20.12.1949
Sameinað þing: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

38. mál, fjárlög 1950

Helgi Jónasson:

Í 42. gr. stjórnarskrárinnar segir svo, að fjárlagafrv. fyrir næsta fjárlagaár skuli liggja fyrir strax og reglulegt Alþingi hefur tekið setu. Þetta ákvæði er sett vegna þess, að vitanlegt er, að starf hvers reglulegs Alþingis er fyrst og fremst að undirbúa og afgreiða fjárlög fyrir næsta ár. Þetta er tímafrekt starf og vandasamt. Ef störf Alþingis eiga ekki að dragast óþarflega lengi, verður hvert þinghald að byrja þegar á því að vinna að fjárlagaafgreiðslunni.

Þessu ákvæði stjórnarskrárinnar hefur líka verið framfylgt allt fram á síðustu ár. Ég minnist þess, að eitt sinn í tíð Eysteins Jónssonar sem fjármálaráðherra voru liðnir 5 dagar frá setningu Alþingis og fjárlagafrumvarpið eigi komið fram, að þingmenn, hver á fætur öðrum, risu upp og mótmæltu kröftuglega þessu stjórnarskrárbroti. Fjárl. frv. var líka lagt fram daginn eftir. En því miður hefur þetta breytzt eins og fleira til hins verra.

Nú á seinni árum hefur oft orðið óeðlilega langur dráttur á því, að frv. hafi verið lagt fram og umræður hafizt og því vísað til nefndar.

Í dag er 20. desember, og hinn venjulegi starfstími Alþingis á árinu liðinn, og nú fyrst er frv. til 1. umr. og verður í dag væntanlega vísað til nefndar, að umræðunni lokinni. Það er ekki venja, að þingnefnd byrji að vinna að málum fyrr en búið er að vísa þeim til nefndar, enda er það svo, að fjvn. hefur ekki enn þá fjallað um frv., og sýnt er, að nefndin mun ekki halda einn einasta fund um fjárlagafrv. á þessu ári, þegar Alþingi í raun og veru á að vera búið að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár.

Þetta er gersamlega óviðunandi ástand og getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir afgreiðslu fjárlaga, eins og dæmi sanna hin síðari ár. Ég skal að vísu játa, að núv. hæstv. fjmrh. hefur nokkra afsökun í því, hve stutt er síðan hann tók það starf að sér, en hins vegar er frv. samið og undirbúið af hæstv. atvmrh., sem var fjármálaráðherra, og hefði verið eðlilegt, að hann hefði lagt það fram strax í þingbyrjun og fylgt því úr hlaði.

Fljótt á litið virðist fjárlagafrv. að sumu leyti vera hagstæðara fyrir afkomu ríkissjóðs, en niðurstöðutölur gildandi fjárlaga. Rekstrartekjurnar eru að vísu ekki áætlaðar nema 263 millj. kr., en eru á fjárlögum yfirstandandi árs 284 millj., og eru því 21 millj. kr. lægri í frv. en í fjárlögum, og rekstrarútgjöldin samkvæmt frv. 225 millj. móti 256 millj. kr. í fjárlögum, og mismunurinn því 31 millj. kr. og rekstrarafgangur því áætlaður 10 millj. kr. hærri en á gildandi fjárlögum.

En þegar betur er að gáð, verður annað upp á teningnum, þá kemur í ljós, að á frv. eru allmiklar breytingar frá þessa árs fjárlögum. Mesta breytingin er sú, að samkvæmt frv. er nú áætlað til dýrtíðarráðstafana 331/2 millj. móti rúmlega 71 millj. kr. á þessu ári, og lækkar það útgjaldahlið frv. um tæpar 38 millj. kr. Þegar farið er yfir tekjuliði frv., sést, að þar eru allmiklar breytingar frá gildandi fjárlögum.

