20.12.1949
Sameinað þing: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

38. mál, fjárlög 1950

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég mun ekki nota þá stund, sem ég hef til umráða, til þess að rekja í einstökum atriðum fjárlagafrv. það, sem hér er til 1. umr., enda er það í engu verulega frábrugðið því, sem verið hefur síðustu árin, og boðar enga breytingu á ríkjandi stjórnarstefnu. Ég mun hins vegar ræða almennt um fjárhagsástæður þjóðarinnar og þá möguleika, sem hún hefur til þess að lifa sæmilegu lífi, hér í þessu landi.

Það er orðinn mikill siður stjórnmálamanna, og málgagna hinna ráðandi stjórnmálaflokka í þessu landi, að mikla í augum fólksins þá fjárhagslegu örðugleika, sem þjóðin eigi við að etja. — Allt á að vera í kaldakoli. — Í ræðu og riti keppast menn við að útmála það öngþveiti, sem ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar — jafnvel talað um yfirvofandi ríkisgjaldþrot. — Atvinnu,vegirnir eru taldir vera komnir alveg í þrot — og engin leið að halda uppi höfuðframleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar, nema með stórfelldum styrkjum. Af þessu er svo venjulega dregin sú einfalda ályktun, að fólkið almennt eyði allt of miklu — kröfur manna til lífsins séu miklu meiri en framleiðsla þessa fátæka og hrjóstruga lands geti undir risið atvinnuvegirnir geti ekki borið það kaupgjald, sem krafizt er — gjaldeyrisöflunin hrökkvi naumast fyrir nauðþurftum þjóðarinnar af aðkeyptum varningi o.s.frv., o.s.frv. Menn verði að láta sér skiljast, að ekki megi eyða meiru en aflað er, og svo er auðvitað eina úrræðið: Að almenningur spari meira, allir verði að færa fórnir til þess að koma fjármála- og atvinnulífi þjóðarinnar á „heilbrigðan grundvöll“, gera atvinnuvegina „rekstrarhæfa“ og sjálfum sér nóga.

Ég vil leyfa mér að nota tækifærið við þessa fjármálaumræðu hér á Alþingi til þess að spyrja: Er íslenzka þjóðin í raun og veru svona illa stödd fjárhagslega? Er íslenzka þjóðin kannske núna fyrst — eftir allt það, sem á daga hennar hefur drifið — að komast á vonarvöl? Er framleiðslugeta þjóðarinnar ekki nægilega mikil til þess að standa undir núverandi lífskjörum þess fólks, sem vinnur framleiðslustörfin og önnur þjóðfélagslega nauðsynleg störf ?

Ég held, að ekki verði með nokkrum rétti komizt hjá því að svara öllum þessum spurningum ákveðið neitandi.

Íslenzka þjóðin er nú, á síðustu árum, miklu auðugri en hún hefur nokkurn tíma áður verið. Framleiðslugeta þjóðarinnar er nú í dag margföld á móts við það, sem hún var fyrir aðeins einum áratug síðan — svo ekki sé farið lengra aftur í tímann.

Þjóðartekjurnar hafa undanfarin ár verið upp undir það tíu sinnum hærri, en þær voru árið 1938 — og má þá gera ráð fyrir, ef tekið er tillit til verðlagsbreytinganna, að þær séu nú um það bil helmingi hærri en þá.

Gjaldeyrisöflunin hefur stóraukizt hin síðustu ár — eftir að hin stórvirku framleiðslutæki nýsköpunarinnar komu til kastanna — og hefur gjaldeyrisöflunin undanfarin ár verið um það bil helmingi meiri á hvert mannsbarn í landinu heldur en hún var árið 1938, þó tekið sé tillit til þeirrar verðhækkunar, sem orðið hefur á aðfluttum vörum til landsins.

Það mun ekki vera til nokkur þjóð í öllum heiminum, sem aflar sér nálægt því eins mikils erlends gjaldeyris — miðað við fólksfjölda — eins og íslenzka þjóðin hefur gert undanfarin ár. — Bretar, sem eins og kunnugt er eru meðal mestu viðskiptaþjóða heimsins, hafa t.d. haft gjaldeyristekjur á hvern íbúa, sem nema aðeins um 40% þeirra gjaldeyristekna, sem Íslendingar hafa haft. Sem sagt: Íslenzka þjóðin er miklu auðugri, en hún hefur nokkurn tíma áður verið. Framleiðslugeta hennar hefur margfaldazt á síðustu árum. Kaupmáttur þjóðarteknanna er nú tvöfaldur á móts við það, sem var fyrir aðeins einum tug ára.

