06.05.1950
Efri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú fyrst leyfa mér að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa frestað hér umr. um daginn og gefið mér tækifæri til að ganga að fullu frá brtt. mínum og tekið til greina þær ástæður, sem lágu til þess við 2. umr., en eðlilegast hefði verið, að þessar brtt. hefðu þá allar komið fram. Ég sé einnig ástæðu til að þakka hv. landbn. þann tíma, sem hún hefur varið til þess að ræða um þessar till., þó að hún hafi ekki orðið mér að öllu leyti sammála. Skal ég nú gera nokkru nánari grein fyrir þessum till., sumpart vegna þess, að ég hef nú að fullu gengið frá þeim, og sumpart vegna þess, að þær liggja nú fyrir þm. til athugunar.

Ég hef á þskj. 647 borið fram nokkrar brtt. við þetta frv. Fyrsta brtt. er við 3. gr. og er í tveim liðum, a og b. Um a-liðinn er það að segja, að hv. frsm. landbn. hélt því fram, að það mundi bera að sama brunni, hvort heldur þessi till. væri samþ. eða ekki. En þetta er hreinasti misskilningur. Ef till. er lesin, en hún hljóðar svo: „Framlag ríkisins vegna fjárskipta skal miða við fjártölu samkvæmt skattaframtali fyrir árið áður, en fjárskipti hefjast á þeim svæðum, sem bótaskyld eru á hverjum tíma,“ þá er það sýnilegt, að ef fjárskipti eiga að fara fram á árinu 1950, þá á að miða við skattaframtalið 1949, þ.e.a.s. það, sem gert er í ársbyrjun 1950 og gildir fyrir árið 1949. Hér styttist því tímabilið um eitt ár, og vil ég, að hv. þm. geri sér það vel ljóst. Það getur ekki gilt fyrir 1948. Skattaframtal, sem gert er á árinu 1950, getur ekki gilt fyrir annað en árið 1949, og þykir mér það alleinkennilegt af hv. 1. þm. N-M. (PZ), ef hann heldur öðru fram, þar sem — hann hefur nú átt sæti í ríkisskattanefnd um nokkurt skeið.

B-liður till. er um það, að 2. málsl. 3. gr. falli niður, en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hjá þeim fjáreigendum, sem lógað hafa öllu fé sínu haustin 1947 og 1948 vegna fyrirhugaðra fjárskipta 1950 og 1951, skal þó miða fjártöluna við skattaframtal þeirra tæpum þremur árum áður en fjárskipti hefjast, enda haldi þeir áfram búskap á hlutaðeigandi fjárskiptasvæði.“ Hér er þetta tímabil talið ná yfir 3 ár, sem ég tel hvorki rétt né eðlilegt, að þannig sé skipt. Nú hefur hv. frsm. n. lýst því yfir, að n. geti ekki fallizt á þessa till., en hefði ef til vill getað fallizt á hana, ef tímabilið hefði verið stytt um eitt ár. Ég vil því leyfa mér að bera fram skriflega brtt., sem verður varatill., ef þessi verður ekki samþ. eins og hún liggur fyrir. Till. er svohljóðandi: „Hjá þeim fjáreigendum, sem lógað hafa öllu, fé sínu haustið 1948 vegna fyrirhugaðra fjárskipta 1950 og 1951, skal þó miða við skattaframtal þeirra 1948“, — það er að segja, það er fellt úr þriðja árið, — og svo áfram: „enda haldi þeir áfram sauðfjárbúskap á hlutaðeigandi fjárskiptasvæði.“ Enda finnst mér það líka sanngjarnt skilyrði, að þeir haldi áfram sauðfjárbúskap, en ekki aðeins búskap í einhverri mynd, t.d. ekki kúabúi eða hænsnabúi. Ég mun því bera þessa till. fram sem varatill. við hina.

