04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

38. mál, fjárlög 1950

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mun ekki tala langt mál; ég hef aðeins kvatt mér hljóðs vegna orða hæstv. fjmrh. í gær, en þar sem hann er ekki viðstaddur, sé ég ekki ástæðu til orðlenginga. Hann mótmælti því ekki, sem ég hélt fram, að málið væri með afbrigðum illa undirbúið. Hins vegar spurði hann, hvers vegna ég hefði ekki flutt brtt. til bóta. — Hv. 3. þm. Reykv. virtist hafa allt aðra skoðun um þá skyldu en hæstv. ráðh. Hann tók fram, sem rétt er, að ef nokkur niðurskurður á fjárlögum á að eiga sér stað, þá verður ríkisstj. að undirbúa það, en ekki þingmenn eða einstakir meðlimir þingnefnda. Þeir geta aðeins bent á ýmsa hluti, enda er það auðvelt, og má vera, að það verði gert á sínum tíma, ef ekki bólar á neinum till. í sparnaðarátt frá hæstv. ríkisstjórn.

En það var þessi spurning hæstv. fjmrh., hvers vegna við kæmum ekki með till. um sparnað. Henni hefur líka látlaust verið dengt yfir okkur í blöðum Framsfl., og það er vert að athuga, hvers eðlis hún er. Hvers konar frammistaða er það eiginlega hjá mönnunum, sem rufu stjórnarsamstarfið á s.l. sumri, að því er þeir töldu vegna þess, að þeir fengju ekki framgengt úrræðum sínum í dýrtíðarmálunum, unnu kosningar á þeim forsendum og hafa nú myndað stjórn og farið með hana um skeið — en í stað þess að koma fram með úrræði sín, auglýsa þeir eftir úrræðum stjórnarandstöðunnar? Sannleikurinn er sá, að slíkt hefur enginn ráðherra leyfi til að gera, sem sjálfur hefur tekizt þá ábyrgð á hendur.

Hæstv. ráðh. taldi sig hafa orðið eins konar píslarvott í sambandi við framlengingu á III. kafla dýrtíðarlaganna, og hafði um það píslarvætti þau orð, að ég og mínir flokksbræður hefðu notað um hann verstu ókvæðisorð tungunnar af því tilefni. Þetta er nú ofmælt. Hins vegar var hann minntur á það, að þá var með lögum verið að afnema skatt á efnaðri borgara — eignaraukaskattinn frá 1947. Og vegna þess að sá skattur var afnuminn, eru nú hátt á þriðju millj. kr. hærri útgjöld á þessum fjárlögum en ella hefði þurft að vera. Það var þetta, sem hæstv. ráðh. var minntur á.

Hv. frsm. meiri hl. n. tók hér skýrt fram, að sumir þeir gjaldaliðir, sem hér hafa verið gagnrýndir, t.d. í sambandi við viðskipta- og verðlagsmál, væru enn óafgreiddir í n., og af þeim sökum hef ég ekki komið fram með brtt. um þá liði. Svo er um eitt stærsta atriðið tekjuliði á 2. gr., að það er óafgreitt í n., og það er ekki mögulegt fyrir minni hl. n. að koma fram með sérálit, áður en n. hefur komið með sínar till.

Ég þykist hafa svarað hæstv. ráðh. nægilega og mun ekki orðlengja þetta frekar, einkum þar sem hann er hér ekki viðstaddur.