Árleg gjaldeyrisöflun þjóðarinnar er hlutfallslega miklu meiri en nokkurrar annarrar þjóðar.

Samkvæmt þessum staðreyndum ætti fjárhagur þjóðarinnar að standa með hinum mesta blóma. Atvinnuvegirnir — með sinni miklu framleiðslugetu — ættu að vera öruggir. Lífskjör fólksins, sem aflar hinna háu þjóðartekna, ættu að vera með ágætum og afkoma þess örugg.

En er þetta þá svo? Er hagur ríkisins, lífskjör fólksins og afkoma atvinnuveganna í samræmi við þær staðreyndir um verðmætisframleiðslu þjóðarinnar, sem ég áðan nefndi? Nei, því miður ekki. Í því efni ríkir þvert á móti hið mesta ósamræmi — og, að því er snertir lífskjör fólksins og afkomu atvinnuveganna, mikið ranglæti.

Barlómurinn um fjárhagslegt getuleysi þjóðarinnar er, út af fyrir sig, falskur og óraunhæfur. Hið margumtalaða „fjármálaöngþveiti“ er hins vegar fólgið í ranglátri og óeðlilegri skiptingu verðmætisframleiðslunnar milli þjóðfélagsþegnanna og atvinnugreinanna — og fjárflótta frá framleiðsluatvinnuvegunum til starfsgreina, sem engin verðmæti skapa, heldur eru byrði á framleiðslunni og þeim, sem framleiðslustörfin stunda — svo ekki sé talað um fjáröflunarstarfsemi, sem með einum og öðrum hætti er beinlínis sviksamleg við þjóðfélagið.

Um afkomu ríkisins ætla ég ekki að fjölyrða — læt mér nægja í því efni að undirstrika það, sem einnig kom berlega fram af ræðu hæstv. fjmrh. þrátt fyrir svartsýnistón hans, að það er auðvitað alveg fráleitt, að fjárhagur ríkisins gefi nokkurt tilefni til þess að vera að tala um yfirvofandi ríkisgjaldþrot.

Það er að vísu rétt, að á síðasta stjórnartímabili hafa safnazt talsverðar skuldir ríkissjóðs, sem, samkvæmt upplýsingum í ræðu hæstv. fjmrh. áðan, nema nú rúmlega 200 millj. króna.

En í fyrsta lagi eru þessar skuldir ekki stórvægilegar á móts við eignir ríkisins, enda orðnar til vegna eignaaukningar aðallega, en að sumu leyti vegna lána til nýsköpunarframkvæmda, og í öðru lagi eru þær að langmestu leyti innanríkisskuldir — og þá fyrst og fremst við lánsstofnun, sem er eign ríkisins sjálfs. Jafnvel þótt menn væru svo svartsýnir að halda, að ríkissjóður muni ekki geta greitt þessar skuldir, sem ekki er ástæða til að ætla, ef stjórnarvöldin vilja taka peninga þar, sem þeir eru til, þá mundi þó ekki gerast annað en það, að samansparaður gróði einnar ríkisstofnunar eyddist vegna annarrar starfsemi ríkisins. Þessar ríkisskuldir þurfa þess vegna ekki að verða þjóðinni nokkur fjötur um fót. Um lífskjör fólksins er hins vegar meiri sögu að segja.

Ég hef áður getið þess, að þjóðartekjurnar hafi vaxið mjög undanfarin ár. En það er ástæða til að rekja þetta nokkru nánar.

Árið 1938 eru þjóðartekjurnar taldar vera 144 millj. kr. og 1939 155 millj. kr. — Árið 1940 fer áhrifa styrjaldarinnar að gæta hér, og hækka þá þjóðartekjurnar upp í 259 millj. kr. Á styrjaldarárunum hækka þær svo jafnt og þétt, og árið 1945 eru þær komnar upp í 960 millj. króna.

Vöxtur þjóðarteknanna á þessu tímabili stóð, eins og allir vita, í sambandi við styrjaldarreksturinn og dvöl hinna erlendu setuliða hér, og hlutu þjóðartekjurnar því að sjálfsögðu að réna aftur að mjög verulegu leyti, eftir að styrjaldarástandinu lauk — nema aðrar og nýjar aðgerðir kæmu til.

