04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

38. mál, fjárlög 1950

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vildi gera nokkra grein fyrir brtt., sem ég á, á þskj. 633, og skal ég gera það í stuttu máli, því að till. eru skýrar og einfaldar. Fyrst er tillaga undir rómv. V um námsstyrki til Íslendinga erlendis. Samkv. upplýsingum fjárhagsráðs voru 504 Íslendingar við nám erlendis, og áætlaði ráðið fjárþörf þeirra 6.7 millj. kr. á árinu, en eftir gengislækkunina hefur þetta hækkað í 11.7 millj. kr., og mun enginn hópur manna hafa fengið svo snöggan skell af gengislækkuninni. Var á þetta minnzt, er gengislækkunarfrv. var til umr., og voru þá felldar till. til úrbáta fyrir námsfólk erlendis, en gefin vilyrði fyrir því að bæta þetta upp síðar. Nú mun það vera svo, að þessir 504 menn séu ekki allir í námi, sem ástæða er til að styrkja, og má segja, að fjárhagsráð hefur verið furðulega örlátt við að veita námsstyrki, sérstaklega í Bandaríkjunum og Sviss, þar sem námskostnaður er svo óheyrilega mikill, að hann kemst jafnvel upp í 40 þús. kr. á ári, og er stórundarlegt, að nokkrir námsmenn þoli slíkt. Menn, sem eru í löngu og erfiðu námi, senda flestir umsóknir um styrk til menntamálaráðs. Fyrir þetta ár bárust umsóknir frá 250 mönnum, sem nær allir eru í námi, sem ástæða er til að styrkja. Þessir menn fengu yfirfærðar 3.2 millj. kr. fyrir gengislækkunina, en verður eftir hana 5.6 millj. kr., svo að hækkunin nemur 2.4 millj. kr. Menntamálaráð athugaði þetta mál og lagði fyrst til að hækka styrki um 2.5 millj. kr., en það fékk ekki undirtektir, svo að menntamálaráð áætlaði annað lágmark. Þeim löndum, sem íslenzkir námsmenn helzt sækja, er skipt í þrjá aðalflokka. Í 1. flokki eru Noregur og Danmörk, þar sem ódýrast er að nema, 3 2. flokki eru Svíþjóð, Bretland og Frakkland, þar sem námskostnaður er allmikill, og loks í 3. flokki eru svo Bandaríkin, Kanada og Sviss, þar sem námskostnaðurinn er gífurlegur. Gert er ráð fyrir, að námskostnaður í Noregi og Danmörku sé sami og hér, eftir að búið er að veita styrkinn, og eru till. ráðsins miðaðar við það, og niðurstöður þess eru þær, sem ég flyt sem brtt. á þskj. 633. Þessar till. hafa ekki hlotið náð fyrir augum hæstv. ríkisstj. eða hæstv. fjvn., en menntamálaráð er þó sá aðili, sem kunnugastur er högum og þörfum námsmanna, og þótti mér því rétt að láta álit þess koma fyrir Alþingi, og er raunar varla hægt að ganga fram hjá þessum algeru lágmarkskröfum þess.

Þá er IX. liður á þskj. 633 um það, að framlag til skálda og listamanna hækki um 80 þús. kr. Þetta framlag hefur staðið í stað, á sama tíma og fjárlögin hafa stórhækkað, og er eðlilegt, að þessi upphæð hækki með fjárlögunum og aukinni dýrtíð. Till. mín gengur þó ekki svo langt, en ég vildi stilla hér í hóf, ef frekar væri þá von um að afla till. fylgis. Þá legg ég til, að ákvæðunum um skiptingu framlagsins verði breytt. Ég hef á þessu þingi flutt um þetta sérstakt frv., og rakti ég þá sögu úthlutunarinnar, sem er næsta óskemmtileg, og skal ég ekki endurtaka það hér, en þar sem ég býst ekki við, að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi, þá tek ég hér upp aðalefni þess sem athugasemd við þennan lið.

Þá er II. liður á sama þskj. um framlag til hafnarinnar í Hafnarfirði, en lagt er til í fjvn., að það verði 200 þús. kr., en nokkrir aðrir staðir eru með hærra framlag í þessu skyni. Það eru uppi miklar hafnarframkvæmdir í Hafnarfirði, og skuldar ríkissjóður Hafnarfirði hærri upphæð, en lögð er til í till. fjvn., og ég fæ ekki séð, að Hafnarfjörður eigi ekki rétt á að vera eins hár og t.d. Akranes og fleiri staðir.

Að lokum eru svo þrjár litlar brtt. Undanfarið hefur það verið svo, að Alþingi hefur veitt ýmsum listamönnum byggingarstyrk. S.l. ár var sótt um styrk fyrir Svavar Guðnason, en sú till. var felld, en ég tek hana nú upp í þeirri von, að hún verði samþ. Ég veit, að verk hans eru mjög umdeild, en í hópi yngri abstraktmálara er hann í einna mestum metum á Norðurlöndum. Hann er sem sagt mjög kunnur og duglegur listamaður, og væri það sómi fyrir Alþingi að veita honum þennan styrk. Þá er örlítið framlag til Félags íslenzkra myndlistarmanna til þess að standa straum af þátttöku í erlendum listsýningum. Þetta framlag var á fjárlögum áranna 1947 og 1948, en var af einhverjum ástæðum fellt niður s.l. ár, en félagið hefur undanfarið tekið þátt í sýningum og kostað það af eigin fé og er nú alveg komið í þrot fjárhagslega. — Loksins er till. um framlag til Hellisgerðis í Hafnarfirði. Þar hefur verið unnið mikið og gott starf, og ætti Alþingi að veita því viðurkenningu. Hafnarfjarðarbær leggur Hellisgerði 20 þús. kr., og væri skemmtilegt, að Alþingi gerðist ekki minna en hálfdrættingur við bæinn.