03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

38. mál, fjárlög 1950

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1950 var fyrst í gær vísað til 2. umr. Samkvæmt fyrirmælum stjórnarskrárinnar ber að afgreiða fjárlög hverju sinni áður en fjárlagaárið hefst. Þessum skýru fyrirmælum hinnar helgu bókar, sem allir háttvirtir alþingismenn hafa þó heitið að halda, hefur því miður ekki verið fylgt undanfarin ár. Þjóðin hefur komið auga á þessi mistök og gagnrýnt þau.

Venja sú, sem hér er að skapast, þvert ofan í skýlaus ákvæði stjórnarskrárinnar, hefur haft margvíslega erfiðleika í för með sér og raunar torveldað þá stefnubreytingu, sem óhjákvæmilega þarf að verða í ríkisrekstrinum og þjóðin heimtar að verði, eftir að fjármálakerfinu hefur verið raskað svo sem raun ber vitni um, auk þess sem þessi venja hefur á engan hátt treyst virðingu Alþingis eða skapað þá festu í fjármálum ríkisins, sem nauðsynlegt er að sé fyrir hendi á hverjum tíma. Nefndin vill eindregið vænta þess; að fjárlagafrv. fyrir næsta ár verði undirbúið svo á allan hátt, að fjárlög verði samþykkt fyrir árslok, og þeirri venju að fullu lokið, að fresta afgreiðslu fjárlaga langt eða skammt fram á fjárlagaárið.

Ég hef hreyft þessu hér við þessa umræðu vegna þess, að mér er það ljóst, hversu nauðsynlegt það er, að fjárlög séu afgreidd svo sem fyrir er mælt í stjórnarskránni, ef gera á nokkrar endurbætur að raunveruleika í sambandi við sparnað og hagsýni í ríkisrekstrinum og skapa, á aftur fulla virðingu og fullt traust á Alþingi í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og meðferð á fé ríkissjóðs. — Mér þykir einnig rétt að taka fram, að ástæður fyrir því, að afgreiðsla fjárlaga á þessu þingi, er nú situr, hefur gengið svo treglega, eru bæði margar og veigamiklar. Ágreiningurinn um áframhaldandi samstarf stjórnarflokkanna á s.l. ári, með þingrofi og haustkosningum, svo að samkomudegi Alþingis seinkaði um mánuð frá því, sem áður var, stjórnarkreppa og of langur dráttur á lausn dýrtíðarmálanna. Allt þetta varð þess valdandi, að ekki var unnt að afgreiða fjárlög svo sem vera bar. Mér þykir einnig rétt að taka það hér fram, að undirbúningur fjárlagafrv. frá hendi þáverandi fjmrh. var í alla staði hinn prýðilegasti, miðað við það ástand, sem þá ríkti, enda eru flestar þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á frv., í beinu sambandi við fyrirmæli laga, sem samþ. hafa verið eftir að hann lagði frv. fram.

Breytingartillögur þær, sem meiri hl. ber fram, en fyrir þeim öllum er meiri hl. í n., bera að sjálfsögðu merki þeirrar röskunar, sem orðið hefur á öllu fjárhagskerfi þjóðarinnar við gengisfellinguna, samfara þeim lagafyrirmælum, sem samþykkt voru í sambandi við hana nú á þessu þingi. Tillögurnar bera hins vegar ekki svip þeirrar stefnu í fjármálum ríkisins, sem þörf er á að marka og verður að marka, þegar sýnt er, að framleiðsla landsins fær hvert stóráfallið á fætur öðru frá fallandi markaðsverði, skerðingu markaðssvæða og vaxandi andúð frá vinveittum þjóðum vegna samkeppninnar bæði á veiðisvæðum og á sölumarkaðinum. Það var að vísu á valdi fjvn. að gera till. um ýmis atriði í ríkisrekstrinum, sem auðsjáanlega verður að breyta, en það var ekki á valdi n. að gera slíkar till. raunhæfar til sparnaðar, einkum og sér í lagi vegna þess, hversu langt er liðið á fjárlagaárið. — Slíkar breytingar á rekstrarkerfinu þurfa mikinn og margvíslegan undirbúning, sem framkvæma þarf áður eða samhliða undirbúningi fjárlaga. Meiri hl. n. beinir því eindregið þeirri áskorun til hæstv. ríkisstj., að hún láti nú þegar að loknu þingi fara fram slíkan undirbúning og leggi síðan fram raunhæfar tillögur til sparnaðar í sambandi við fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Er þess að vænta, að hæstv. ríkisstj. gefi um þetta efni skýlausa yfirlýsingu, áður en umræðum um fjárlögin lýkur að þessu sinni.

