11.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lofaði ég því að afla upplýsinga um ákveðna liði. Þeim liðum er svo háttað, að yfirskoðunarmenn hafa talið, að þeir hafi ekki fengið nógu greinargóð svör varðandi þá, og þess vegna vísað til aðgerða Alþ. Þær upplýsingar, sem ég get gefið, eru lítið annað en það, sem fyrir liggur og yfirskoðunarmennirnir hefðu hæglega getað fengið. En ég lofaði þessu, og til þess að uppfylla það loforð, skal ég gefa nokkrar upplýsingar um þetta.

Það er þá fyrst aths. 18, varðandi eignir skipasmíðastöðvarinnar við Elliðaárvog og Landssmiðjunnar. Hvað eignir skipasmíðastöðvarinnar snertir, hef ég engu, að bæta við þær upplýsingar, er fyrir liggja. Það er kunnugt, að Landssmiðjan beið fjárhagslegt tjón í sambandi við byggingu bátanna, en þó held ég, að ástæðulaust sé að átelja þá ráðstöfun. Um leið og bátasmíðarnar hættu, var skipt um forstjóra, og var árið 1947 fyrsta starfsár nýja forstjórans. Hagur Landssmiðjunnar var þröngur árið 1947, svo að fjmrn. varð að lána henni peninga, til þess að allt stæði ekki fast eða beinlínis yrði að loka henni. En það er ánægjulegt, að hagur hennar hefur síðan sífellt farið batnandi. Rekstur Landssmiðjunnar er nú kominn á nokkurn veginn heilbrigðan grundvöll, og má ætla, að hagur hennar batni áfram. Ég þykist vita, að hv. dm. sé þetta gleðiefni, ekki síður en mér.

Þá er 20. aths., varðandi byggingu Síldarverksmiðja ríkisins. Um þetta mál voru nýlega gefnar upplýsingar í Sþ., og hér í d. var kveðið hart að orði um byggingu verksmiðjanna á Skagaströnd og Siglufirði, er reyndust óhóflega dýrar, og halið, að rannsaka þyrfti þetta mál vel. Árið 1947 voru settir í þetta tveir lögfræðingar, er sátu lengi og gáfu síðan skýrslu til fyrrv. stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, er þá hóf nýja rannsókn á málinu, sem sumir af stjórnarmeðlimum verksmiðjanna tóku þátt í. Í umr. í Sþ. kom í ljós, að stjórn verksmiðjanna hefur nú fengið í hendur niðurstöður þessarar rannsóknar, en hefur enn ekki tekið ákvörðun um það, hvort heimta eigi aðra rannsókn eða láta þetta nægja. Þetta eru sömu upplýsingar og hæstv. atvmrh. gaf í Sþ.

Þá er aths. 25 varðandi fiskflutninga, er fram fóru árið 1945, að á þeim hafi orðið mikið tap. Það stendur svo: „Yfirskoðunarmenn óska ýtarlegra skýringa á orsökinni til þessa mikla tjóns, sem á fiskflutningunum hefur verið“. Þetta tjón nam 2 millj. og 221 þús. kr. ?rg hef hér í höndum skýrslu þá, er sjútvmrn. barst frá fiskimálan. varðandi þetta. Vil ég til skýringar, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa skýrslu, en hún er dags. 1. sept. 1947:

„Í framhaldi af bréfi voru 30. júlí og mótteknu bréfi hæstvirts ráðuneytis, dags. 6. ágúst s.l., leyfum vér oss hér með að senda hæstvirtu ráðuneyti yfirlitsreikning yfir fiskflutninga þá, er fiskimálanefnd hafði með höndum fyrir ríkissjóð á árinu 1945, þar sem nú hefur verið endanlega gengið frá samkomulagi um þau deiluatriði, er uppi voru við hina færeysku aðila.

