08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég minntist aðeins lauslega á þessi atriði áðan, sem hv. þm. var að tala um. Þar sem hv. 1. þm. N–M. sagði, að það hefði aðeins verið hálfsögð sagan með mínum ummælum, þá vil ég taka það fram, að það var ekki ætlun mín að fara frekar út í þetta eða ræða það nánar, heldur aðeins að benda á númerin á þeim aths., sem yfirskoðunarmennirnir vísa til aðgerða Alþingis. Ég get tekið undir þau ummæli með hv. þm., að þessar aðgerðir hafi legið niðri, en ég man ekki eftir því síðan ég kom á þing, að það hafi verið hafinn sérstakur málflutningur út af andmælum endurskoðendanna nema einstöku sinnum, og þá aðeins lauslega, líkt og hv. 1. þm. N-M. gerði hér áðan. En hins vegar vil ég taka það fram, að það hafa aldrei legið á okkur nein bönd í sambandi við þetta, og við getum, einstakir þm., tekið þetta upp hjá sjálfum okkur og borið það fram á réttum vettvangi, í því getur enginn hindrað okkur. En hitt með landsdóminn, þá er það hlutur, sem heyrir til góðri reglu, að hafa hann alltaf skipaðan, t.d. líkt og ríkisskattanefnd, og á ríkisstj. á hverjum tíma að hafa forgöngu um, að slíkur dómstóll sé alltaf til, úr því að ákvæðin um hann eru í lögum.

Þessi einstöku atriði, sem hér hefur verið minnzt á, hafa sum hver verið rædd nokkuð, en sjálfsagt ekki verið tekin fyrir á þann hátt, sem endurskoðendurnir hafa ætlazt til. Ég vil ekkert segja um þetta nú, hvorki um byggingu bátanna né um síldarverksmiðjurnar o.fl., þótt margt væri auðvitað hægt um það að segja, enda hafa þessi atriði oft slæðzt inn í umr. á ýmsum tímum. En þar sem augljóst er af ákvæðum stjskr., að hvorug þd. er réttur vettvangur til formlegra aðgerða í þessum málum, þá finnst mér ekki rétt að fara lengra hér. Hitt er svo rétt, að það er hægt fyrir. hvern sem er af hv. þm. að taka þetta mál upp til meðferðar í Sþ.