Öll störf þingsins mótast enn af þeim trölladansi, sem þjóðin heldur ótrauð áfram að stíga umhverfis gullkálfinn, sem hér skapaðist á stríðsárunum, þegar hver blóðdropi, sem draup á vígvellinum, varð að gullpeningi fyrir þá, sem gátu framleitt í friði einhver verðmæti fyrir þjóðirnar. Meðan þessu fer fram, er þess ekki að vænta, að fjárlögin beri svip þeirrar festu, sem ávallt er nauðsynleg í sambandi við ráðstöfun á almannafé. En núverandi hæstv. ríkisstj. hefur nægilega sterkan meiri hl. innan þings og utan til þess að stöðva þennan trölladans og kalla menn til alvarlegri athafna, svo að þau verðmæti, sem þjóðinni hlotnuðust á undanförnum árum og verið hafa meiri en nokkru sinni fyrr, renni ekki úr greipum hennar líkt og sandkorn, þar til hún stendur uppi með tómar hendur.

Kapphlaupið milli manna og stétta um kjarabætur í krónutölu verður að stöðva með viturlegri og sanngjarnri löggjöf. Kröfunum um meiri laun fyrir minni afköst verður að vera lokið. Fjötrar, sem festir hafa verið um fót einstaklingsins, sem ekki fær lengur að njóta sín á sviði athafnar og viðskipta, verða að hrökkva. — Lögfest sérréttindi manna og stétta í verzlun og viðskiptum, sköttum og skyldum, sem torvelda holla og eðlilega þróun framleiðslunnar, verða að afnemast, og fullkomið réttlæti og frelsi í þessum málum verður aftur að halda innreið sína. Landið og þjóðin er nægilega mörgum kostum búið til þess, að hér sé unnt að halda uppi sambærilegum lífskjörum við aðrar menningarþjóðir, og slík lífskjör verður að tryggja með traustri löggjöf, áður en það er um seinan. Og forustan verður að koma hér frá háttvirtu Alþingi.

Eins og nál. ber með sér, hefur n. haldið miklu færri fundi. en undanfarin ár. Hún hefur þó afgreitt öll þau erindi, sem til hennar hafa borizt. — Vegna fullkominnar óvissu um lausn dýrtíðarmálanna og myndun stjórnar, sem hefði stuðning meiri hluta þingsins, þótti ógerlegt að setja fram tillögur um afgreiðslu fjárlaganna. Nefndinni þótti því rétt að láta fundi falla niður að mestu, á meðan slíkt ástand ríkti í þinginu. Eftir að stjórnin var mynduð og stefna hennar mörkuð, tók það tiltölulega skamman tíma fyrir n. að ganga frá tillögum sínum. Sannar þetta bezt, að það er engum vandkvæðum bundið að afgreiða fjárlög á skömmum tíma, ef eðlileg skilyrði eru fyrir hendi í þinginu.

Skal nú gerð hér nokkur grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. n. ber fram.

Nefndin gerir ekki við þessa umræðu tillögur til breytinga á tolla- og skattatekjum ríkissjóðs samkvæmt 2. gr. fjárlfrv., þar sem ekki hafði verið gengið að fullu frá útreikningi á hinum ýmsu liðum eftir gengisbreytinguna, en hún hefur mjög víðtæka breytingu í för með sér á mörgum liðum, greinarinnar. Verða gerðar um þetta tillögur í sambandi við ríkisstj. fyrir 3. umræðu.

Lagt er til að hækka gjöld póstsjóðs um 1.6 millj. kr. vegna gengisbreytingarinnar, og tekjur sjóðsins um sömu upphæð. Hafa þessar breytingar engin áhrif á niðurstöðu fjárlaganna, svo fremi að tekjuáætlunin standist, en það hefur því miður ekki tekizt undanfarin ár að láta tekjur póstsjóðs mæta útgjöldum, sem þó verður að gera kröfu til í framtíðinni.

Lagt er til, að gjöld landssímans hækki um 5 millj. 475 þús. Stafar þessi hækkun einnig mestmegnis frá gengisbreytingunni. M.a. er framlag til sveitasíma hækkað á þessum lið úr 800 þús. kr. í 1 millj. Tekjur landssímans eru hækkaðar um 4 millj. 140 þús., og verður þá rekstrarafkoma símans 1 millj. 325 þús. kr. óhagstæðari, en gert var ráð fyrir á frv.

Lagt er til, að eignabreyting landssímans hækki um 1 millj. 320 þús. Þykir þó rétt að athuga þessa tillögu nánar, og mun meiri 131. n. því taka hana aftur til 3. umr.