Samkvæmt ársuppgjöri nefndarinnar fyrir árið 1945 var halli á rekstri skipanna þá kr. 2.078.333.56. Auk þess hafði nefndin samkvæmt bréfi atvmrn., dags. 15/2–'47, fært ríkissjóði til gjalda kostnað við e/s Lagarfoss og e/s Selfoss, vegna þess að skipin voru tekin til kolaflutninga nokkuð af þeim tíma, er þau voru leigð til fiskflutninga. Hæstvirtu ráðuneyti voru á sínum tíma sendir reikningar yfir þessi frátök skipanna, sem námu alls kr. 252.362,17. Nefndin hafði á því ári einnig á hendi söfnun skýrslna, útreikning og greiðslu verðjöfnunargjalds á fiski, og námu útgjöld við það kr. 114.470.85. Alls urðu útgjöldin á árinu því kr. 2.445.166.58.

Í lok ársins 1945 var þó vitað, að stórkostlegur ágreiningur var á milli nefndarinnar og Rederiforeningen í Þórshöfn út af leigutíma skipanna, tryggingum o.fl., svo að viðskiptum var á engan hátt lokið. Þar að auki gerðu félagssamtök hinna færeysku sjómanna kröfu til viðbótarkaups fyrir flutning á sementi og salti til landsins með skipunum og auk þess kauphækkun vegna lækkaðs verðs á fiski í Bretlandi á útgerðartímabilinu. Fiskimálanefnd hafði í sambandi við lausn þessara deilna lögfræðilega aðstoð og auk þess náið samstarf við hæstv. atvmrn. um endanlega afgreiðslu þessara deiluatriða í öllum aðalatriðum. Nokkuð af þessum kröfum varð nefndin að fallast á að greiða og hefur þannig á árinu 1946 samþykkt greiðslur á kr. 238.939.52. Skrifstofukostnaður á því ári vegna uppgjörsins og ýmis kostnaður í kringum það var reiknaður kr. 33.700.83.

Frá áramótum 1945 til 31. júlí 1946 hefur nefndin orðið að greiða vexti af hlaupareikningsláni við Landsbankann vegna útgerðarinnar, þar sem nefndinni hafði ekki verið fengið neitt fé til rekstrarins af hálfu ríkissjóðs. Vextir þessir, að upphæð kr. 85.985.49, eru því færðir ríkissjóði til skuldar. Þá eru einnig á því ári færðar yfir á ríkissjóð skuld Sverris Júlíussonar, Keflavík, kr. 244.865.49, og skuld Sölusamlags útvegsmanna á Hornafirði, kr. 33.640.80. Andvirði þeirra fiskkassa, sem notaðir voru til fiskflutninga, er þar og uppgefið kr. 413.087.04.

Þó að samkomulagi hafi verið náð, bæði um kaupkröfur Færeyinga og leigu fyrir skipin, þá var þó eigi endanlega frá því gengið fyrr en á þessu ári, eins og nánar kemur fram í bréfi fiskimálanefndar til hæstv. ráðuneytis, dags. 19. júní s.l., og nemur sú lokagreiðsla, sem þá var samþykkt, alls kr. 118.924.11.

Nokkur brögð voru að því á útgerðarárinu 1945, að skipsmenn höfðu tekið út bæði í vörum og peningum á hinum ýmsu hleðsluhöfnum á landinu og einnig í Englandi svo mikið, að kaup þeirra hrökk ekki fyrir því. Á þennan hátt urðu til skuldir hjá hinum ýmsu skipsmönnum. N. vildi gera skipstjórana ábyrga fyrir þeim skuldum, sem þannig voru til komnar, og tilkynnti það um leið og uppgjör voru send og hélt eftir af kaupinu því, sem nam þessum skuldum. Nokkur ágreiningur reis út af þessu, en varð að lokum að samkomulagi, að skipstjórafélagið reyndi að innheimta það af þessum skuldum, sem mögulegt væri. Þetta tókst að mestu, og hefur n. fært þá upphæð ríkissjóði til tekna, kr. 7.971.71.

