11.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég stóð upp fyrst og fremst til þess að þakka hv. frsm. fyrir þá grg., sem hann gerði í þessu máli. Grg. hans var mjög skýr, en þótt ég sé ekki sammála öllu, sem varðar þetta mál og fram kom í skýrslunni, er það aðeins tvennt í þessu sambandi, sem ég ætla að benda á.

Ég skil hvernig maður, sem smíðar skip í akkorði eftir teikningu, fer að því að byggja það vitlaust, það er, hann smíðar skip af annarri stærð en teikningin og áætlanir gera ráð fyrir. Svo er skipið borgað eftir hinni nýju stærð. En það var ekki þetta, sem olli því, að ég stóð upp, heldur var það til að þakka fyrir hina ýtarlegu grg., sem hv. þm. Vestm. lét hér í té. — Mér er það og gleðiefni, að Landssmiðjan skuli hafa rétt hag sinn og sé fjárhagslega á grænni grein. Þetta er nú gott út af fyrir sig, en aðgætandi er, að hann er fenginn með því, að starfssviði Landssmiðjunnar hefur verið nokkuð breytt. Hlutverk Landssmiðjunnar var fyrst og fremst að halda niðri verði á viðgerðum skipa og véla og smíðum alls konar. Er nú meining Alþingis að láta Landssmiðjuna verða verzlunarfyrirtæki? Er sú stefna ekki nokkuð vafasöm?

Gísli Jónsson: Herra forseti. Ég flyt hv. frsm. þakkir mínar fyrir skýrsluna. Ég tel, að af henni megi margt læra, og er ekki að ófyrirsynju, að hæstv. ríkisstj. reyni að ná fótfestu, í fjárhagsmálum. Mér þykir vænt um, að þessi skýrsla kom fram, og ég ásaka ekki einn frekar en annan, en mjög eðlilegt er, að slíkar skýrslur liggi fyrir sem þessi. Þessi skýrsla hefur gefið mér tilefni til þess að ræða nokkur atriði þessa máls. Það er ekki ádeila, en nokkrar ábendingar og leiðbeiningar, sem mættu verða til bóta því ástandi, sem hefur ríkt.

Á fundi í Sþ. í gær var borin upp fyrirspurn frá hv. 3. landsk. varðandi byggingarkostnað nýju síldarverksmiðjanna á Siglufirði og Skagaströnd. Það var ekki hægt að skilja orð hv. þm. öðruvísi en þannig, að námsstyrkur, heimilisvél o.fl., sem ekki var verksmiðjunum viðkomandi, hafi verið skráð til útgjalda hjá þeim. Og það er ekki sæmandi neinum hv. þm. að flytja slíkt mál inn á Alþ., nema fyrir því séu full rök, svo að ríkisstj. sé alveg tilneydd að láta fara fram nákvæma rannsókn í þeim efnum. Ég vil því vænta þess, að sem fljótast upplýsist, hvort nokkur fótur sé fyrir því, sem borið var á byggingarnefndina, sem í þessu tilfelli hefur ráðið yfir miklu fé ríkisins, því að þær sakir voru svo þungar, að hv. þm. mega ekki gleyma þeim, heldur verða þeir að krefjast þess, að þetta sé upplýst. — Fjvn. hefur fengið í sambandi við annað mál þungar ásakanir í garð annarrar stofnunar. Það mál var sent til viðkomandi ráðh., en hann taldi málið ekki á rökum byggt og eyddi því. Ég er ekki að halda því fram, að svo hafi ekki verið, en það er ákaflega leiðinlegt að koma með svona mál inn á Alþ., sem ekki reynast svo nema fleipur eitt. Að öðrum kosti á að láta menn sæta ábyrgð fyrir slíka meðferð á fé ríkissjóðs. Bátasmiðjan mun vera bókfærð hér á landsreikningnum á 700 þús. kr., og ég vildi gjarna heyra frá hv. frsm., hvort það sé það verð, sem hugsað er að leggja til grundvallar, ef nota á heimildina, sem lagt er til að gefin sé í 22. gr. til sölu þessarar fasteignar. Mér er kunnugt um, að þegar þetta er bókfært hér, þá er búið að afskrifa þessa eign með 900 þús. kr. og talið rekstrarhalli verksmiðjunnar á sínum tíma. Og verðlag allt hefur hækkað síðan. Nú veit ég það, að hv. frsm. er nokkuð við þá ósk riðinn að selja eignina öðrum aðila. Meiri hl. fjvn. hefur fallizt á, að það væri rétt, og væri þá æskilegt, að a.m.k. þetta bókaða verð eignarinnar og helzt eitthvað af því tapi, sem afskrifað hefur verið, gæti unnizt upp við sölu þessarar eignar, ef til kæmi. Í sambandi við verksmiðjuna sjálfa verð ég að segja það, að ég gladdist yfir því að heyra, að hagur hennar hefði batnað, en aftur á móti minnti það mig á annað. Hafa þeir menn, sem báru ábyrgð á stjórn þessara mála undanfarið, gætt að fullu skyldu sinnar við yfirstjórn þessara mála? Hvernig stendur á þessari útkomu hjá Landssmiðjunni, sem starfar hér öll stríðsárin við þau beztu skilyrði, sem til eru á landinu til að græða peninga og það svo stórkostlega að þeir aðrir, sem sömu atvinnu stunduðu, urðu hæstu skattgreiðendur á öllu landinu? Hvernig stendur á því, að þeir menn, sem áttu að bera ábyrgð á því, hvernig þessu fyrirtæki var stjórnað, gátu liðið það athugasemdalaust, að það tapaði stórkostlega og varð svo að segja gjaldþrota á þessum árum? Þegar svo aftur þrengist að og aðrir menn stríða við erfiðleika í atvinnurekstri sínum, þá fer þetta fyrirtæki að blómgast. Hvernig gat slíkt fyrirtæki tapað þessu fé á þessum árum, og er ekki eins mikil ástæða til að láta rannsaka þetta og síldarverksmiðjurnar á Siglufirði og Skagaströnd? Er þá ekki ástæðan fyrir afkomu Landssmiðjunnar sú, að hún hafi keypt hrærivél, grammófón o.fl. og fært á rekstrarreikning sinn. Ég vil í þessu sambandi benda á, að mér er persónulega kunnugt um, að sá maður, sem hv. frsm. gladdist yfir að væri kominn frá þessu starfi og á sök á því, að mér skilst, að þetta hefur gengið svona, er í ágætri stöðu og á ágætum launum hjá ríkissjóði og mun hafa greipt sér töluvert hærri laun, en samningar stóðu til. Og það væri kannske líka ástæða til að rannsaka þetta mál. Ég hygg, að þeir hv. alþm., sem nú bera þungar sakir á aðra, af því að þeir eru í öðrum flokki, ættu að líta í kringum sig, því að áreiðanlega var stjórn þessara mála undir stjórn Alþfl. öll þessi ár, og væri gott, að hv. 3. landsk. þm. kæmi með skýrslu um þessi mál. (HV: Það var lögð fram skýrsla um þetta mál.) Mér er kunnugt um það, að á meðan þessi mál voru undir stjórn hv. þm. Hafnf. (EmJ), fóru þau í það öngþveiti, sem hv. frsm. hefur nú lýst.

