04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

38. mál, fjárlög 1950

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. formaður fjvn. hélt hér allmikinn reiðilestur bæði yfir mér og öðrum, sem gerðu athugasemdir hér, og undraði mig sá lestur hans því meira, þar sem niðurstaðan var sú hjá okkur þm. Eyfirðinga, að við mundum sætta okkur við gerðir n. Við töldum, að þeim yrði að hlíta, þar sem svo margt mundi fara úr skorðum, ef farið yrði að berjast fyrir brtt. Mig undraði því mjög hans afstaða; og ekki fann ég heldur, að hann hrekti það, sem ég sagði, enda er illt að stangast við tölur. Ég hafði borið saman nokkrar tölur úr till. fjvn., og ég tel, að það standi óhrakið, að Eyjafjörður sé þar neðarlega á blaði.

Ég hefði nú ekki farið að svara hv. þm., ef ekki hefði svo staðið á, að hann bar mig ákveðnum sökum, og eftir orðanna hljóðan voru það þungar sakir. Hann taldi, að ég bæri ábyrgð á því, að lengi fram eftir hefði lítið fé verið veitt til Barðastrandarsýslu úr ríkissjóði. Ég kannast nú alls ekki við, að ég beri sérstaka ábyrgð á þessu. Ég hef lengi haft þann sið, og að ég held síðan ég kom fyrst á þing, að styðja frekar að því en hitt, að till. fjvn. væru samþykktar, sökum þess, að sé þetta ekki gert, þá fer allt á ringulreið með afgreiðslu fjárlaga. Og viðvíkjandi Barðastrandarsýslu hygg ég, að ég hafi oftast greitt atkvæði með því, sem fjvn. lagði til hverju sinni. Ég leyfi mér því að vona, að hv. þm. taki þetta aftur, að ég hafi verið einhver sérstakur böðull Barðastrandarsýslu.

Hv. þm. bar saman nokkur héruð, ekki tölulega þó, og taldi ástandið svo gott í Eyjafirði, að hann ætti að sitja á hakanum um fjárveitingar í samanburði við önnur héruð. Eitt af því, sem hann taldi fram til stuðnings því, að Barðastrandarsýsla ætti heimtingu á miklu fé til vega og hafna, var það, að lömb væru seld þaðan til Eyjafjarðar og fleiri héraða á fæti. Ég hef nú haldið, að Barðstrendingar fengju fullt verð fyrir líflömb og engu minna en lömb til slátrunar, og sem bóndi mundi ég heldur kjósa að geta selt lömb mín til lífs. Það þarf heldur ekki sérstaklega vandaða akvegi til þess að reka eftir lömb, og gömlu göturnar munu jafnvel vera betri rekstrarleið. Ég er þó ekkert að telja það sérstaklega eftir, þótt Barðastrandarsýslu sé ætlað mikið fé til vega úr ríkissjóði; þörfin er mikil ekki síður en annars staðar, og framan af var sýslan afskipt í því efni. En það var ekki mér að kenna, heldur fyrst og fremst legu sýslunnar. Af þeim ástæðum varð hún kannske nokkuð á eftir héruðum eins og Eyjafirði. En annars er nú ekki ýkja langt síðan þar var ekki mikið um vegarspotta, sem akfærir væru bifreiðum.

Þá talaði hv. þm. um það, sem hann hefur nú vikið að stundum fyrr, að í Eyjafirði lægi þjóðvegur fram dal öðrum megin ár og aftur niður hinum megin. Ég held nú, að þetta sé reyndar ekkert einsdæmi. T.d. er Skagafjörður engu miður vegaður en Eyjafjörður, og liggur þar þjóðvegur beggja vegna Héraðsvatna, og er veitt til hans meira fé en Eyjafirði er ætlað. Á Suðurlandsundirlendi liggja vegirnir þannig ekki einasta báðum megin við árnar, heldur er þar hægt að aka hring innan í hring, og þarf ekki annað en líta á vegakortið til þess að sjá þetta. Til Barðastrandarsýslu hef ég ekki komið, svo að ég hafi séð með eigin augum, hvernig þessu er þar háttað. En hitt er víst, að síðan hv. form. fjvn. tók við þeirri stöðu, þá hefur sú sýsla langt frá því verið afskipt um framlög til vegalagninga.