Eins og sjá má af yfirlitinu, hefur n. fært ríkissjóði til tekna andvirði þeirra fiskkassa, sem hún hefur selt, kr. 46.804.00 og kr. 20.935.50. Þá hafa á þessu ári verið greiddar frá Seyðisfirði kr. 1.350.00 fyrir fisk, sem tekinn var úr einu skipinu vegna þess, að hann var dæmdur óhæfur til útflutnings.

Vér væntum þess, að þessar upplýsingar um rekstur þennan í aðalatriðum, auk þess sem áður hefur verið sent ráðuneytinu, megi til skýringar á meðfylgjandi reikningsyfirliti.

Vér viljum benda á samkvæmt framanrituðu og með tilvísun til bréfs vors 19. júní s.l., að enn þá hefur ekki farið fram greiðsla á 317.923 kr., sem oss ber að greiða til í æreyja samkvæmt gerðu samkomulagi, og verði langur dráttur á því enn þá, er ekki ólíklegt, að hinir færeysku aðilar setji fram kröfu um dráttarvexti. Það er því mjög nauðsynlegt, að hæstv. ráðuneyti geri nú þegar ráðstöfun til þess, að oss verði greiddar þær kr. 580.675.40, sem er skuld ríkissjóðs, eða a.m.k. til bráðabirgða kr. 317.923.00, sem greiða þarf nú þegar til hinna færeysku aðila.“

26. aths. er varðandi bátasmíðar, og skal nú gerð nokkur grein fyrir þeim.

Á árunum 1943 og 1944 hafði ríkisstj. með höndum athugun á möguleikum á smíði fiskiskipa í Svíþjóð. Eftir að leyfi sænskra stjórnarvalda var fengið fyrir smíði 45 tréskipa, voru uppdrættir gerðir af tveimur stærðum skipa, 50 rúmlesta og 80 rúmlesta, og tilboða leitað hjá sænskum skipasmíðastöðvum í smíði þeirra, og einnig var leitað tilboða í vélarnar. Áður en tilboðin voru samþykkt, var spurzt fyrir um það hjá þingflokkunum, hvort þeir teldu rétt að samþykkja framkomin tilboð á umræddum 45 skipum, þrátt fyrir óvissu þá, sem var um kaupendur skipanna. Að fengnu samþykki allra þingflokkanna var sendiráðinu í Stokkhólmi hinn 19. sept. 1944 falið að samþykkja hagkvæmustu tilboðin. Væntanlegum kaupendum var tilkynnt, að þeir yrðu að greiða 125.000 kr. upp í andvirði 50 rúmlesta skipanna og 150.000 kr. upp í andvirði 80 rúmlesta skipanna. Vegna örðugleika kaupenda á greiðslu hins tilskilda framlags var það af stjórn þeirri, er tók við völdum í októbermánuði 1944, lækkað niður í 60.000 á minni skipin og 75.000 á þau stærri.

Á árinu 1945 var samið um smíði 5 skipa til viðbótar, eða alls 50 skip. Fyrstu skipin komu. heim á árinu 1946 og það síðasta árið 1948.

Með lögum nr. 41/1946 var stofnlánadeild sjávarútvegsins stofnuð, og var gert ráð fyrir, að hún veitti lán út á öll Svíþjóðarskipin. Strax og reikningar yfir smíði hvers einstaks skips höfðu borizt ráðuneytinu, voru væntanlegir kaupendur krafðir um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðsins að frádregnu stofnláni. Þrátt fyrir hin hagkvæmu lánskjör stofnlánadeildarinnar gekk kaupendum mjög erfiðlega að gera skil, sem stafaði fyrst og fremst af aflabresti á síldveiðunum undanfarin ár. Nú var um tvennt að velja, annaðhvort að rifta kaupunum og reyna að selja skipin hæstbjóðanda eða lána eftirstöðvarnar til bráðabirgða þeim, sem upphaflega höfðu pantað skipin. Eins og hag útgerðarinnar var komið, mátti gera ráð fyrir, að ef mörg skip af sömu stærð yrðu boðin til kaups, þá mundu þau ekki seljast fyrir kostnaðarverð og ríkissjóður verða fyrir stórkostlegu tapi. Fyrrv. ríkisstj., er sat að völdum til 4. febr. 1947, ákvað því að lána kaupendunum eftirstöðvarnar af kostnaðarverði skipanna til bráðabirgða, og hefur ríkisstjórn sú, er sat að völdum til 6. des. 1949, fylgt sömu reglu. Á árinu 1947 var öllu starfsfé stofnlánadeildar ráðstafað, og hafði þá 33 skipum verið veitt stofnlán, en 17 skip voru óuppgerð.