Vegna lækkunar á framlagi til dýrtíðarráðstafana eru felldir niður úr frv. nokkrir liðir, sem í fjárlögum runnu til dýrtíðarsjóðs, svo sem leyfisgjöld samkv. 29. gr. dýrtíðarlaganna, að upphæð 10.2 millj., og söluskattur bifreiða, áætlaður 5 millj. kr., o.fl., alls rúmar 16 millj. kr., sem fellt er niður af tekjum dýrtíðarsjóðs. Aftur á móti er söluskattinum, að upphæð 36 millj. kr., haldið. Enn fremur var 12 millj. kr. af tolltekjum látið renna í dýrtíðarsjóð í núgildandi fjárlögum. Það eru því 48 millj. kr., sem í núgildandi fjárl. voru áætlaðar til dýrtíðarráðstafana, en eru nú færðar til rekstrarútgjalda ríkisins. Þegar sú upphæð, 331/2 millj. kr., sem samkvæmt 19. gr. er til dýrtíðarráðstafana, er dregin frá 48 millj., verða eftir 141/2 millj., sem nú á að verja til venjulegra rekstrarútgjalda ríkisins, en var í ár notað til dýrtíðarráðstafana, en eiga nú samkvæmt frv. að vega á móti lækkandi tekjuáætlun og auknum rekstrarútgjöldum.

Enn þá hækka rekstrarútgjöldin samkv. frv. allverulega, og skal ég aðeins nefna örfá dæmi því til sönnunar.

Útgjöld samkvæmt 10. gr., þ.e. til ríkisstj. og utanríkisþjónustu, eru áætluð 800 þús. kr. hærri í frv., en í fjárlögum þessa árs.

Útgjöld samkv. 11. gr., þ.e. til dómgæzlu, innheimtu skatta og tolla o.fl., eru áætluð 1.2 millj. kr. hærri, en í fjárlögum.

Útgjöld samkv. 14. gr., þ.e. til kirkju- og kennslumála, eru áætluð 3.5 millj. kr. hærri, en í fjárlögum.

Vaxtagreiðslur ríkissjóðs samkv. 7. gr. eru áætlaðar á næsta ári rúmar 9 millj. kr. til þeirra hluta, en voru um 7 millj. Hækkun er því um 2 millj. kr. Sú hækkun talar sínu máli um skuldaaukningu ríkissjóðs á árinu, sem er að líða.

Til verklegra framkvæmda er á frv. áætluð nokkru lægri upphæð, en í fjárlögum þessa árs. T.d. er á frv. ekki áætluð nema 1 millj. Til raforkuframkvæmda í stað 2 millj. kr. á þessu ári. Rúmlega 1 millj. kr. lægri fjárhæð er áætluð til brúargerða í frv. en á þessu ári, og svo er um fleira.

Ég hef þá í stórum dráttum lýst fjárlfrv. því, er hér liggur fyrir. Auðséð er, að um enga stefnubreytingu er að ræða frá fyrri árum. Rekstrarútgjöldin fara enn þá hækkandi, framlög til verklegra framkvæmda í þágu atvinnuveganna lækkandi, vaxtagreiðslur og skuldasöfnun ríkisins ört hækkandi. Það er látið síga á ógæfuhlið.

Eins og ég gat um hér að framan, er í frv. aðeins gert ráð fyrir 331/2 millj. til dýrtíðarráðstafana. Á að verja þessum millj. samkvæmt frv. eingöngu til niðurgreiðslu á neyzluvörum innanlands, og í athugasemdum við frv. segir, að í frv. sé ekki gert ráð fyrir neinu fé úr ríkissjóði til fiskábyrgðar eða annars stuðnings við sjávarútveginn og fjmrn. liti svo á, að finna verði aðrar leiðir til þess að tryggja hallalausan rekstur sjávarútvegsins. Hverjar þær leiðir eru, sem hér er átt við, er mér ekki kunnugt um, því að enn þá hefur ekkert heyrzt frá hæstv. ríkisstj., hvað hún leggi til, að gert verði, en af ummælum hæstv. forsrh., er hann viðhafði á Alþingi nú fyrir skömmu, var helzt að heyra, að ríkisstj. mundi til að byrja með að minnsta kosti fara troðnar slóðir í þessum málum, og hægt er við, að ekki verði hægt á næsta ári að komast hjá stórfelldum fjárframlögum úr ríkissjóði til stuðnings sjávarútveginum.

Það er að minnsta kosti vitað, að afkoma sjávarútvegsins hefur aldrei verið lakari en nú, svo að auðsætt er, að grípa verður til stórvægilegra ráðstafana, ef bátaútvegurinn á ekki að stöðvast nú eftir áramótin. Í skýrslu frá formanni Landssambands ísl. útvegsmanna, sem birt var í blöðum nú fyrir skemmstu, segir svo, að rekstrargrundvöllur fyrir útgerð íslenzkra fiskiskipa sé ekki fyrir hendi, miðað við tilkostnað og afurðaverð, og fullkomið öryggisleysi ríki nú í þessum málum.

