06.05.1950
Efri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er spursmál, hvort ég var á mælendaskrá, þegar fundi var frestað hér síðast, af því að ég gaf þá forseta í vald, hvort hann vildi fresta umræðu,m þá í minni ræðu. Ég hafði tekið þann kostinn að fara ekki efnislega út í málið, því að þá voru komnar fram skriflegar brtt., ekki allfáar, frá hv. þm. Barð. (GJ), sem þó voru hálfkaraðar að sumu leyti, og þess vegna taldi ég rétt, til þess að allt færi sæmilega úr hendi, að doka dálítið við, og tel ég, að forseti vor hafi gert alveg rétt í því máli. N. hefur síðan athugað þessar brtt., þar sem við áttum kost á því meira að segja strax og þær voru lagðar fram hreinskrifaðar til skjalavarðar, því að flm. lét okkur hafa eintak af þeim, svo að við gætum athugað málið. Þessar till. eru kannske ekki eins miklar breyt. frá okkar till. eins og frá frv. eins og það er.

Ég vil segja það í sambandi við 1. brtt., að okkur í n. virtist í fljótu bragði, að þetta væri það sama að efni til og er í frv. sjálfu. Nú hefur flm. brtt. talað við mig um þetta atriði, og skal ég játa það og hygg, að n. sé á þeirri skoðun, að megi túlka það þannig, — og ég held það sé jafnvel réttast að túlka það þannig, að það breyti ekki neinu að efni til, — sé það a.m.k. hæpið að greiða a-lið brtt. atkvæði, með það fyrir augum, að það raski ekki því, sem stendur í sjálfu frv. Því tel ég miklu varlegra fyrir þá, sem vilja halda þeirri stefnu, sem er í frv. um fjárskiptatímann, að halda sig við frv. eins og það er. — Um 2. málsl. er það að segja, að eftir því, sem áður hefur orðið ofan á í þessu máli, finnst mér ekki ástæða til að fara að hvarfla frá því, frekar en frá fyrna atriðinu. Þá ætti bótaskyldan ekki að ná lengra aftur en til ársins 1948, en hv. flm. vill, að mér skilst, að það verði aðeins fyrir árið 1949, en það finnst mér of langt gengið. Ég hugsa samt, að ýmsir okkar nm. yrðu með þessu, ef hann felldi ekki liðinn alveg niður, en breytti því í þá átt, að bótaskyldan næði aðeins til niðurskurðar tveggja ára áður, en alls ekki til þriggja ára.

Þá er það 2. till., og er 1. liður hennar við 4. gr., að í stað orðanna „tveggja næstu ára á undan“ komi: þess árs, er niðurskurðurinn fer fram. — Þetta hefur alltaf verið áður, og því viljum við halda, og get ég ekki mælt með því, að sú till. verði samþykkt.

Þá er það b-liður till., um hámarkið, og ég verð að segja frá mínu sjónarmiði, að mér fannst sú till. að mörgu leyti mjög góð. N. velti því fyrir sér að hafa einmitt þetta hámark, sem þarna er talað um, og virtist vera að mestu sammála um það, og sauðfjárveikivarnanefnd var ekki því mótfallin. En þá var það form. landbn. Nd., sem gerði ráð fyrir því, að væri farið að setja ákveðið hámark hér í þetta frv., þá mundi það verða til þess að splundra því samkomulagi, sem þó náðist í Nd., og jafnvel verða til þess að eyðileggja framgang frv., og á það vildu menn ekki hætta, eftir það átak, sem nú er búið að gera í mæðiveikivörnunum, því að það væri ógurlegt fyrir landið að verða að hætta núna í miðjum kliðum vegna ósamkomulags hér á Alþingi og ekkert verði úr framhaldi.

Þá er það c-liður 2. brtt., sem ég verð að telja, að engin ástæða sé til að fráfælast, og mun ég greiða atkv. með þeirri brtt.