Fyrir nefndinni lá áætlun frá ríkisútvarpinu, dags. 6. till s.l., er send hafði verið fjmrn. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir 4 millj. 400 þús. kr. tekjum, og er sú upphæð tekin inn í frv. jafnframt er þar gert ráð fyrir 4.164.100 króna gjöldum, og tekjuafgangur þá áætlaður kr. 235.900. Á þessa útgjaldaáætlun hefur ráðuneytið ekki viljað fallast. Færði það áætluð útgjöld niður í 3 millj. 759 þús. 100 kr. og áætlar þannig rekstrarhagnað 640 þús. kr. Kemur niðurskurður þessi að langmestu leyti niður á dagskrárliðnum, sem lækkaður var um 310 þús. Það, sem á vantar, er tekið af skrifstofukostnaði, kostnaði við hleðslustöðvar og bifreiðar. Þann 20. marz er ný rekstraráætlun lögð fram til samræmingar vegna gengisbreytingarinnar. — Eru tekjur af notendagjöldum hækkaðar þar um 50 þús. kr., en aukatekjuliður áætlaður 100 þús. kr. hærri. ríkisstj. og n. hafa fallizt á að áætla tekjur af afnotagjöldum eins og þær eru í frv., en leggja til að hækka aðrar tekjur um 100 þús. kr.

Gjaldaliðir eru í síðari áætluninni hækkaðir um 240 þús. frá fyrri áætlun og teknir þar upp á ný liðir, sem rn. gat ekki fallizt á að taka upp í frv. Þessir liðir margir hverjir eiga ekkert skylt við kostnað vegna gengisbreytingarinnar. N. gat því ekki fallizt á, að nauðsyn bæri til að taka þá upp. Hún leggur hins vegar til, að framlag vegna útvarpsefnis hækki um 100 þús. og til útvarpsstöðva um 195 þúsund. Rekstrarafkoma útvarpsins verður því 195 þús. kr. óhagstæðari, en ráð er fyrir gert í frv., ef till. verða samþykktar óbreyttar.

Rétt þykir að upplýsa hér, að þegar leyfð var hækkun afnotagjalda úr 60 kr. í 100 kr., var beinlínis til þess ætlazt, að hækkunin öll gengi til þess að koma upp húsi fyrir útvarpið. Þrátt fyrir það að aðrar tekjur útvarpsins hafa stórlega hækkað síðan, er svo komið, að mestallur hluti hækkunar afnotagjaldanna fer nú til þess að standa undir daglegum rekstri. Er því ástæða til að beina því til forráðamanna þessarar stofnunar að gæta meira hófs í útgjöldum, nema hugsað sé að hverfa að fullu, frá frekari fjáröflun til húsbyggingarinnar, eða að hækka afnotagjöldin frá því, sem nú er. En hvorugt mundi verða vinsælt meðal þjóðarinnar.

Áætlað er, að vaxtatekjur ríkissjóðs af erlendum innstæðum hækki um 257 þús. kr., og er lagt til, að sú upphæð bætist við vaxtatekjur á þessari grein.

Á þessu stigi ber meiri hl. ekki fram aðrar brtt. við tekjubálkinn.

Þá er gjaldabálkurinn, og gerir n. þar till. um ýmsar breytingar, sem margar leiðir beint af hinum nýju viðhorfum og ráðstöfunum.

Þannig hækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs samkvæmt 7. gr. um 1.937.021 kr. vegna gengisfellingarinnar.

Kostnaður samkvæmt 10. gr. III. var áætlaður 2.439.200 kr., en ráðuneytið sendi n. nýja áætlun og taldi, að þennan lið þyrfti að hækka um 2.235 millj. kr. Þannig ykist kostnaður við sendiráðið í Moskva úr 400.000 kr. í 967.400 kr., eða nær 1 millj. kr. Meiri hl. n. gat ekki fallizt á að taka þetta allt inn á frv. að svo komnu og frestar því til 3. umr. að gera till. um þetta. Þó er ljóst, að kostnaður við utanríkisþjónustuna hlýtur mjög að hækka, ef það á að halda henni uppi í sama formi og hingað til. Hins vegar er ekki að undra, þótt erfitt verði að fá samþykki til útgjalda, sem nema nær 1 millj. kr. til sendiráðsins í Moskva, sem ekki hefur lengur neina þýðingu að því er virðist fyrir viðskiptalíf landsins. Framlag til frönskukennslu undir þessum lið leggur n. til að falli niður, en það nemur 2.500 kr.

Þá er 11. gr. Útgjöld hækka þar um 975.380 kr. Þar af eru 820 þús. kr. til landhelgisgæzlu, og stafar það að sumu leyti af hækkun á olíu, og enn fremur má gera ráð fyrir nokkurri kostnaðaraukningu vegna stækkunar landhelginnar fyrir Norðurlandi. — Í sambandi við hækkun þessa rekstrarkostnaðar vil ég geta þess, að komið getur til mála að lækka nokkuð vátryggingarupphæð í erlendri mynt og spara þannig nokkuð. — Þá er aukinn kostnaður við siglingadóm samkvæmt lögum 32.520 þús. kr. Enn fremur vegna viðgerðar á bæjarfógetahúsinu á Norðfirði, sem skemmdist í vetur af skriðuhlaupi, 100 þús. kr. Loks er kostnaður við framkvæmd laga um eftirlit með bókhaldi 22.860 kr. — Einkennilegt er, að slíkum lögum skuli ekki vera breytt og starf þetta lagt niður, því að það er tilgangslaust. — N. hefur frestað að gera till. um breytingar á fyrirkomulagi verðlags- og skömmtunarmála, en þar er um gífurlegan kostnaðarlið að ræða, sem full ástæða er til að athuga nánar.