Þá eru brtt. við 4. gr. frv., og ér a-liður till. svona: „Í stað orðanna „tveggja ára á undan“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: þess árs, er niðurskurðurinn fer fram.“ — Ég lýsti þessu nokkuð við umr. um daginn, og sé því ekki ástæðu til þess að fara að ræða það atriði efnislega að svo stöddu. það styttir um eitt ár það tímabil, sem bæturnar eru miðaðar við. Enn fremur er tekin upp í b-liðinn till., sem framkvæmdastjóri sauðfjársjúkdómanefndar hefur gert um hámarksbótaskyldu, þó með þeirri breyt., að hér er gert ráð fyrir 10 króna hærri bótaskyldu fyrir hverja kind. Hann fullyrti það við fjvn., að það væri óhjákvæmilegt að setja eitthvert hámark um bótaskyldu, og lagði til, að það væri 75 kr., en það væri betra að hafa 85 kr. hámark en ekki, og þess vegna flyt ég þessa till. En nú hefur mér verið tjáð það, að þetta ákvæði eigi að taka út úr, eftir að hv. landbn. hefur fengið um það umsögn lögfræðinga, sem segja, að þetta ákvæði geti ekki staðizt, og skal ég ekkert um það segja að svo stöddu. Hæstv. landbrh. er nú sjálfur lögfræðingur, og það væri því gott að fá að heyra álit hans. Ég skal ekki segja um, hvort ugglaust er að þetta fái staðizt, en eftir er að fá úrskurð um þetta. Ég taldi samt rétt að taka þetta ákvæði upp, vegna áhuga framkvæmdastjóra sauðfjársjúkdóman. á þessu atriði. Verði 1. tölul. þessarar till. felldur, er 2. tölul. tekinn aftur sem afleiðing af því.

Þá hef ég enn borið fram eina brtt. við þessa gr., c-lið, sem er svo hljóðandi: „2. málsl. 5. mgr. orðist svo: Sauðfjársjúkdómanefnd er heimilt að gera sérstakar ráðstafanir, ef nauðsynlegt þykir, til þess að tryggja, að fjáreigendur fái keypt 50% af bótaskyldri lambatölu ár hvert, og heimilast í því skyni eignarnám, enda komi fullt verð fyrir.“ Ég tel sjálfsagt að setja þetta ákvæði inn í frv., því að ég tel það óverjandi, ef hægt á að vera að krefja ríkissjóð um sérstakt gjald, ef bændur geta ekki keypt líflömb. Það er nauðsynlegt, að til sé heimild til eignarnáms á þeim, ef þau eru á annað borð til í landinu. Það er því nauðsynlegt að samþ. þessa gr., og ég fæ ekki séð, að með henni sé gengið á rétt nokkurs manns, nema síður sé, því að með því er það tryggt, að þeir, sem eignarnámið er gert fyrir, fái líflömb, ef þau eru á annað borð til í landinu. Réttur þeirra, sem eignarnámið er gert hjá, er tryggður með því, að fullt verð á að koma fyrir, og í þriðja lagi er réttur ríkissjóðs með því tryggður, að ríkissjóður er ekki krafinn, nema bændur hafi fengið þessi líflömb, enda sagði líka hv. frsm. landbn., að hann væri því fylgjandi, að þessi liður yrði samþ.

Enn fremur er 3. brtt. við 5. gr. um það, að við 1. málsl. bætist: „eða styrkja þá til að breyta yfir í aðra framleiðslu, er veiti þeim eigi minni bætur, enda sé það hagkvæmara fyrir ríkissjóð að dómi nefndarinnar.“ Ég vil leyfa mér að þakka hv. landbn. fyrir það að vilja fylgja þessari till., því að ég tel það sjálfsagt, og auk þess kann það að kosta ríkissjóð minna fé. Ef það hefur farið saman kúa- og sauðfjárbúskapur, þá kann það að vera svo, að það verði álitið hagkvæmara að breyta þessu yfir í kúabúskap eingöngu, og þyrfti þá kannske ekki að bæta við nema einni til tveimur kúm, til þess að reksturinn verði eins arðbær og áður. En með því að hv. landbn. hefur fallizt á þessa till. mína, gerist ekki þörf að ræða hana nánar.

