14.03.1950
Sameinað þing: 34. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

Stjórnarskipti

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Háttvirtir alþingismenn. Nú undanfarið hafa staðið yfir samningsumleitanir milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um myndun ríkisstjórnar í sambandi við lausn aðkallandi vandamála. Þessar samningsumleitanir hafa nú borið þann árangur, að mynduð hefur verið ríkisstjórn, sem skipuð er fulltrúum þessara tveggja flokka og hefur stuðning þeirra.

Á fundi ríkisráðs í morgun gaf herra forseti Íslands út svo hljóðandi forsetaúrskurð um ríkisstjórn og skiptingu starfa milli ráðherra o. fl.: „Forseti Íslands gerir kunnugt:

Samkvæmt 15. gr. stjórnarskrárinnar og tillögu forsætisráðherra set ég hér með eftirfarandi ákvæði um skipun og skiptingu starfa ráðherra o. fl.:

I. Forsætisráðherra Steingrímur Steinþórsson. Undir hann heyra eftirgreind mál: Stjórnarskráin, Alþingi, nema að því leyti sem öðruvísi er ákveðið, almenn ákvæði um framkvæmdastjórn ríkisins, skipun ráðherra og lausn, forsæti ráðuneytisins, skipting starfa ráðherranna, mál, sem varða stjórnarráðið í heild, hin íslenzka fálkaorða og önnur heiðursmerki, Þingvallanefnd og mál, er varða meðferð Þingvalla, ríkisprentsmiðjan Gutenberg og ríkisbúið á Bessastöðum. Félagsmál, þar undir alþýðutryggingar, atvinnubætur, vinnudeilur, sveitarstjórnar- og framfærslumál. Félagsdómur. Almenn styrktarstarfsemi, þar undir styrkveitingar til berklasjúklinga og annarra sjúklinga, sem haldnir eru langvinnum sjúkdómum, sjúkrasjóðir, ellistyrktarsjóðir, öryrkjasjóðir, slysatryggingasjóðir, lífsábyrgðarsjóðir og aðrir tryggingasjóðir, þar með talið Brunabótafélag Íslands, nema sérstaklega séu undanteknir. Byggingarfélög. Enn fremur heilbrigðismál, þar á meðal sjúkrahús og heilsuhæli.

II. Ráðherra Bjarni Benediktsson. Undir hann heyrir dómskipun, dómsmál, önnur en félagsdómur, þar undir framkvæmd refsidóma, hegningar- og fangahús, tillögur um náðun, veiting réttarfarslegra leyfisbréfa, málflutningsmenn, lögreglumálefni, þ. á m. gæzla landhelginnar, áfengismál, strandmál, sifjaréttarmál, erfðaréttarmál, persónuréttarmál, eignarréttarmál, yfirfjárráðamál, lög um kosningar til Alþingis og kjördæmaskipting, umsjón með framkvæmd alþingiskosninga, ríkisborgararéttur, útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, húsameistari ríkisins, verzlunarmál, sem ekki eru í úrskurði þessum falin öðrum ráðherrum, þar undir verzlunarskólar. Enn fremur utanríkismál.

III. Ráðherra Björn Ólafsson. Undir hann heyra menntamál, þar undir skólar, sem ekki eru sérstaklega undanteknir, útvarpsmál og viðtækjaverzlun, barnaverndarmál, Menntamálaráð Íslands, leiklistarmál og kvikmyndamál, skemmtanaskattur. Viðskiptamál, önnur en utanríkisverzlun. Bankar, sparisjóðir, gjaldeyrismál og verðlagsmál. Enn fremur flugmál, þ. á m. flugvallarekstur. Póst-, síma- og loftskeytamál.

IV. Ráðherra Eysteinn Jónsson. Undir hann heyra fjármál ríkisins. Þar undir skattamál, tollamál og önnur mál, er varða tekjur ríkissjóðs, svo sem ef verzlun er rekin til að afla ríkissjóði tekna, undirskrift ríkisskuldabréfa, fjárlög, fjáraukalög og reikningsskil ríkissjóðs, hin umboðslega endurskoðun, embættisveð. Eftirlit með innheimtumönnum ríkisins, laun embættismanna, eftirlaun, lífeyrir embættismanna og ekkna þeirra, peningamál, þar undir peningaslátta. Yfirleitt fer þessi ráðherra með öll þau mál, er varða fjárhag ríkisins eða landsins í heild, nema þau eftir eðli sínu eða sérstöku ákvæði heyri undir annan ráðherra. Hagstofan. Mæling og skrásetning skipa.