Þá vildi hv. þm. telja Öxnadalsheiði til Eyjafjarðar. Ég fullyrði nú, að það eru a.m.k. fleiri reykvískir bílar, sem fara um Öxnadalsheiði, heldur en bílar frá Akureyri. Vegalagning þar er alþjóðarmál, en ekki sérmál Eyjafjarðar. En eigi sá vegur að teljast til Eyjafjarðar, þá sýnir það aðeins hug hv. form. fjvn. til þess héraðs, að framlagið til Öxnadalsheiðar vegar mun hafa verið lækkað frá því, sem upphaflega var ætlað. Og ekkert hef ég raunar við það að athuga. Ég læt svo útrætt um þetta, enda engin þörf að ræða það frekar, þar sem engin krafa liggur fyrir í þessum efnum. — En ég get ekki stillt mig um að koma lítillega að ræktunarvegunum. Hv. form. fjvn. gerði enga tilraun til að sanna, að rétt væri, að Hrísey væri miklu lægri en Flatey, en rökin fyrir því, að svo væri, sagði hann að væru þau, að svona hefði þetta verið í fyrra. Ef því væri fylgt í mannsaldra, að svona hefði það verið í fyrra, hvernig væri þá statt með vegina í Barðastrandarsýslu? Ég held, að það yrði skrýtin útkoma úr því, ef haga ætti afgreiðslu fjárlaga á þann hátt. Þá sagði hv. form., að ekki hefði verið hægt að hækka fjárveitinguna til Hríseyjar, nema hækka fjárveitinguna í heild. Ég vil neita þessu. Það er engin ástæða til þess, að Vestmannaeyjar fái endilega 30 þús. kr. og Flatey 10 þús. kr., og hefði aðeins þurft að taka lítið af þeim hvorri fyrir sig, til þess að Hrísey hefði fengið örlitið meira. Hv. form. fjvn. sagði að Flateyingar hefðu tekið á sig stórar fórnir í öðrum efnum, en ég vil þá taka það fram, að Hríseyingar hafa nú í hyggju að koma upp hjá sér höfn, og það geta þeir ekki gert án þess að leggja mikið á sig. Þá hefur hv. form. misskilið það, sem ég sagði, að mér hefði ekki verið gefinn kostur á að ræða þetta við n. og mundi ekki sætta mig við till. n. í þessum efnum. Ég gekk inn á að sætta mig við vegina og þeir nm.. sem ég átti kost á að ræða við, þ.e. fulltrúar Framsfl., sögðu, að ekki væri búið að ganga frá fjárveitingum til ræktunarveganna. — Ég vil svo þakka hv. form., að hann hefur boðið mér að ræða við sig um þau mál, sem ég vilji, en þar sem þetta hefur ve;ið rætt á flokksfundi í Framsfl. og sennilega einnig í Sjálfstfl., þá er eðlilegast að afgreiða það þar. Ég vil hærri fjárveitingu til ræktunarvegar í Hrísey, og það liggur fyrir ósk um það í fjvn., að upphæð sú, sem til þess er varið, verði þrisvar sinnum hærri, en nú er.

Ég vil þá þakka hv. form. fjvn., að hann tók vel í brtt. mína um styrk til Þorfinns Kristjánssonar í Kaupmannahöfn og viðurkenningarorð um þann mann. Starf hans hefur verið unnið í óeigingjörnum tilgangi, en ég er ekki sammála hv. þm. um það, að verði till. þessi samþ., sé verið að marka nýja stefnu í þessum efnum, því að ég veit ekki betur en oftar en einu sinni hafi Íslendingum í Ameríku verið boðið heim á kostnað ríkisins. Og það, sem Þjóðræknisfélagið í Vesturheimi fær, er ekki óskylt þessu, svo að ég fæ ekki séð, að hér sé verið að marka neina nýja stefnu. Ég hef ekkert manntal yfir það, hve margir íslendingar séu í hverju landi, en ég held, að fyrir utan Bandaríkin og Kanada séu þeir flestir í Danmörku, og við höfum haft meiri skipti við þá og meira gagn af Íslendingum búsettum þar, en nokkrum öðrum, og það held ég að allir muni vera sammála um. Ég væri fús til að taka till. mína aftur, ef ég sæi einhverja aðra leið til þess, að Þorfinnur fengi þennan styrk. Hv. form. benti á sáttmálasjóð, en ég held, að hann muni varla veita styrk í þessu skyni. Hann er undir stjórn háskólans, og ég held eingöngu varið fé úr honum í vísindaskyni. Það mætti athuga þetta milli umr., og ef ég sæi, að líklegt væri, að hægt væri að ná þessu takmarki með öðru móti, þá mundi ég taka till. aftur að fullu, en nú er hún aðeins tekin aftur til 3. umr.