Svo kom fyrsta heila friðarárið — árið 1946 — og þjóðartekjur okkar Íslendinga minnka ekki, þótt styrjaldarástandinu sé lokið, heldur vaxa meira, en á nokkru einu ári styrjaldartímabilsins — eða um 260 millj., upp í 1.220 milljónir króna.

Hverju sætti þetta?

Hvaða öfl voru hér að verki, sem ekki aðeins fylltu upp í skarð hinna „ónormölu“ og tímabundnu tekna styrjaldaráranna, heldur juku þar að auki þjóðartekjurnar meira en nokkurn tíma áður hafði orðið?

Það voru öfl nýsköpunarinnar — sem nú höfðu beint verulegum hluta af samanspöruðu fé þjóðarinnar frá styrjaldarárunum til framleiðsluatvinnuveganna, í formi stórvirkra og fullkominna atvinnutækja, og jafnframt opnuðu nýja, víðáttumikla og hagkvæma markaði fyrir ört vaxandi útflutningsframleiðslu þjóðarinnar.

Þetta er óhrekjandi sönnun um gildi nýsköpunarinnar fyrir þessa þjóð — og þá jafnframt um þýðingu þess, að sá stjórnmálaflokkur, sem átti frumkvæðið að henni — Sósíalistaflokkurinn — skyldi vera nógu sterkur með þjóðinni til þess að knýja nýsköpunarstefnuna fram, svo sem gert var — þó að betur hefði þurft að gera í ýmsum efnum. Allt níðið um nýsköpunina og bullið um það, að núverandi fjárhagsöngþveiti sé afleiðing nýsköpunarstefnunnar, haggar ekki þessari staðreynd.

Árið 1947 er nýsköpunarstjórnin að vísu farin frá völdum, en allt það ár streyma til landsins nýsköpunartogararnir, sem hún hafði látið byggja — og þjóðartekjurnar halda áfram að vaxa, og komast það ár upp í 1.320 millj. króna.

Svo fer aftur að halla undan fæti. Árið 1948 lækka þjóðartekjurnar um 100 millj. kr., enda hefur þá nýsköpunin verið stöðvuð og gloprað niður þeim nýju, hagkvæmu mörkuðum, sem opnaðir höfðu verið, á meðan Sósiallstaflokkurinn tók þátt í stjórn landsins.

En ég var að tala um lífskjör fólksins — og því miður er það svo, að í hagkerfi auðvaldsins eru þau engan veginn í réttu hlutfalli við þjóðartekjurnar.

Að vísu hafa vinnustéttirnar bætt hag sinn mjög verulega á því tímabili, sem þjóðartekjurnar hafa vaxið svo mjög sem ég þegar hef lýst. En það hefur þó síður en svo orðið án fyrirhafnar, heldur fyrir harða baráttu verkalýðssamtakanna. Og kjarabæturnar hafa engan veginn fylgt eftir vexti þjóðarteknanna. Þannig var það t.d., að allt fram á árið 1942 — þegar þjóðartekjurnar höfðu meira en fjórfaldazt frá því fyrir stríð — voru kjarabætur launþega algerlega hindraðar. Á þessu tímabili urðu engar hækkanir á grunnkaupi verkamanna. — Fyrsta stríðsárið var engin verðlagsuppbót greidd á kaupið. Síðan var greidd uppbót samkvæmt vísitölu ársfjórðungslega, eftir á, — sem þýddi, þegar verðlagið og vísitalan var ört stigandi, að menn fengu raunverulega greiddan aðeins nokkurn hluta verðhækkunarinnar. Árið 1941 var farið að reikna verðlagsuppbótina mánaðarlega, — en eftir á, eins og áður. Þegar svo fór verulega að brydda á því, að verkamenn vildu ekki sætta sig við það lengur að sitja við svo skarðan hlut, gripu stjórnarvöldin til þess ráðs að banna með lögum allar hækkanir á grunnkaupi verkamanna. Til þess að hindra það, að verkafólk fengi nokkurn hlut í margfaldri hækkun þjóðarteknanna, var ekki hikað við að svipta verkalýðssamtökin grundvallarrétti þeirra: réttinum til að semja við vinnukaupandann um verð vinnuorkunnar.

En þar með brast líka boginn. — Árið 1942 knúðu „Dagsbrúnar“-menn fram, í banni laganna, verulega hækkun á grunnkaupi, eða úr kr. 1.45 á klst. upp í kr. 2.10.