Hv. 1. þm. N-M. (PZ) gat um það, að hann væri óánægður með, að farið væri inn á þá braut að gera í þessu sambandi ráð fyrir verzlunarfyrirtæki í stað iðnaðarfyrirtækis. Ég get upplýst hv. þm. um það, að Landssmiðjan hefur aldrei selt neinum sína vinna á öðru verði en samkeppnisfæru við aðrar vélsmiðjur, en hún hefur haft alls konar fríðindi, t.d. skattfríðindi, og losnað þannig við byrðar, sem hafa kostað önnur fyrirtæki mikið fé. Og hún hefur haft fyrirskipun um að mega fleyta rjómann ofan af hjá öðrum fyrirtækjum ríkisins, t.d. skipaútgerðinni, og haft þannig hagkvæmari aðstöðu en önnur fyrirtæki, en samt tapað stórfé. Ég sé ekki, að hægt verði að bjarga henni á annan hátt en þann, að hún verði gerð að lélegu verzlunarfyrirtæki, eins og hv. 1. þm. N–M. gat um. Er þá athugandi, hvort ekki eigi að selja þetta fyrirtæki: Það hefur í öll þessi ár aðeins valdið ríkissjóði erfiðleikum og kostnaði, en aldrei gefið honum tekjur. Þegar vel hefur gengið, hefur fyrirtækið aldrei gefið neitt í ríkissjóð, en þegar illa hefur gengið, þá hefur það sótt fé í ríkissjóð til að greiða starfsmönnum sínum laun, greiða skuldir og önnur útgjöld. Ég held, að nægileg reynsla sé á það komin, að ríkissjóður eigi að selja eignina og gera fyrirtækið upp, og það væri mjög til athugunar fyrir hæstv. núv. ríkisstj., hvort ekki ætti að hefjast handa um það.