12. gr. Lagt er til, að útgjöld á þessari gr. hækki um 1.572.333 kr., sem skiptist þannig: Kostnaður vegna læknaráðs samkv. l. kr. 23.700.

Kostnaður við rekstur ríkisspítalanna kr. 3.546.933, og hefur þá verið gert ráð fyrir nokkurri hækkun daggjalda, sem ákveðin hefur verið.

Styrkur til berklasjúklinga skv. 1. 530 þús. kr. ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla 566 þús. kr.

Styrkur til sjúkrahúsa 2.700 kr. Rætt var nokkuð í n., að ósanngjarnt væri, að styrkur sem þessi næði ekki einnig til annarra sjúkrahúsa, en fjórðungssjúkrahúsa, þar sem vitað er, að þau, hafa hans engu síður þörf og sinna engu ómerkari verkefnum, en fjórðungssjúkrahúsin. Um það varð þó ekki samkomulag að leggja til, að þessu yrði breytt nú. En þess er vænzt, að ráðuneytið athugi fyrir næsta fjárhagsár, á hvern hátt unnt er að bæta úr þessum erfiðleikum, sem héruðin eiga hér í vegna rekstrar sjúkrahúsanna, sem hvílir á mörgum þeirra með miklum þunga.

Þá eru 35 þús. kr. til gróðurhússbyggingar við Kristneshæli. Taldi n., að með því mætti afla hælinu mun ódýrari garðávaxta, eftir því sem upplýsingar lágu fyrir um það atriði.

Framlag til sjúkrahússins á Akureyri hækkar eftir till. n. um 50 þús. kr. Þótti meiri hl. rétt að hækka þetta framlag með hliðsjón af því verki, sem verið er þar að framkvæma.

Þá hækkar styrkur til sjúklinga til utanfara um 10 þús. kr. Rétt þótti að hækka þennan lið með tilliti til gengisbreytingarinnar.

13. gr. Lagt er til að hækka framlög á þessari gr. alls um 4.553.000 kr., sem skiptist þannig: Til nýrra þjóðvega 250 þús. Verður þá heildarframlag til nýrra vega kr. 7.250.000 og skiptist á þann hátt, sem lagt er til í brtt.

Viðhald þjóðvega kr. 1.800.000. Er þetta gert í samráði við hæstv. ríkisstj. Áætlað til viðhalds verður því alls kr. 12.800.000, og er það mun meira, en nokkru sinni fyrr, enda mun vegavíðhald ávallt hafa á síðari árum farið langt fram úr áætlun.

Framlag til brúargerða leggur n. ekki til að breytist að öðru leyti en því, að það skiptist á þann hátt, sem lagt er til í brtt. — Þá er og lagt til, að framlagið til ræktunarvega skiptist eins og greinir frá í 30. tölul. till., og er það í samræmi við fjárl. síðasta árs.

Aðrar brtt. eru ekki gerðar við A-kafla gr. Til strandferða er 738 þús. kr. hækkun. Lagt er til, að tekið sé upp nýtt form á þessum lið. Er gert ráð fyrir því, að þessar upphæðir nægi, ef væntanlegur ágóði af olíuflutningaskipinu Þyrli fram yfir 60 þús. kr. er látinn ganga til að mæta halla á rekstri strandferðaskipanna. Rétt er þó að taka fram, að vafasamt er, hvort slíkan ágóða, ef einhver yrði, ætti ekki að nota beint til aðstoðar sjávarútveginum.

N. gerir ekki till. fremur venju u,m framlag til flóabáta. Munu þær verða gerðar af samvn. samgöngumála.

N. þykir ekki heldur ástæða til á þessu stigi að gera till. til breytinga á framlagi til áætlunarbifreiða á vegum póststjórnarinnar, þar sem það hefði ekki áhrif á afgreiðslu fjárl., og hins vegar hefur n. í sérstöku erindi sent ráðuneytinu álit sitt á þeim rekstri og gert tillögur til þess um breytingar hér að lútandi.