Þar með var brautin brotin. Og þegar jafnframt tókst að gera Alþýðusamband Íslands að öflugu baráttutæki verkalýðsins, undir forustu sósíalista, var sókninni haldið áfram til vaxandi hluttöku verkalýðsins í hinum stórauknu þjóðartekjum.

Eftir þetta hefur árlegt meðaltal vinnulauna í almennri dagvinnu, samkvæmt samningum verkamannafélagsins „Dagsbrún“, verið sem hér segir:

Árið 1943: kr. 5.40 á klst.; 1944: kr. 6.38; 1945: kr. 6.76; 1946: kr. 7.62; 1947: kr. 8.54; 1948: kr. 8.40; 1949: kr. 8.82 á klst.

Kauplækkunin árið 1948 stafaði af því, að „fyrsta ríkisstjórn Alþfl. á Íslandi“ batt vísitöluna við 300 stig — og tók þar með aftur upp aðferðina að greiða launþegum aðeins nokkurn hluta vöruverðshækkananna.

Á þessu líðandi ári unnu svo verkalýðssamtökin þetta upp að nýju með hækkun grunnkaups, svo sem kunnugt er.

Nú eru háttvirtir hlustendur ef til vill farnir að hugsa sem svo, að þessi skýrsla mín um hækkandi vinnulaun sé röksemd fyrir þeim kenningum, sem ég drap á í upphafi máls míns, haldið fram af fjármálaspekingum borgaraflokkanna og málpípum stóratvinnurekenda og braskara, þ.e., að kröfur fólksins um kaup og kjör séu meiri, en framleiðslugeta þjóðarinnar risi undir.

Þetta er þó engan veginn svo. Þótt verkalýðssamtökin hafi knúið fram verulega hækkun vinnulauna, þá hefur sú hækkun samt sem áður ekki nálægt því haldizt í hendur við hækkun þjóðarteknanna. Skal þetta nú sannað með tölum:

Eins og áður er sagt, hækkar ekki grunnkaup, á umræddu tímabili, fyrr en haustið 1942. — Ef síðan er lagt til grundvallar það árlega meðaltal vinnulauna, sem ég lýsti hér að framan, og það borið saman við þjóðartekjurnar á sama tíma, verður niðurstaðan þessi:

Kauphækkun

Hækkun

frá árinu

þjóðart.

1938

1938

Ar

1943:

273%

492%

-

1944:

340%

562%

-

1945:

366%

567%

-

1946:

425%

747%

-

1947:

489%a

817%a

-

1948:

479%

747%

Af þessu sést mjög glöggt, að hækkun kaupgjaldsins, sem í þessu tilfelli er nokkuð nálægt því að vera réttur mælikvarði á auknar tekjur verkamanna, vegna þess, að á þessu tímabili var yfirleitt um stöðuga atvinnu að ræða, er alltaf miklu minni en hækkun þjóðarteknanna.

Þegar svo er vitað, að á kreppuárunum fyrir síðustu heimsstyrjöld var hlutur verkamanna í þjóðartekjunum svo rýr sem frekast mátti verða, þá er augljóst mál, að ekki er hlutur þeirra í þjóðartekjunum nú svo mikill, hlutfallslega, að það geti verið þjóðarbúskapnum og framleiðslustarfseminni nokkurt ofurefli, ef engir aðrir sætu við rífari og óverðskuldaðri hlut.

Við þetta bætist svo það, að „fyrsta ríkisstjórn Alþfl. á Íslandi“ hefur á síðustu þremur árum seilzt freklegar en nokkurn tíma áður hefur verið gert í vasa launþeganna, eftir tekjum til að standa undir skriffinnskubákni og bitlingahjörð ríkisins. Nægir í því sambandi að nefna það, að á stjórnarárum hennar hafa tollar og óbeinir skattar á fjárlögum hækkað úr 56 millj. kr. og upp í 175 milljónir — eða meira en þrefaldazt. Grunnkaupshækkanir þessara síðustu ára hafa því aðeins verið til þess að vega upp á móti þessum álögum - ásamt vísitölubindingunni.

Sem sagt: Það eru ekki kaupkröfur verkafólksins, sem ofþyngja atvinnulífinu. Þjóðartekjurnar undanfarin ár sýna, að framleiðslugeta þjóðarinnar fær prýðilega risið undir þeim lífskjörum, sem alþýða þessa lands býr við.

