04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

38. mál, fjárlög 1950

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar með örfáum orðum að mæla fyrir brtt., sem ég er 1. flm. að og flyt ásamt þremur öðrum hv. þm. Ég afhenti skrifstofunni till. fyrir kl. 8 í gærkvöld, en henni hefur því miður ekki verið útbýtt enn. Þetta er brtt. við brtt. XVIII á þskj. 633. Till. er um það, að bæta Snorra Arinbjarnar listmálara við á brtt., þ.e.a.s. að heimila ríkisstj. að greiða Sigurjóni Ólafssyni og Snorra Arinbjarnar 15 þús. kr. í byggingarstyrk hvorum. Snorri Arinbjarnar er í hópi viðurkenndustu listamanna þjóðarinnar. Eftir hann liggur mikið verk, og hann hefur hlotið viðurkenningu, bæði hér og erlendis. Ég hygg því, að óhætt sé að segja, að hann sé mjög vel að því kominn að fá byggingarstyrk, eins og margir aðrir stéttarbræður hans hafa fengið. Vona ég, að hv. Alþ. sjái sér fært að styðja till. um það, að þeir báðir, Sigurjón og Snorri, fái þennan litla byggingarstyrk, 15 þús. kr.

Mig langar og til að minnast á brtt., sem ég er meðflm. að ásamt þremur öðrum þm. Það er VIII. brtt. á þskj. 633, sem er um það að veita Hallgrími Helgasyni tónskáldi 12.500 kr. styrk til að safna íslenzkum þjóðlögum og gefa út. Hallgrímur Helgason hefur haft þessa fjárhæð á fjárl. allmörg undanfarin ár, og það er óhætt að fullyrða, að því fé er ekki á glæ kastað. Eftir þetta unga tónskáld liggur þegar geysimikið verk. Það er hægt að telja hann meðal hinna starfsömustu og jafnframt menntuðustu og hæfileikamestu tónskálda, sem þjóðin nú á, og hann hefur þegar unnið geysimikið starf á sviði tónbókmennta, og ekki hvað sízt á því sviði, sem hann hefur hér undanfarið verið styrktur til að rækja, að safna íslenzkum þjóðlögum og gefa út. Einmitt nú nýlega hefur bætzt við frá hans hendi merkilegt verk á þessu sviði. Ég vil þess vegna leyfa mér að treysta því, að hv. Alþ. sjái sér fært að halda áfram að styrkja þessa merkilegu og nauðsynlegu starfsemi.