Til vitamálanna er áætluð hækkun 415 þús. kr. Er þetta vegna hækkunar á eldsneyti o.fl. N. hefur haft tækifæri til að kynna sér rekstrarkostnað dýpkunarskipsins Grettis á s.l. ári. Er ljóst, að mjög aðkallandi er að gera róttækar breytingar á þeim rekstri til gjaldalækkunar, engu síður en bæði á rekstri landhelgisgæzlunnar og Skipaútgerðar ríkisins. Er þess vænzt, að þessi mál öll verði tekin til rækilegrar athugunar á þessu ári. Mér þykir rétt í sambandi við þetta mál að benda hér á staðreyndir varðandi rekstur skipsins, sem legið hafa fyrir fjvn. Sjáanlegt er m.a., að laun matsveinsins á Gretti eru reiknuð, meðan skipið er í höfn, rúml. 40 þús. kr. og laun skipstjórans og skipverja á þessu skipi eru hér reiknuð nær 86 þús. kr. Ég beini því til hv. alþm., án þess að ég vilji telja laun þessara manna of há, hvort eigi sé ástæða til að taka þessi mál til athugunar. Er hægt að reka skipið á þann hátt framvegis, að skipið sé mestallan tímann í höfn og þurfi að greiða þetta? Ef það er gert, er eðlilegt, að svipaðar kröfur komi annars staðar frá. Þetta eru gögn frá útgerðinni, sem n. hefur haft aðgang að.

Nauðsynlegt er, að til hafnarbótasjóðs séu áætlaðar kr. 1.200.000 til hækkunar. Er þetta skv. l., og ber því að taka þá upphæð inn, nema fresta eigi framkvæmd l. Upphæð sú, sem tekin er inn á frv. til hafnarframkvæmda, er 4.5 millj. kr., en auk þess 300 þús. kr. í hafnarbótasjóð. Ef samþ. yrði till. n. um 1.2 millj. kr. hækkun á hafnarbótasjóði, yrði framlagið alls 6 millj. kr. til hafnarframkvæmda á þessu ári, en það er tæplega sú upphæð, sem ríkissjóður á um síðustu áramát ógreidda af lögbundnu framlagi til hafna fyrir verk, sem þá var búið að vinna. Síðan hafa ýmis verk verið framkvæmd, svo að ógreiddur hluti ríkissjóðs er í dag mun hærri. Áður en n. gerði till. sínar um skiptingu á því fé, sem ætlað er á frv. til hafnarbóta, gerði hún sér þetta fyllilega ljóst. Meiri hl. n. leit þá svo á, að ekki yrði á nokkurn hátt komizt af með minna en 6 millj. kr. samanlagt til þessara framkvæmda, því að fjöldi hafna líður stórkostlega við það að geta ekki fengið ógreidd framlög, og margar hafnir standa enn í stórvirkum framkv., sem ekki er unnt að stöðva, nema valda mjög verulegu tjóni fyrir aðila. Því var lagt til, að fullt framlag til hafnarbótasjóðs yrði tekið upp á frv., og skipting á þeirri upphæð, sem nú er í frv., er beinlínis byggð á því, að hafnarbótasjóður hafi þetta fé til umráða á þessu ári. Ráðuneytið hefur þó ekki getað fallizt á, að svo há upphæð yrði tekin í sjóðinn sem hér hefur verið lagt til. Fallist meiri hl. Alþ. á það, verður óhjákvæmilegt að bera fram við 3. umr. allvíðtækar brtt. við framlög til hafnarbóta og hækka þann lið að mun frá því, sem nú er gert ráð fyrir í till. n.

Til ferjuhafna eru áætlaðar 150 þús. kr., og skiptist það eins og lagt er til í brtt. n. Þetta er mun lægra en er á fjárl. síðasta árs, en ekkert hafði verið tekið til þessara framkvæmda á fjárlagafrv.

14. gr. Lagt er til, að útgjöld á þessari gr. hækki um kr. 790.200, en á móti komi lækkun að upphæð kr. 50.000, þ.e. ýmis útgjöld við Háskóla Íslands. Ég vildi leyfa mér að benda á, að n. hefur haft aðgang að sundurliðuðum öðrum kostnaði við háskólann. M.a. eru þar eftirlaun til ekkju Steinþórs Sigurðssonar, 7 þús. kr., en hún á að vera á 18. gr. Er merkilegt, að háskólinn skuli leyfa sér að fela slíkt í öðrum kostnaði. (Fjmrh.: Í ýmsum útgjöldum.) Ef ekkjunni ber að hafa eftirlaun, þá á hún að koma á 18. gr., en það á eigi að fela þau hér. — Kostnaðurinn við hækkunarliðina skiptist sem hér segir:

1. Kostnaður við eftirlit með kirkjugörðum skv. l. kr. 7.200. Var þessi ósk borin fram af ráðuneytinu. Má það kalla merkilegt, að þessu hefur ekki verið breytt, þegar kirkjugörðum voru tryggðar öruggar tekjur í hluta af útsvari. Er þess vænzt, að hæstv. ríkisstj. athugi þetta.

2. Til hátíðarhalda að Hólum í Hjaltadal í tilefni af því, að 400 ár eru liðin frá aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans, 10 þús. kr.

3. Hækkun erlendra námsstyrkja vegna gengisbreytingarinnar 675 þús. kr. Er þetta gert í samráði við hæstv. ríkisstj.

4. Námsstyrkur til Elíasar Eyvindssonar, 12

þús. kr., og til Sigursveins D. Kristinssonar, 6 þús. kr., en þeir hafa báðir verið á fjárl. s.l. 2 ár.