Samt er það staðreynd, að atvinnuvegunum er íþyngt mikið um of.

Það er sem sé til allmikill fjöldi manna, sem gerir æði miklu meiri kröfur til launa fyrir athafnir sínar — illar og góðar— heldur en þessir heimtufreku verkamenn, sem sagt er að séu að keyra allt í strand.

Þó að það sé á allra vitorði, að í skattaframtölum þeirra manna, sem umsvifamikinn og margþættan rekstur hafa, komi ekki til reiknings hver króna, sem þeim hefur áskotnazt, þá er samt ýmsan merkilegan fróðleik að finna í skattskránum. — Þannig ber skattskrá Reykjavíkur það með sér, undanfarin ár, að t.d. árið 1946 gefa 100 framteljendur hér sjálfir upp, að skattskyldar tekjur þeirra það ár hafi verið ekki minni en 25 millj. króna, þ.e.a.s. 250 þús. kr. að meðaltali á hvern um sig. Árið 1947 gefa 100 hæstu framteljendurnir upp enn þá meiri skattskyldar tekjur — eða sem svarar að meðaltali 260 þús. kr. á hvern um sig.

Að sjálfsögðu er svo talsvert mikill fjöldi framteljenda, sem hafa mjög háar tekjur, þótt þeir nái ekki þessu marki þeirra 100 hæstu.

Og hvaðan eru svo þessar geysiháu tekjur teknar?

Auðvitað eru þær, þegar allt kemur til alls, teknar af framleiðslunni — hinni einu raunverulegu uppsprettu verðmætismyndunarinnar.

Það eru þessar óhófstekjur nokkurs hluta þjóðarinnar, sem liggja eins og mara á framleiðsluatvinnuvegunum, en ekki kaup „Dagsbrúnar“-mannsins, sem með því að vinna erfiðisvinnu alla virka daga ársins getur komizt upp í 20 þús. kr. árstekjur, í stað þess, að hver fimm manna fjölskylda ætti að hafa ca. 50 þús. kr. árstekjur, ef þjóðartekjunum væri jafnt skipt.

Ég þarf ekki að eyða tíma til þess að lýsa því hér, hvernig þessi ofsagróði, sem ég áðan nefndi dæmi um, verður til. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hann verður einkum til í innflutningsverzluninni — og athöfnum, sem standa í sambandi við hana, enda orðin alkunn sú öfugþróun, að svo þýðingarmikil undirstöðustarfsemi sem framleiðsla til gjaldeyrisöflunar er að verulegu leyti rekin með tapi — meðan þjónusta eins og það að umsetja þennan gjaldeyri í ýmiss konar varning gefur ofsagróða.

Ef í stað þess að greiða svokallaða styrki úr ríkissjóði til þeirra, sem starfa að gjaldeyrisframleiðslunni, væru gerðar stjórnarfarslegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir arðrán verzlunar og viðskipta á framleiðslugreinunum, þá mundi framleiðslan standa örugglega á eigin fótum, með þeirri miklu framleiðslugetu, sem þjóðin nú býr við. Þjóðartekjurnar undanfarin ár sanna þetta.

Það er hins vegar skipting þjóðarteknanna, sem er ekki aðeins ranglát, heldur einnig þjóðhættuleg. Og hér er komið að kjarna málsins.

Það er mikið talað um nauðsyn þess að leysa vandkvæði útflutningsatvinnugreinanna. En átökin í því efni snúast um það: Á hverra kostnað skal þetta gert? — Hvort heldur verkamannsins, með sínar í hæsta lagi 20 þús. kr. árstekjur, eða heildsalans, með 250 þús. árstekjur, og enda þar yfir.

Öll stjórnarstefna fyrrv. hæstv. ríkisstj. í innanlandsmálunum mótast af tilraunum hennar til þess að leysa málið á kostnað launþeganna. Eins og ég gat um hér að framan, hefur hún meira en þrefaldað tolla og óbeina skatta á neytendunum — til þess að geta greitt úr ríkissjóði hina margumtöluðu framleiðslustyrki.

Það er mikil kaldhæðni örlaganna, að Alþfl. skyldi, að nafninu til, hafa forustu slíkrar ríkisstj. og að Alþfl.-manni skyldi sérstaklega vera falið það ráðuneyti, sem heildsalarnir eiga alla hagsmuni sína undir.

En þrátt fyrir þessa viðleitni tókst fyrrv. ríkisstj. ekki að leysa vandann. Og það af góðum og gildum ástæðum.

