínar við Landsbanka Íslands og hann yrði sá aðili, sem síðast yrði kaupandi. Og í fjórða lagi væru svo skuldir við verzlanir, hvort heldur kaupfélög eða einkafyrirtæki. Hvað Landsbankann snertir, þá getur þetta ekki verið nein stórkostleg fórn fyrir hann, úr því að vextir eru 4% og bréfin eiga að greiðast á næstu 5 árum, og þess er að vænta, að bankinn sendi ekki nein mótmæli gegn því og skjóti sér ekki undan að bera að einhverju leyti þær byrðar, sem hér er verið að létta af öðrum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar.

Þessar brtt. vil ég bera fram, en þar sem þær liggja hér ekki enn fyrir og ég tel ekki rétt að láta þær koma undir atkvæði áður en hv. alþm. hafa kynnt sér þær, þá leyfi ég mér að mælast til þess við hæstv. forseta, að hann fresti umr., og skal ég ekki orðlengja um málið meira að svo komnu, en lofa því að hafa gengið svo snemma frá till. mínum, að þeim verði útbýtt á næsta þingfundi.