Hv. frsm. minntist hér á fiskflutningana í sambandi við Færeyingabátana. Ég verð að segja það, án þess að ég ætli að fara að gagnrýna það mál nú, að mér finnst þáttur fiskimálan. á sínum tíma ekki til fyrirmyndar í þessu máli. Hvar mundi það enda, ef verzlunarviðskipti væru almennt rekin svona í landinu? Þetta er fullkomin sönnun þess, að ríkissjóður á ekki að koma nálægt verzlunarfyrirtækjum yfirleitt. Mig undrar það sannarlega, að fimm menn, sem ekki hafa um annað að hugsa en þessi mál, skuli geta látið þetta verk fara á þann veg, sem skýrslan ber með sér, og ég er hissa á, að slíkir menn skuli ekki vera afskráðir frá opinberum störfum. Ég er ekki að ásaka ríkisstj., sem hefur hundruðum mála að sinna, þó að hún geti ekki gripið inn í þennan rekstur. Mér skilst, að hér sé um ýmsar útistandandi skuldir að ræða og ekki sé hægt að gera upp nema með stórkostlegu tapi fyrir ríkissjóð, sem ekki hefði þurft að vera, ef gætt hefði verið samninga, sem gerðir voru í sambandi við þessi mál. Hitt er svo annað atriði, hvort rétt hefur verið að fara út í þessa fiskflutninga, en út í það skal ég ekki fara. Hv. frsm. sagði, að ekki hefði verið hægt að salta fisk á þeim tíma. Ég er ekki sammála honum um það, en er þeirrar skoðunar, að aldrei hefði átt að hætta við saltfiskverkun á Íslandi. (PZ: Heyr! Heyr!) Ég skal ekki tefja umr. með því að fara inn á það mál.

Út af ummælum hv. frsm. um bátasmíðina innanlands, — sem hann sem þáv. fjmrh. gerði till. um, að tekin yrði á 22. gr. fjárlfrv., — þar sem hann sagði, að ríkisstj. hefði vikið þessu til hliðar, þá hygg ég, að þetta sé af misskilningi mælt. Mér er ekki kunnugt um, að ríkisstj. hafi haft nokkur áhrif á þetta mál, a.m.k. ekki á fjvn. í sambandi við það. Fjvn. hefur tekið það upp sjálf að víkja þessu máli til hliðar, og var lítill ágreiningur um það í n. Það er vegna þess, eins og oft hefur verið tekið fram hér í þessari hv. d., að þetta mál er í nánum tengslum við önnur mál, sem hér hafa verið fyrir þinginu undanfarin ár, og fjvn. hefur alltaf verið og er enn þeirrar skoðunar, að ekki sé hægt að bæta þeim mönnum, sem hér um ræðir, það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir, nema þeim öðrum aðilum, sem hér koma til greina, sé bætt upp sitt tjón. Þessi mál eru: endurgreiðsla á tollum vegna sænsku timburhúsanna, endurgreiðsla á innflutningstollum af bátum, tapið á bátasmíðinni og það stórkostlega tap, sem þorri þeirra manna varð fyrir, sem hófu saltfiskverkun 1947. Þessa vegna hefur fjvn. lagt til, að þessi liður sé tekinn út af 22. gr. fjárl. Það er áreiðanlegt, að verði einn af þessum liðum tekinn upp, með hverjum hætti sem það er gert, þá verður ekki hætt, fyrr en öll málin hafa verið tekin til greina og gerð upp. Það er réttlætismál að gera hér ekki upp á milli þessara aðila, og þess vegna hefur fjvn. lagt til, að þetta sé ekki tekið á fjárl., en ekki af andúð á þessum aðilum eða fyrir tilmæli frá ríkisstj.

Mér fannst hv. frsm. ganga hér fram hjá einu atriði, sem ég gerði fyrirspurn um og lagði nokkra áherzlu á, en ég skal hvorki lengja umr. né óska þess, að málinu sé frestað þess vegna. Í sambandi við 3. hölulið á þskj. 530 spurði ég um, hvort samkomulag hefði orðið um þetta milli ríkissjóðs og jarðakaupasjóðs. Mér þykir einkennilegt, að það skuli ekki vera upplýst af sjálfum endurskoðendunum og þeim aðilum, sem starfað hafa að þessum málum, hvort hægt er að fá samkomulag um ákveðið atriði í sambandi við ríkisreikningana, en ég mun ekki halda því frekar til streitu, þar sem þetta er ekki stórt atriði.

Ég vil endurtaka þakklæti mitt við hv. frsm. fyrir skýrslu þá, sem hann gaf, og ég vil benda á, að svona skýrslur eru eitt sterkasta meðalið til að átta sig á því, að það forað, sem við stöndum nú í, í fjármálum landsins, skapast af því, að ríkissjóður hefur tekið að sér að sjá einstaklingunum miklu meira fyrir því, sem þeir þurfa með til sinnar lífsafkomu, en nokkru sinni áður. Það sýnir að sú stefna, að láta ríkissjóð velja og hafna fyrir einstaklingana, er röng og að afkomu landsins í heild er miklu betur borgið með því að láta einstaklingana njóta sín og berjast fyrir sínum málum sjálfir, en að þeir leggi árar í bát og geri kröfur til ríkissjóðs, með þeim árangri, sem nú er sýnilegur, og það á þeim fjárhagslega beztu árum, sem yfir landið hafa komið.