Til þess að gera kaupendum Svíþjóðarbátanna jafnt undir höfði, var 13 af þessum 17 skipum veitt lán úr ríkissjóði með sömu kjörum eins og um stofnlán væri að ræða og skuldabréfin falin Landsbankanum til varðveizlu. Fjögur skip eru hins vegar óuppgerð. Jafnframt var ráð fyrir því gert, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess að auka starfsfé stofnlánadeildarinnar og hún innleysti síðan þessi skuldabréf.

Eins og að framan segir, samþykktu allir stjórnmálaflokkar á Alþingi, að ráðizt yrði í smíði Svíþjóðarskipanna, þrátt fyrir að á þeim tíma væri engin vissa fyrir, að ríkissjóður yrði skaðlaus af þessum framkvæmdum. Jafnframt hefur Alþingi á sama tíma, sem smíði Svíþjóðarbátanna stóð yfir, veitt útvegsmönnum fjárhagslega aðstoð, er nemur á annan tug milljóna, vegna aflabrestsins á síldveiðunum. Það virðist því algerlega hafa farið í bága við stefnu Alþingis að svipta kaupendurna umráðarétti yfir skipunum vegna fjárhagsvandræða þeirra.

Þá er annar þáttur þessa máls, sem eru bátar smíðaðir innanlands. Á árinu 1945 ákvað ríkisstj. að láta smíða innanlands á næstu 1–2 árum 50 fiskibáta, ef kaupendur fengjust. Umsóknir bárust um mun fleiri báta, en ráðgert var að smíða, og var þá leitað tilboða í smíði þeirra. Síðan var ákveðið, að smíðaðir yrðu aðeins 26 bátar, 17 bátar 35 rúmlestir, 7 bátar 55 rúmlestir og 2 bátar 62 rúmlestir. Samningar um smíði bátanna voru á þá leið, að skipasmíðastöðvarnar áttu að leggja til allt efni og vinnu ásamt öllum venjulegum tækjum og vélum, að undanteknum aðalvélum, sem ráðuneytið átti að útvega sérstaklega. Við smíði bátanna hafa þeir reynzt nokkru stærri, en í upphafi var gert ráð fyrir, þannig:

35 rúml. bátar reyndust 37–44 rúmlestir

55 — — — 66 —

62 — — — 65 —

Kostur hefur það þótt, að bátarnir reyndust þetta stærri, en þar sem verðið var miðað við rúmlestastærð (7.700 kr. rúmlest), verða þeir talsvert dýrari.

Söluskilmálar eru þeir, að kaupendur lögðu fram við kaup 100 þús. kr. fyrir stærri bátana og 70 þús. fyrir þá minni. Í þremur tilfellum hefur aðeins verið krafizt 60 þús. kr. útborgunar fyrir minni bátana og einn bátur án nokkurrar útborgunar, samkv. þál. frá 23. maí 1947. Fiskveiðasjóður lánar um helming kostnaðarverðs, síðan lán úr styrktar- og lánasjóði fiskiskipa, 100 þús. kr. út á stærri bátana, en 90 þús. kr. út á þá minni. Eftirstöðvar kaupverðsins lánar ríkissjóður til bráðabirgða með veði í bátunum. Bátarnir eru seldir fyrir kostnaðarverð að viðbættum 4% vöxtum af því fé, sem ríkissjóður hefur í þá lagt, hvern fyrir sig.

