11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég var fyrst að sjá þetta frv. nú eftir að það kom úr Ed., og ég get ekki séð, að það hafi tekið breyt. til bóta í hv. d. Ég tel ekki sæmandi fyrir hæstv. Alþ. að samþykkja þetta frv., vegna þess að hér er verið að rifta samningum, sem búið er að gera við ýmsa aðila. Hér í d. voru sett inn ákvæði, sem áttu að tryggja rétt þessara aðila, en þeim hefur verið raskað að nokkru leyti í Ed. Það var heimilað, þegar frv. þetta var rætt hér, að þeir bændur, sem aðeins hafa sauðfé og eru því þannig settir, að þeir geta ekkert framleitt, meðan þeir eru sauðlausir, slyppu við að taka við greiðslu í skuldabréfum. Þessu hefur verið breytt nokkuð í Ed., en ég vænti þess, að þeir séu þó ekki skyldugir að taka við skuldabréfum.

Ég tek það fram, að ég greiði atkv. á móti frv. eins og það liggur fyrir, og ég get ekki fylgt því eins og það var, þegar það fór héðan. Nú er það enn ósanngjarnara í garð þeirra manna, sem búið var að gera samninga við. Ég greiði atkv. með brtt. hv. þm. Dal. Hún er til bóta eins og frv. er nú. — Ég vil ekki vera að þreyta kappræður um þetta mál. Örlög þess munu ráðin. Ég hygg, að hv. Alþingi sé að gera hér hlut, sem það má ekki gera. Það mun leiða til þess, að þjóðin hefur enn minni trú á ákvörðunum Alþingis en annars.