5. Til blindrastarfsemi, 15 þús. kr., en þessi liður hafði áður verið lengi á fjárl., en fallið nú niður af óaðgæzlu.

Þá er styrkur til Glímufélagsins Ármanns vegna utanfarar á s.l. ári, 10 þús. kr., og til að kosta fulltrúa á Evrópumeistaramót í Belgíu á þessu ári, 25 þús. kr. Til Íþróttasambands Íslands 8 þús. kr., til að kosta framkvæmdastjóra, og til raflýsingar á Staðarfellsskóla 22 þús. kr.

15. gr. Lagt er til, að gjaldaliðir þessarar gr. hækki um kr. 191.500, en á móti komi lækkanir, kr. 35.000. Sundurliðast hækkanirnar þannig: Leikfélag Húsavíkur 1.500 kr., til tónlistarstarfsemi á Ísafirði 10 þús. kr., námsstyrkur til Guðrúnar Á. Símonar, Þórunnar Jóhannsdóttur, Gerðar Helgadóttur, Hermanns Pálssonar, Guðmundar Elíassonar, 6 þús. kr. til hvers. Voru þau öll styrkt á síðustu fjárl. og eru enn við nám. Þótti n. því ekki rétt að fella þessar upphæðir niður.

Þá er einnig tekið hér upp 150 þús. kr. framlag til mótvirðissjóðs til þess að greiða hluta af tæknilegri aðstoð, sem hann lætur landsmönnum í té í sambandi við framleiðslu útflutningsafurða.

Til lækkunar á móti kemur framlag til Leikfélags Reykjavíkur, sem ekki er talið lengur þörf, þegar þjóðleikhúsið hefur tekið til starfa, 30 þús. kr., og 5 þús. til eflingar menningarsambandi við Vestur-Íslendinga, er n. fékk upplýsingar um að ekki væri óskað eftir af viðkomandi aðilum.

16. gr. Lagt er til, að útgjöld á þeirri gr. hækki um 6.828.745 kr. Ég vil biðja hv. alþm. að athuga, að í nál. er sagt, að á móti þeirri hækkun sé þar tiltekin upphæð sett fram. Þetta er ekki rétt og óskast leiðrétt. Þessi mistök stafa af því, að gert var ráð fyrir, að ætla mætti einni millj. kr. minna til niðurgreiðslu á þessu ári vegna fjárskiptanna. En með því að allt er enn í óvissu um afgreiðslu á frv. því, sem fyrir liggur um þetta efni hér á Alþ., þótti réttara að hafa upphæðina óbreytta í frv. Er þetta gert í samráði við hæstv. fjmrh.

Hækkunin á þessari gr. sundurliðast þannig: Framlag til framleiðsluráðs landbúnaðarins samkv. l. 28.045 kr. Til kaupa á jarðvinnsluvélum samkv. l. 1 millj. kr. Til búfjártrygginga samkv. l. 100 þús. kr. Framlag til tilraunastöðva í jarðrækt 48.600 kr., og er ætlazt til þess, að þetta verði sett í einu lagi inn á frv. og skipt af tilraunaráði sjálfu til ýmissa stöðva. Til greiðslu kostnaðar við rafmagn á Sámsstöðum 47 þús. kr. Til landþurrkunar 30 þús. kr. Til fyrirhleðslu 95 þús. kr. Til sandgræðslu 25 þús. kr., til að halda áfram sandgræðslugirðingum. Til eyðingar refa og minka samkv. l. 60 þús. kr. Uppeldisstyrkur 150 þús. kr. Þetta hafði ekki verið tekið inn á frv., en sýnt þykir, að nauðsynlegt sé að taka a.m.k. þessa upphæð inn á frv., til þess að mæta þeim útgjöldum. — Þá er lagt til, að undir B-lið 16. gr. sé tekið inn í staðinn fyrir 182 þús. kr. 318.500 kr. til skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda. Þetta er vegna erlendra lána. En ríkissjóður er samkv. l. skuldbundinn til þess að greiða vexti og afborganir af þessum lánum. Stafar þetta af gengisfellingunni. Enn fremur til þess að gera tilraunir með nýjar síldveiðiaðferðir 250 þús. kr. Fjvn. hafði rætt um það, hvort mögulegt væri að láta þessa upphæð greiðast úr fiskimálasjóði. En með því að enn er ekki ákveðið, hvernig fer um það frv., sem hér liggur fyrir Alþ., sem svo mælir fyrir, ef samþ. verður, að ákveðinn hluti af fé fiskimálasjóðs skuli vera notaður til þess að standa undir slíkum tilraunum, þá þótti ekki rétt að taka ekki upphæðina hér upp, enda þess óskað af hæstv. ríkisstjórn. Til greiðslu síldveiðilána 1949, samkv. l., 1.300.000 kr. Það er gert í samráði við hæstv. ríkisstj. og liggja fyrir lög um það, að þetta skuli tekið upp á þessa árs fjárlög. Til aflatryggingasjóðs 1.750.000 kr., sem einnig er tekið upp samkv. ósk frá hæstv. ríkisstj. Kostnaður vegna þátttöku Íslands í síldarmálanefnd 40 þús. kr., sem einnig var rætt um í fjvn., hvort ekki væri hægt að láta fiskimálasjóð kosta. En þetta var tekið hér upp af sömu ástæðum eins og 250 þús. kr. til tilrauna með síldveiðiaðferðir, eins og fyrr getur. Þá var tekið upp til olíusamlags Breiðafjarðar 43.600 kr. Um þetta lá erindi fyrir n., og ber að sjálfsögðu að taka þetta upp, til þess að uppfylla lagafyrirmæli. Til iðnfræðsluráða samkv. l. var gerð hækkun um 65 þús. kr. Það hafði áður verið veitt til iðnráða 10 þús. kr., en ósk kom frá ríkisstj. um að hækka þetta, til þess að uppfylla lagafyrirmæli, í 75 þús. kr. Þá er til þess að undirbúa rannsókn vegna fyrirhugaðrar sementsverksmiðju. 95 þús. kr.