Allir stærri bátarnir eru þegar seldir, og af þeim eru 8 fulluppgerðir. Hefur söluverð þeirra numið samtals 5.422.094 kr. Um einn bátinn hefur svo um samizt, að skipasmíðastöðin ætlar sjálf að kaupa hann, án aflvélar.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi fengið með þessari skýrslu nokkrar upplýsingar varðandi þessi mál, þótt þetta sé ekki nægilegt, ef athuga ætli málið „kritiskt“ eða endurskoða allar ráðstafanir og gerðir í þessu máli. Sá maður, sem fór hvað mest með þessi mál í stjórnarráðinu, var hr. Gunnlaugur Briem, sem verið hefur ráðunautur ríkisstj. í málum þessum. Ég held að fullyrða megi, að þessi maður hafi af fremsta megni gætt hagsmuna ríkissjóðs. Að vísu reyndust allar aðstæður mjög óhagstæðar, þar sem allir þeir menn, sem festu kaup á bátunum, byggðu vonir sínar á síldveiðunum fyrir Norðurlandi, en þær hafa nú brugðizt, eins og öllum er kunnugt um. Af þeim sökum skyldi engan undra, þátt ráðuneytið hafi orðið að teygja sig sem lengst og oft hlaupa undir bagga í þeirri von, að úr raknaði hjá mönnum. Ég held, að hver sá maður, sem verið hefði í sporum Gunnlaugs Briems og ráðuneytisins, hefði líkt aðhafzt, ef ekki hefði átt að binda fleyin við land. Hins vegar hef ég áður haldið því fram, að kaupin á Svíþjóðarbátunum hafi verið verri spekúlasjón eða kaup, en kaupin á þeim bátum, sem smíðaðir voru hér innanlands. Sú spurning liggur fyrir frá yfirskoðunarmönnum landsreikningsins, hvort hin innlenda bátasmiði, sem fram fór árið 1946, hafi verið framkvæmd með samþykki allrar ríkisstj. Ég treysti mér nú ekki til að svara fyrir þá ríkisstj., sem þá fór með völd. En ef litið er á þær framkvæmdir, þá held ég, að við þurfum ekki að harma það. Smíði bátanna veitti mörgum mönnum atvinnu, en sorglegt er það, að margir þeirra smíða, sem unnu við þessi verkefni, töpuðu stórfé á akkorðum sínum. Engri ríkisstj. hefði dottið í hug að efna til slíkra smíða, þar sem þeir tapi, sem taka verkin að sér. Ég segi þetta í sambandi við annað mál, vegna þess, að þegar ég undirbjó fjárlagafrv., lagði ég til, að þeim mönnum, sem orðið höfðu fyrir skaða á þessum smíðum, yrði bætt upp það tjón, sem þeir höfðu orðið fyrir. Nú hefur hv. fjvn. vikið þessari fjárveitingu til hliðar. Nú er það ljóst, að þeir bátar, sem hér voru smíðaðir, reyndust vel, en smíðin fór fram á Norðurlandi, Austurlandi, í Vestmannaeyjum og Landssmiðjunni. Þessa báta fengu, færri en vildu. Ef rétt ætti að fara að, þá ætti dálítil bátasmíði alltaf að fara fram í landinu. Alltaf fer nokkuð af bátum forgörðum, og það meir, en menn gera sér grein fyrir, og það þarf að vera hægt að bæta upp þann skaða. Það hefur alltaf verið eftirspurn eftir hentugum fiskibátum, bæði af þeim ástæðum, sem ég nefndi, og svo vegna þeirra, sem hugsa sér að hefja útgerð. Bátasmíði Íslendinga er nú komin á það stig, að það má líkja henni við gerð og handbragð opnu skipanna, sem var á hinum myndarlegu breiðfirzku fleytum og þeim sunnlenzku. Skipasmíðastöðvarnar hér virðast vera vel starfi sínu vaxnar. Það virðist þó vera svo, að heppilegra sé að kaupa skipin tilbúin.