Þá er það 3. brtt. frá hv. þm. Verð ég að lýsa því yfir, að bæði ég og þeir nm., sem þá voru á fundi, voru sammála um að greiða henni atkvæði, því að ég sé ekki annað, en það geti verið öllu hagkvæmara fyrir mann, en peningabætur, að koma fótum undir hann með því að styrkja hann þá í annan atvinnuveg, sem honum væri betri í framtíðinni.

Þá er það 4. brtt. Um hana er það að segja, að ég held, að við séum allir sammála um það, að henni getum við ekki fylgt, því að liðir hennar eru þannig, sumir hverjir, að ég tel, að ekki sé skylt að hlýða þeim, t.d. 1. og 3. liðnum. Það tel ég, að við höfum ekki vald til að skipa hér fyrir um, og getum við ekki greitt þessu atkv. þegar af þeim ástæðum. —

Í 2. lið brtt. felst, að þessi skuldabréf gildi sem greiðsla á öllum opinberum gjöldum til ríkissjóðs. Það er nú að vísu hægt fyrir Alþ. að valdbjóða það, en skringilegt er það fyrirkomulag, að ríkissjóður gefi út skuldabréf, sem hann eftir mánaðartíma tekur aftur af einstaklingnum upp í gjöld hans í staðinn fyrir peninga, og væri þá brotaminna að ganga hreint að verki og borga strax í peningum.

Um 4. lið brtt. er það að segja, að það fer eftir því, hvað þingið vill ganga fast að Landsbankanum með að kaupa bréf, ýmist með ríkissjóðsábyrgð eða ríkissjóðsskuldabréf. Þetta getur maður gert ráð fyrir að verði, þegar búið er að hreinsa sig af pestinni, svona 15–20 millj. króna lágmark, og ég þekki ekki svo greiðslugetu þessa banka, að ég geti dæmt um það. En mér finnst þetta viðsjárvert, og eftir því, sem mér hafa borizt fregnir frá bankastjóra þar í banka, sem form. n. hefur átt tal við og borið í eyru okkar, virðist bankastjórinn ekki vera allfús á að taka þessi bréf og spyrnir fast fótum við. En um þetta getur form. n. vitnað hér, þar sem hann hefur betri aðstöðu til þess en ég. Af þessum ástæðum tel ég ekki rétt að samþykkja 4. lið þessarar brtt. hv. þm.

Að því er snertir brtt. hv. 2. þm. Árn. (EE), höfum við athugað hana. Ég skal ekki segja, hvað mikið gagn er að henni, en hún a.m.k. spillir ekki, og sauðfjársjúkdómanefnd telur hana ekki til neins skaða og hefur ekki á móti því, að hún verði samþ., svo að ég tel rétt að bæta henni við, því að ég sé ekki annað en það sé a.m.k. alveg skaðlaust og kannske frekar til bóta að samþykkja hana.

Þá er það brtt. 1. þm. Eyf. (BSt). Svipað þessu var verið að elta ólar við í Nd., og náttúrlega er það frá sjónarmiði þeirra, sem vilja vernda ríkissjóð fyrir of miklum greiðslum, engin ástæða til að samþykkja þessa brtt., en mikil ástæða til að hafna henni, því að gert er ráð fyrir svona á aðra milljón króna tjóni fyrir ríkissjóð, ef hún verður samþykkt. Virðist mér enn síður ástæða til að samþykkja hana, þegar tekið er tillit til þess, að margir fyrir norðan hafa sloppið langbezt úr pestinni og sérstaklega eitt kjördæmi, hv. þm., þar sem pestar hefur ekki orðið vart. Og yfirleitt má segja, að þessi héruð hafi sloppið vel út úr fjárpestinni, a.m.k. samanborið við aðrar sveitir, þar sem hún hefur gengið yfir í tugi ára eða lengur.

Ég hef gert grein fyrir þessu að nokkru leyti fyrir hönd n. Ég tala náttúrlega ekki fyrir munn hv. 4. landsk. (HG), sem hefur heldur haldið sig utan við n. og jafnvel er frekar litið um frv. gefið, en afgreiðslan var á sömu lund og ég hef nú lýst.