27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð út af nokkrum ummælum hv. frsm. fjhn., hv. þm. V-Húnv., viðvíkjandi sjóðauppgjörinu og því, sem á milli ber. En það er rétt, að þetta hefur verið viðvarandi og komið fyrir nokkrum sinnum, að einstakir sjóðir telji sig eiga nokkru meira hjá ríkissjóði, en ríkissjóður hefur viljað viðurkenna og ríkisreikningurinn borið með sér. Stundum stafar þessi mismunur af því, að þegar ríkissjóður eða ríkisbókhaldið hefur lokað reikningnum, þá hafa eigi verið komnar skilagreinir frá einstökum sjóðum, og ríkisbókhaldið hefur því eigi vitað, hvað leið uppgerð þessara sjóða, og þess vegna eigi getað borið saman. Í öðrum tilfellum stafar það aftur af því, að ríkissjóður hefur eigi viljað viðurkenna kröfur einstakra sjóða til ríkissjóðs um greiðslur, og þess konar atriði hafa svo stundum verið óútkljáð alllengi, jafnvel svo að árum hefur skipt, og þess vegna hefur þessi mismunur komið fram á ríkisreikningnum. Nú má náttúrlega segja, að sjálfsagt sé að taka upp þá reglu, að uppgjör fari mjög fljótlega fram milli ríkissjóðs og einstakra sjóða, svo að ríkisreikningurinn beri réttar niðurstöðutölur með sér. En viðvíkjandi einstökum reikningum í uppgjöri ríkissjóðs og einstakra sjóða ber þess að gæta, að eigi skilagreinir að koma frá einstökum sjóðum til ríkisbókhaldsins áður, þá getur það eigi lokað reikningunum fyrr en seint og síðar meir, því að einstakir sjóðir, sem ríkissjóður á að vísu, geta eigi gert upp fyrr en löngu eftir áramót, af því að skilagreinirnar þurfa að koma frá embættismönnum, sem sjá um sömu sjóði. Er því eigi hægt að loka reikningunum, fyrr en þær koma til ríkisbókhaldsins. — Ég hef drepið á þetta til að gera grein fyrir, hvernig á þessu stendur.

Nú er talað um, að flýta beri fyrir uppgjöri reikninganna, svo að endanlegar niðurstöðutölur geti legið fyrir Alþ. Það er síður en svo, að ég vilji vera á móti því. En þá ber þess að gæta, að ég hygg það munu vera torvelt vegna þess, hversu á milli ber fyrir sakir uppgjörs einstakra sjóða. Yfirskoðunarmennirnir gætu bent á mismuninn. Hafa þeir þó eigi gert það, því að á næsta ári fer fram greiðslujöfnuður milli hinna einstöku sjóða. Munu þá koma fram hinar réttu tölur. Þó ber þess að gæta, að sé samkomulag milli embættismannanna og ríkissjóðs um uppgjör sjóðanna, þá getur það komið fram á næsta ári. Greini þá og hann hins vegar á, getur þetta dregizt. Ég ætla, að ég muni það rétt, að fiskveiðasjóð . . . (Rödd: Fiskimálasjóð.) Já, ég þakka fyrir leiðréttinguna. Fiskimálasjóður telur til eignar hjá ríkissjóði, en þar greinir á um réttmæti þeirrar kröfu hans til ríkissjóðs. Að sjálfsögðu ber að flýta fyrir uppgjörinu, en það verður þá að gerast þannig, að ríkisreikningurinn sé endanlega réttur. Ég vil í þessu sambandi minna á annan sjóð, sem nú um hríð hefur verið ágreiningur um, þ.e. rafmagnsmálasjóð. ( Rödd: Raforkusjóð.) Já. Hann telur sig eiga hjá ríkissjóði 11/2 millj. kr. meira, en ríkissjóður hefur viljað viðurkenna. Yfirskoðunarmenn eru þeirrar skoðunar, að raforkumálastjóri hafi rétt fyrir sér og raforkusjóður eigi þetta fé inni hjá ríkissjóði. Á fjárl. fyrir árið 1946 var áætluð 1/2 millj. kr. til raforkusjóðs, en þau l. voru. samþ. á því þ. og öðluðust gildi í aprílmánuði það ár og gera ráð fyrir 2 millj. kr. til hans, en ríkissjóður hefur eigi greitt nema 1/2 millj. kr. og bundið sig við það. Þótt yfirskoðunarmennirnir í hvert sinn bentu á mismuninn í uppgjöri reikninganna og ríkissjóðs, hefur það eigi mikið gildi fyrir sakir þessa ágreinings, fyrr en þau mál eru endanlega útkljáð. Nú bentum við á þetta í athugasemdum okkar um árið 1947 og óskuðum eftir, að þessu yrði komið á hreint.

Ég vildi aðeins upplýsa þetta, en hér er sem um önnur atriði, að það ber að sjálfsögðu að gera það unnt að flýta uppgjörinu og afgreiðslu þessa máls.