Enn fremur segir í þessari sömu skýrslu, að allur vélbátaflotinn sé flakandi í skuldasárum, allflestir eldri togararnir liggi nú bundnir við festar og hinir nýju togarar berjist nú í bökkum og séu margir þeirra reknir með fjárhagslegu tapi. Þetta er ófögur lýsing á öðrum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, en hún er víst því miður sönn.

Í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir milli 30–40 millj. kr. útgjöldum til fiskábyrgðar og niðurgreiðslu á kostnaði samkvæmt dýrtíðarlögum við framleiðslu sjávarafurða, þetta hefur allt verið fellt, eins og áður segir, úr frv. Ekki hefur heldur verið gert ráð fyrir neinu framlagi til afla- og hlutatryggingasjóðs, eins og þó mun hafa verið lofað, enn fremur engin upphæð verið tekin í frv. vegna bráðabirgðalaga frá í sumar, að upphæð 21/2 millj. kr. til styrktar síldveiðibátum. Það er því sýnt, að á frv. vantar yfir 40 millj. kr. til sjávarútvegsins,

þótt ekki sé gert ráð fyrir meiri stuðningi á næsta ári, en á þessu yfirstandandi ári, en þó er fullyrt af kunnugum, að miklu hærri upphæð þurfi að verja í þessu skyni á næsta ári, ef að haldi á að koma.

Samkvæmt upplýsingum hæstv. forsrh. má gera ráð fyrir 70–80 millj. kr. í þessu skyni, verði sömu leiðir farnar og áður. Fjmrh. tók í sama streng.

En það er meira blóð í kúnni. Í lok síðasta Alþingis var samþykkt, eftir að búið var að afgreiða fjárlög, þáltill. um heimild fyrir ríkisstj. að greiða allt að 4 millj. kr. sem launauppbót til starfsmanna ríkisins á árinu 1949. Upphæð þessi svaraði til 8,33% launahækkunar á öll laun starfsmanna ríkisins fyrir árið 1949. En í meðferðinni hjá fjmrn. varð niðurstaðan sú, að upphæð þessi var greidd sem mánaðaruppbót, 1 millj. kr. á mánuði, og svarar það til 20% kauphækkunar á laun starfsmanna ríkisins. Þegar Alþingi kom saman í haust, var búið að greiða 5 millj. kr. í þessu skyni, eða 1 millj. kr. meira en Alþingi hafði heimilað.

Eitt hið fyrsta, er lagt var fyrir Alþingi í haust, var þáltill. um heimild fyrir ríkissjóð að halda áfram að greiða uppbætur úr ríkissjóði til opinberra starfsmanna, þar til fjárl. verði afgreidd. Einhvern tíma hefðu það þótt tíðindi, ef Alþingi afgreiddi svona stórfelld útgjöld til. launagreiðslu með einfaldri þingsályktun.

Fullvíst er talið, að tillaga þessi verði samþykkt nú fyrir áramótin. Fyrsti flutningsmaður hennar er einn af gæðingum hæstv. ríkisstj., og þetta mun sennilega verða fyrsta og eina bjargráðatillagan, sem samþykkt verður á Alþingi nú fyrir áramótin, undir handleiðslu hinnar nýju hæstv. ríkisstj., og má segja, að ekki lofi fyrsta gangan neinu góðu. Þetta þýðir 12 millj. kr. aukin útgjöld ríkissjóðs í hækkuðum launum á næsta ári, en það verður meira, því að það er vitanlega ekki annað hægt en hækka líka eftirlaun, örorku- og ellilaun. um sömu upphæð og nemur það fyrir ríkissjóð ekki minni upphæð en 3–4 millj. kr., enda eru þegar komnar fram tillögur á Alþingi í þá átt.

Tillögur þessar munu því auka ríkisútgjöldin um 15–16 millj. kr., og virðist þó vera nóg fyrir. Vel get ég fallizt á, að kjör hinna lægst launuðu starfsmanna séu heldur kröpp, miðað við húsaleiguokur og svartamarkaðsbrask, en ástandið hjá atvinnuvegum vorum og kaup og kjör og að ýmsu leyti öryggisleysi með vinnu nú á næstunni geta ekki réttlætt svona mikla kauphækkun hjá launastéttunum, enda munu. í kjölfar þessara hækkana koma kröfur um hækkað kaupgjald hjá verkalýðnum og ný dýrtíðaralda flæða yfir landið og torvelda mjög allar aðgerðir í dýrtíðarmálunum.