Þá er að síðustu sú till., sem mest hefur verið deilt um. Ekki af því, að þeir hv. þm., sem mest hafa um þetta rætt, séu ekki sammála mér, heldur er það af því, að það þykir ef til vill erfitt eða ósanngjarnt að ákveða, að skuldabréfin skuli gilda sem svo víðtækur gjaldmiðill. Ég hef lagt það til, að skuldabréf þessi skuli gilda sem fullgild greiðsla fyrir, í fyrsta lagi: „Á skuldum vegna vaxta og afborgana fasteignalána, er þeir aðilar skulda, sem tekið hafa bréfin upp í bótagreiðslur samkvæmt lögum þessum.“ Þetta er raunverulega sama og er í till. hv. n., en þó hefur hv. frsm. n. sagt, að þessi liður geti ekki verið samþ. (ÞÞ: Í till. n. er aðeins átt við fasteignalán í bönkum.) Yfirleitt er það líka svo, að fasteignalán eru ekki tekin nema í bönkum, og ef það er hægt að bjóða það í lögum, að þetta skuli vera fullgildur gjaldmiðill til banka, þá er það líka hægt um sparisjóði, því að það er enginn eðlismunur á því. Þegar þetta er orðinn fullgildur gjaldmiðill í öllum bönkum, og sérstaklega ef 4. liður verður einnig samþ., þá gerbreytist málið allt. Ég vil í því sambandi benda á það, að á þessu þingi hafa verið samþykkt lög um, að önnur skuldabréf skuli vera fullgildur gjaldmiðill og tekin af Landsbankanum sem greiðsla á lausaskuldum ríkissjóðs, og fæ ég ekki séð, að neinn eðlismunur sé á þessu tvennu. Lagalega hlýtur annaðhvort hvort tveggja að vera rétt eða hvort tveggja rangt. Þá er og rétt að athuga það, að hér er um mjög mikið fjárhagslegt atriði að ræða fyrir Landsbankann, því að hér er um að ræða 3 millj. kr. árlega, svo að mismunurinn á vöxtum, sem Landsbankinn fengi árlega frá ríkissjóði, sem er 2%, mundi gera 60 þús. kr. á ári, svo að mér finnst það síður en svo, að verið sé að leggja neinar byrðar á Landsbankann. Landsbankinn er betur settur, þó að hann þurfi að eyða 200 þús. kr. í þennan atvinnuveg til þess að styrkja hann. (ÞÞ: Er þetta þá einhvers konar hjálparstarfsemi við Landsbankann?) Landsbankinn er ekki rekinn bara sem gróðafyrirtæki, heldur til þess að styrkja atvinnuvegina. Ég tel þá skoðun vera mjög einkennilega hjá hv. nm. og þm., ef þeir álíta, að þetta komi til með að vera einhver stórkostleg byrði fyrir Landsbankann. Sannleikurinn er sá, að það er mjög vafasamt, hvort Landsbankinn eigi að reikna ríkissjóði 6% í vexti af lausaskuldum hans, og úr því að teknir eru 4% vextir af þessum bréfum, þá er ekki nema sjálfsagt að samþ. þessa till., því að með þeim er ekkert verið að ganga á rétt Landsbankans. Þá fellur líka fullyrðing hv. frsm. um, að bréfin séu gefin út í dag og leyst inn á morgun, um sjálfa sig.

Þá hef ég einnig lagt það til, að þetta verði gjaldgengur miðill til allra opinberra stofnana og sjóða, og er ég tilbúinn að ræða það atriði nánar við hv. n., til þess að tryggja þetta nánar.

Einnig legg ég það til, að þessi bréf skuli vera fullgild til greiðslu á skuldum við verzlanir þær, sem viðkomandi aðilar skipta við. Mér er kunnugt um það, að margir af þessum mönnum hafa haft viðskipti undanfarið við verzlun sína eða kaupfélag, en mér er ekki kunnugt um, að þeir hafi fengið meira en 4% í vexti af því að hafa fé sitt í veltunni, ef þeir hafa þá fengið nokkuð, svo að það er engin goðgá, þó að þessar verzlanir yrðu að taka þessi bréf upp í skuldir, auk þess sem þær geta greitt með þeim opinber gjöld. Það er ljóst, að þessi bréf koma ekki fram núna fyrstu vikurnar eða mánuðina.

Ég mælist til þess, að atkvgr. um þetta verði nú frestað og d. taki þetta til gaumgæfilegrar athugunar og það verði rætt af flokkunum á meðan, því að hér er um mjög stórt mál að ræða, svo stórt, að allir verða að taka höndum saman um að leysa það, og ég trúi ekki, að þjóðbankinn skorist undan því að taka á sig sína byrði.

Ég átti nýlega tal við hv. þm. Mýr. (BÁ), og hann sagði, að hann teldi margt rétt í þessum till., en það kæmi bara svo seint fram. En það er ekki ástæða til þess að drepa það vegna þess, og af því starfi, sem ég hef haft í fjvn., er mér kunnugt, að það eru miklir erðiðleikar, sem þetta mál kann að valda, en það er óráð að fara ekki þá leið, sem í till. er, ef það er talin bezta leiðin, af því, að svo langt er liðið á þingið. Þetta starf, sem hér þarf að gera, tekur 5–6 ár, og það er reynsla mín, að ekki sé betra að fresta erfiðleikunum, en ég get fullvissað menn um það, að erfiðleikarnir verða ekki minni, ef þessi till., sem hér um ræðir, verður ekki samþ.