Það voru gerðar nokkrar breyt. á D-lið 16. gr. Þar er lagt til, að lækkað verði um 100 þús. kr. framlagið til bortækjakaupa, en að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir breyt. á þeim lið.

Ég skal hins vegar geta þess, að þess er vænzt, að hæstv. ríkisstj. ræði við n. áður en lýkur umr. um fjárl., um það, hvort unnt sé að breyta að einhverju leyti framlaginu til nýrra raforkuframkvæmda. Mun það að sjálfsögðu verða rætt milli 2. og 3. umr. Það er talin mikil þörf á að hækka það frá því, sem er á frv. nú. En n. þótti ekki rétt að leggja til á þessu stigi málsins neitt í því efni, fyrr en vitað væri, hvernig afkoma ríkissjóðs yrði og hvernig till. væru, um tekjuöflun samkv. 2. gr. fjárl.

Þá er tekið upp hér á 17. gr. tillag til bjargráðasjóðs samkv. l., sem samþ. voru á þessu þingi, 246 þús. kr. Enn fremur er hér framlag samkv. III. kafla laga nr. 104/1943. Þar er hækkun um 175 þús. kr. Þetta er einnig gert samkv. ósk frá ríkisstj. Á síðustu fjárl. er byggingarstyrkurinn til berklahælisins í Reykjalundi 400 þús. kr. Hann hafði verið lækkaður á frv. nú í 200 þús. kr. En með tilliti til þess sumpart, að allt hefur hækkað í sambandi við rekstur spítala og byggingar, og einnig með tilliti til þess, að ef ríkissjóður hefði átt að greiða framlag til þessarar byggingar á sama hátt og framlög til annarra sjúkrahúsa, þá mundi enn vanta um 2 millj. kr. af hálfu ríkissjóðs, til þess að hann greiddi sinn hluta af kostnaðinum, miðað við styrki, sem sjúkrahús í landinu fá frá ríkissjóði, þá þótti rétt að leggja til að hækka þetta í 300 þús. kr.

17. liðurinn á 17. gr. leggur n. til, að orðist svo: Til bindindisstarfsemi eftir ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 130 þús. kr., sem er ekki breyt. frá því, sem áður var á fjárl. Lagt er til, að hækkað sé framlag til Kreppulánasjóðs bæjar- og sveitarfélaga úr 3.000 kr. í 5.500 kr. Fjvn. fékk frá Búnaðarbankanum yfirlit yfir þann reikning, sem sýndi, að hækka þyrfti framlagið í það, sem hér er gert ráð fyrir. Síðan koma hér hækkunartill., fyrst um tillag til ILO, að það verði hækkað úr 47 þús. kr. í 82 þús. kr.; þá að tillagið til UNO hækki úr 156 þús. í 272 þús., eða um 116 þús. kr. Til World Health Organization, fyrir 18.750 kr. komi 33 þús. kr. Til IRO, fyrir 108 þús. kemur 400 þús. kr. Enn fremur er tillag til Evrópuráðs 54.470 kr. — Þessar upphæðir eru allar teknar samkv. beiðni frá ríkisstj., og hefur n. tekið þær allar upp hér á frv. athugasemdalaust. Stafa þær allar sumpart frá gengisbreyt., en sumpart frá gjöldum, sem hafa verið vangreidd, að ég hygg, nokkur hluti af þeim.

