06.05.1950
Efri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en þó langar mig til að minnast á nokkur atriði.

Það, sem hefur komið þessu máli nú af stað í þinginu, er það, að nauðsyn er að láta fjárskiptin ganga sem hraðast. Sú nauðsyn stafar sérstaklega af því, að því lengur sem þau standa yfir, því meiri hætta er á, að veikin komist aftur fyrir þær varðlínur, sem gerðar eru, svo að stofninn sýkist aftur.

Það var sérstaklega brtt. á þskj. 647,4, sem gaf mér tilefni til að segja nokkur orð, því að mér virtist hv. þm. Barð. ekki gera sér alveg ljóst, hvernig þetta verður samkv. hans till. Hann talaði um, að þetta verkaði sérstaklega á Landsbankann. Það má segja það að nokkru leyti, en þó er það ekki fyrst og fremst þar. Það, sem um er að ræða, ef till. 647,4 er samþ., er það, að þá eru þessi bréf sett á frjálsan markað. Þá getur hver keypt þau sem vill. Nú eru ástæður þeirra manna, sem fá þessi bréf, þannig, að þótt nokkrir þeirra geti geymt þau, þá er flestum þeirra það ómögulegt, heldur verða flestir þeirra að fá peninga. Þeir þurfa að losa sig við bréfin. Þau mundu því lenda hjá peningamönnum, með 5–10% afföllum. Þessir menn þurfa að greiða ríkissjóði gjöld, og þeir mundu láta þessi bréf í þau. ríkissjóður gæti að vísu borgað lausaskuldir hjá Landsbankanum með þessum bréfum, en ef greiðsluhalli væri á fjárl., þá mundi hann verða að stofna til annarra lausaskulda í staðinn. Það er því ríkissjóður, sem þetta bitnaði á, bændurnir mundu verða að selja bréfin með afslætti, en peningamenn, sem hefðu einhver auraráð, hvort sem það væri hv. þm. Barð. eða einhver annar, mundu græða á að kaupa þau og láta þau síðan í gjöld til ríkissjóðs. Þannig mundi þetta verða, ef þessi brtt. hv. þm. yrði samþ. Ég vil með hvorugu þessu verða. Ég vil hvorki, að ríkissjóður lendi í fjárþröng af þessum sökum, né heldur að peningamenn geti grætt á þessum bréfum. Ég er því af hjartans grunni á móti þessari brtt.

Að öðru leyti skal ég ekki láta málið til mín taka. Hv. frsm. hefur gert grein fyrir málinu. Ég legg í hans vald, hvort atkvgr. er frestað, til þess að málið verði rætt í flokkunum, hvort menn vilja vera með því að láta þessi bréf ganga upp í lausaskuldir á þann hátt, sem hv. þm. Barð. leggur til. Ég er alveg viss um, að ef þetta mál er krufið, þá verða svo að segja engir þm. með því og ég hugsa hv. þm. Barð. ekki heldur, ef hann athugar málið vel.