Það er fullvíst, að ef á að afgreiða á þessu þingi greiðsluhallalaus fjárlög, verði þingið að afla nýrra tekna, er nemi 80–100 millj. króna. Hvar á að taka þetta fé? Tekjuáætlun frv. virðist mér svo háspennt, að ekki sé að vænta. neinna umframtekna, eins og svo oft áður hefur bjargað, meðan atvinnulífið var í fullum blóma, þvert á móti sýnist nú vera eftir útliti í gjaldeyrismálum þjóðarinnar teflt á fremstu nöf, og hætt við, að sumir tekjuliðir, eins og t.d. verðtollurinn, séu allt of hátt áætlaðir.

Ekki er heldur hægt að lækka frá því sem nú er á frv. til verklegra framkvæmda í þágu atvinnuveganna. Það er lífsnauðsyn fyrir þjóðarbúskapinn, að unnt sé að halda uppi raforkuframkvæmdum, síma- og vegalagningum, hafnarmannvirkjum o.fl. í ekki smærri stíl en undanfarandi ár, og svipað má segja um flest að, sem nú er í frv., að erfitt verður að fá það numið í burt.

Á síðasta þingi í þinglokin, þegar sýnt var, að um 40 millj. kr. vantaði til þess að fá greiðslujöfnuð á fjárlögin, voru lagðir nýir stórhækkaðir tollar á nauðsynlegustu hluti, eins og benzín, bifreiðagúmmí, heimilisvélar og fleira, sem nú er að sliga atvinnuvegina. Ég hygg, að flestir hv. alþingismenn hafi þá verið á einu máli um það, að ekki væri unnt að halda áfram á þeirri braut á næsta ári. Enda er það svo. Mælirinn er nú orðinn fullur, atvinnulíf landsmanna meira og minna í rústum, launastéttirnar þarfnast hærri og hærri launa til þess að geta hamlað á móti sívaxandi dýrtíð. Það er ekki lengur hægt að halda áfram á sömu braut. Hinar troðnu leiðir eru orðnar ófærar. Við verðum að snúa við, það er ekki lengur unnt að ýta erfiðleikunum á undan sér, það verður að horfast í augu við staðreyndirnar.

Framsfl. hefur oft undanfarið varað við hættunni og bent á afleiðingar af stefnu, eða réttara sagt stefnuleysi undanfarinna ára í fjármálum og atvinnuháttum þjóðarinnar, en það hefur aldrei fengið nægilegan hljómgrunn, hvorki innan Alþingis né utan.

Fjármálastjórn undanfarandi ára hefur verið mjög veik. Þar hefur aldrei verið um neina forustu eða stefnu að ræða. Æðsti ráðgjafi þjóðarinnar í fjármálum hefur sí og æ skotið sér á bak við gerðir þingsins, í stað þess að leiða það, og erfiðleikum ýtt úr vegi í bili með nýjum skuldasöfnunum og síhækkandi álögum. Þetta er ekki lengur hægt, hér verður að verða stefnubreyting. Það verður að segja þjóðinni nakinn sannleikann og viðurkenna, að of djarft hefur verið siglt í mörgu nú undanfarin ár. Einstaklingar og stéttir geta ekki sí og æ gert sívaxandi kröfur til ríkisheildarinnar. Við verðum nú fyrst og fremst, hver einstakur, að gera auknar kröfur til sjálfra okkar, og allir þjóðhollir menn, innan þings og utan, hvað sem þeir heita og hvar í flokki sem þeir standa, verða að sameinast um það að bjarga þjóðinni úr því fjárhagslega öngþveiti, sem hún er nú í. Þótt ríkiskassinn sé tómur, þá hafa miklir fjármunir safnazt fyrir hjá einstaklingum. Þetta fé verður að nota til alþjóðarþarfa og viðreisnar atvinnuvegunum. Lækka verður húsaleiguokrið og svartamarkaðsbraskið, bæði verzlunarástandið og viðskiptalífið, svo að nokkuð sé nefnt. Ef vér glötum fjárforræði voru, þá fer fleira á eftir. Það er skylda okkar að bjarga okkar fjárhagslega og pólitíska frelsi. Enn þá er það hægt, en til þess þarf sameiginlegt átak allrar þjóðarinnar.