Í sambandi við 18. gr. vil ég taka fram, að á henni hafa orðið nokkrar breyt. Leyfi ég mér að vísa í sambandi við þær til þskj. 611, til þess að þreyta ekki hv. alþm. á að lesa það upp. En ég vil í sambandi við þessa grein leyfa mér að henda enn einu sinni á, að það er mjög aðkallandi, að tekin sé einhver föst, ákveðin stefna í þessum málum. Það er sótt ákaflega fast á með það, að hver embættismaður, sem hættir störfum, fái full laun áfram. Og það er alveg nauðsyn á því að marka hér einhverja fasta ófrávíkjanlega stefnu í þessum málum. Það er allt of persónulegt atriði í hvert skipti fyrir fjvn. að eiga að dæma um það hverju sinni, hvort þessir menn og hinir skuli eiga að hafa meira eða minna í þessum tilfellum heldur en aðrir. Það er alveg nauðsynlegt að ákveða eitthvað fast í þessum efnum. Enn fremur væri mjög æskilegt, ef ríkisstj. tæki upp samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins í sambandi við eftirlaun og þá styrki, sem hún á að greiða, og að um þetta allt sé mynduð föst, ákveðin stefna. Það hefur verið minnzt á þetta í hvert skipti, þegar fjárl. hafa verið afgreidd, án þess þó, að nokkuð hafi á unnizt í því að marka þessa stefnu. Og ég vil, fyrir hönd fjvn., alvarlega mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. láti fara fram gagngerða athugun á þessum málum fyrir næstu fjárlagaafgreiðslu.

Á 19. gr. er lagt til að hækkað sé um 225 þús. kr. Það er til verðuppbóta á gærum frá 1943, sem sé fyrri greiðsla. Má það þykja nokkuð merkilegt, að það skuli fyrst vera tekið upp á fjárl. nú árið 1950. En fyrir fjvn. lágu skýlaus gögn um þetta, og af þeim verður ekki annað séð en að ríkissjóður sé skyldugur til þess að greiða þessar uppbætur. Hæstv. ríkisstj. hefur óskað eftir, að þessi hluti þessara greiðslna verði tekinn inn á fjárl. nú, sem mér skilst vera fyrri greiðsla af tveimur, eins og ég gat um, þannig að þessu verði skipt á tvö ár, og hefur fjvn. orðið við þeirri beiðni.

Þá er gert ráð fyrir því að hækka greiðslu vegna vaxta og afborgana af lánum — þ.e. lánum í dönskum krónum — úr 398.299 kr. í 692.000 kr. — Gert er ráð fyrir að lækka framlag til flugvallargerða og lendingarbóta fyrir flugvélar úr 2,5 millj. í eina millj. kr. — Enn fremur er lagt til að taka upp 150 þús. kr. til endurbóta á sendiherrabústaðnum í London.

Í sambandi við eignabreyt. hjá landssímanum hef ég getið þess, að ég hef lagt til, að sú till. yrði tekin aftur til 3. umr. — Rekstrarhagnaður yrði þá kr. 19.607.835,29. Sjóðsyfirlit yrði þannig, að áætlun um útborgun á rekstrarreikningi yrði kr. 242.736.783,71 og aðrar greiðslur á 20. gr. kr. 35.992.506,00, eða alls kr. 278.729.289,71. Þetta kann að lækka nokkuð, ef teknar eru aftur að fullu till. n. um eignabreyt. landssímans, um rúma eina milljón króna. Innborganir samkvæmt rekstrarreikningi eru kr. 262.344.619. Aðrar greiðslur á 20. gr. kr. 250.000, og greiðsluhalli kr. 1.388.4641,71.

Ég vil að síðustu leyfa mér að geta þess, að fyrir öllum þessum brtt. er meiri hluti í n. Einn nm., Hannibal Valdimarsson, skrifar undir nál. með fyrirvara, og mun hann gera grein fyrir afstöðu sinni við umr.Hv. minni hl. fjvn. hefur þegar gefið út sérstakt nál. Það hefur ekki komið fram mjög mikill ágreiningur í sambandi við störfin í n. frá honum. En minni hl. n. taldi sig hins vegar knúinn til þess að gefa út sérstakt nál. Hann hefur hins vegar ekki gefið út eða flutt brtt. á þessu stigi málsins, enda hefur hann verið samþykkur flestum brtt., sem bornar eru fram hér.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra frekar þessar brtt. n. Ég legg til, að þær verði allar samþ., nema því aðeins að einhverjar af þeim verði við nánari athugun teknar aftur. Og legg ég til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 3. umr.

Mér þykir þó rétt að taka hér fram, að það hefur verið rætt í n. mjög ýtarlega um að taka upp nú við þessa umr. sérstaka upphæð, 11/2 millj. kr., til þess að leysa út sjóveð samkv. heimildarl. En það varð samkomulag um að láta það bíða til 3. umr. Og hefur fjvn. hugsað að ræða það nánar við ríkisstj., en n. er sammála um að taka þetta upp samkv. þeim l., þó að það sé ekki lagt til, að það verði gert við þessa umr.