Í fyrsta lagi er ekki hægt að leysa vandamál framleiðslunnar með því að ráðast á lífskjör þess fólks, sem framleiðslustörfin vinnur. Ég hef þegar sýnt með tölum, hversu hlutur þess í þjóðartekjunum er lágur. Jafnvel þótt hann væri lækkaður til hins ýtrasta, mundi það ekki veita framleiðslunni neitt framtíðaröryggi, ef hún ætti áfram að búa við núverandi arðrán verzlunarinnar.

Í öðru lagi eru verkalýðssamtökin, sem betur fer, það sterk, að þau hafa velt af sér þeim árásum, sem í þessu efni hafa verið gerð á launþegana — og það munu þau gera einnig eftirleiðis.

Vandamál framleiðslunnar er þess vegna enn jafnóleyst sem áður. Og það verður ekki leyst, svo lengi sem litlum hluta þjóðfélagsþegnanna er leyft að hrifsa til sín, svo sem nú er, ljónspartinn af framleiðsluverðmætunum. Það verður ekki leyst fyrr, en það fæst leyst á kostnað hinna ríku. Önnur lausn er ekki til.

Við höfum nú fengið nýja ríkisstjórn — ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Sízt af öllu mun hún framkvæma lausn framleiðsluvandamálanna á kostnað hinna ríku. Þessi ríkisstj. er þvert á móti ógrímuklæddur fulltrúi þeirra stórgróðamanna og fyrirtækja, sem sjúga merg og blóð úr útflutningsframleiðslunni. — Í viðskiptamálunum, sem í þessu efni eru afgerandi, hefur „þarfasti þjónninn“ verið leystur af hólmi, af húsbóndanum sjálfum. Þessi ríkisstj. mun því svo lengi sem henni endist ævi, halda áfram að skara eld að köku afætulýðsins á kostnað framleiðslustarfseminnar, — hvaða krókaleiðir sem reynt verður að velja.

Fjárhagsvandræði framleiðslunnar verða hins vegar ekki leyst á kostnað stórgróðamannanna, nema þeir flokkar, sem hér á löggjafarsamkomu þjóðarinnar fara með umboð vinnustéttanna í landinu, taki höndum saman um slíka lausn.

Sósíalistaflokkurinn hefur tjáð sig reiðubúinn til slíks samstarfs. Hann hefur boðizt til að taka, að sínum hluta, á sig ábyrgðina af lausn þess vanda, sem við er að glíma — gegn því að snúið verði af braut árásanna á lífskjör fólksins, en framleiðslunni skapaður starfsgrundvöllur með því að afnema okrið, sem hún á nú við að búa.

Alþýðuflokkurinn virðist hins vegar enn vera fastráðið hjú íhaldsins, þó að hann hafi lækkað í tign. Þjónusta hans við stórgróðavaldið undanfarin ár er nú launuð með því, að Sjálfstfl. tryggir honum áframhaldandi bitlinga fyrir allt foringjaliðið, enda mun Sjálfstfl. að fenginni reynslu telja það öruggasta ráðið til þess að halda þessum piltum í vistinni. Og Framsóknarflokkurinn, sem mestan hávaðann hefur gert út af okrinu og spillingunni í verzlun og viðskiptum, flokkurinn, sem í nýloknum alþingiskosningum stórjók fylgi sitt á skrafl um gagngera stefnubreytingu í fjárhags- og viðskiptamálunum — á hreystiyrðum um harðvítuga baráttu gegn okraravaldinu og verzlunarspillingunni, hann virðist nú fara sér furðu hægt í þessum efnum og una því ótrúlega vel, að kosningasigur hans hefur snúizt upp í algera valdatöku okraranna, sem hann þóttist ætla að leggja að velli.

Því „vinstra“ samstarfi, sem nú er nauðsynlegra, en nokkru sinni fyrr, til þess að leysa viðfangsefni framleiðslu og viðskipta í samræmi við hagsmuni þjóðarheildarinnar — og samkvæmt hinni miklu og vaxandi framleiðslugetu þjóðarinnar — verður þess vegna ekki komið fram nema fólkið, sem falið hefur þessum flokkum umboð sitt, skapi sjálft þá vinstri fylkingu, sem geri eitt af tvennu: Beygi forustumenn þessara flokka til hlýðni við vilja og óskir hins vinnandi fólks til sjávar og svelta eða velti þeim úr vegi ella.