03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

38. mál, fjárlög 1950

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfáar setningar út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Hv. þm. gerði mikið úr því, að gengislækkunin hefði slæm áhrif á fjármálalífið, og las upp nokkrar tölur í því sambandi. Gallinn á því var bara sá, að hann blandaði saman hækkun vegna gengislækkunarinnar og hækkun af öðrum ástæðum, en það þarf ekki að leggjast djúpt til þess að komast að raun um, að áhrif gengislækkunarinnar á fjárl. eru ekki óhagstæð, þegar á heildina er litið, heldur þvert á móti hagstæð. Þó að útgjöld fjárl. hækki nokkuð vegna gengislækkunarinnar, hækka þó tekjur fjárl. töluvert meira vegna þeirrar sömu gengislækkunar, fyrir utan það að hefði genginu ekki verið breytt, hefði þurft að standa þarna svolítill póstur, t.d. upp á 90 milljónir, í uppbætur og annar ekki svo lítill póstur til þess að togaraflotinn gæti skriðið áfram, þannig að við gætum sagt, að þrátt fyrir gengislækkunina gæti orðið erfitt að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög, en án hennar væri það ómögulegt.

Þá deildi hv. þm. nokkuð á núv. ríkisstj. fyrir það, að hún hefði ekki gert tillögur um lækkun á einstökum liðum fjárl. í sparnaðarátt. Þessu má svara með því að vitna í það, sem hv. þm. sagði sjálfur. Hann sagði, að ekki væri hægt að liggja fjvn. á hálsi fyrir það, þó að hún hefði ekki flutt till. um þetta, þar sem svo langt væri liðið á árið, að framkvæmdin kæmi aðeins lítið fram á reikningi þessa árs. Þetta er rétt hjá hv. þm., en þar sem hann finnur, að fjvn. getur ekki gert þetta, ætti hann að skilja, að ríkisstj. getur ekki heldur gert þetta. Auk þess er nú vægast sagt ekki sanngjarnt að gera kröfu til þess, að stjórn, sem aðeins fyrir nokkrum vikum hefur setzt að völdum, sé búin að koma í framkvæmd stórfelldum samdrætti á ríkiskerfinu, sem gæti verkað á útgjöldin á nokkrum mánuðum. Það er ekki sanngjarnt að láta sér slíkt um munn fara. Hitt er annað mál, að stjórnin hefur ríkan áhuga á því að kippa þessu í lag og mun gera ráðstafanir þar að lútandi, og er þá gott að geta átt von á góðri samvinnu við hv. þm. að koma því í framkvæmd. En við getum ekki gert okkur vonir um, að það hafi áhrif á útgjöld ríkisins svo að nokkru nemi, fyrr en þá á næsta ári.

Ég vildi aðeins taka þetta fram út af athugasemdum hv. þm.