V. Ráðherra Hermann Jónasson. Undir hann heyra landbúnaðarmál, þar undir ræktunarmál, þ. á m. skógræktarmál og sandgræðslumál, búnaðarfélög, búnaðarskólar, garðyrkjuskólar, húsmæðraskólar í sveitum, dýralækningamál, þjóðjarðamál, Búnaðarbanki Íslands. Enn fremur rafmagnsmál, þ. á m. rafmagnsveitur ríkisins og rafmagnseftirlit, vatnamál, þar undir sérleyfi til vatnsorkunotkunar, jarðboranir eftir heitu vatni og gufu. Námurekstur. Kaupfélög og samvinnufélög. Atvinnudeild háskólans. Rannsóknaráð ríkisins. Kirkjumál. Samgöngumál, sem eigi eru í úrskurði þessum falin öðrum ráðherrum, þar undir vegamál.

VI. Ráðherra Ólafur Thors. Undir hann heyra sjávarútvegsmál, þar undir Fiskifélagið og fiskimálasjóður, síldarútvegsmál (síldarverksmiðjur og síldarútvegsnefnd), svo og öll önnur atvinnumál, sem eigi eru í úrskurði þessum falin öðrum ráðherrum. Utanríkisverzlun. Landssmiðjan. Mælitækja- og vogaráhaldamál. Atvinna við siglingar. Stýrimannaskólinn. Skipaskoðun ríkisins. Vitamál. Hafnarmál. Iðnaðarmál þar undir iðnskólar, iðnaðarnám, iðnfélög. Eftirlit með verksmiðjum og vélum. Einkaréttarleyfi. Veðurstofan.

Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafundi halda, ef einhver ráðherra æskir að bera upp mál.

Með úrskurði þessum er úr gildi felldur forsetaúrskurður frá 6. desember 1949, um skipun og skipting starfa ráðherra o. fl.

Gert í Reykjavík, 14. marz 1950.

Sveinn Björnsson.

Steingr. Steinþórsson.

Forsetaúrskurður um skipun og skipting starfa ráðherra o. fl.“

Það er samkomulag, að forsætisráðherra beiti ekki þingrofsvaldi, nema með samþykki beggja stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar eða ráðherra þeirra.

Það er háttvirtum alþingismönnum og alþjóð kunnugt, að útflutningsframleiðsla landsmanna er nú þannig á vegi stödd, vegna verðbólgu innanlands og erfiðleika á sölu íslenzkra afurða erlendis, að alger stöðvun þessarar framleiðslu virðist vera yfirvofandi og þar með stórfelldur samdráttur í utanríkisviðskiptum, — samfara atvinnuleysi innanlands, — nema gripið sé til róttækra aðgerða. Undanfarin ár hefur verulegum og vaxandi hluta af útflutningnum verið haldið uppi með útflutningsuppbótum úr ríkissjóði, jafnframt því, sem fé hefur verið varið til að halda niðri verðlagi innanlands. Sú leið, að halda útflutningsframleiðslunni uppi með sívaxandi greiðslum úr ríkissjóði, er nú þegar orðin ríkissjóði ofviða — og ekki fær lengur, og mun það nú almennt viðurkennt með þjóðinni, að svo sé.

Þær róttæku aðgerðir, sem óhjákvæmilegar eru til að rétta útflutningsverzlunina við og gera hana samkeppnisfæra, geta ekki orðið á annan veg en þann, að niður komi með nokkrum þunga á öllum þegnum þjóðfélagsins, og má raunar segja, að slíkir erfiðleikar fyrir alþýðu manna séu að verulegu leyti þegar fram komnir, en hljóta hins vegar mjög að vaxa og verða óviðráðanlegri, sé ekkert að gert. Ætti þá ekki að vera áhorfsmál, að betra sé fyrir almenning að freista þess að koma einhverri sæmilegri skipan á þau mál samhliða erfiðleikum, en að þola erfiðleikana eina, án þess að nokkur tilraun sé gerð til varanlegra umbóta á ástandinu.

Ríkisstjórnin er fyrst og fremst mynduð til þess að koma á, eftir því sem unnt er, jafnvægi í viðskipta-, atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar.

Í þessu skyni hafa stuðningsflokkar ríkisstj. samið um afgreiðslu á frumvarpi því, er nú liggur fyrir Alþingi um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o. fl., með breytingum, sem nánari grein verður gerð fyrir síðar og samkomulag hefur náðst um milli stuðningsflokka ríkisstj.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því af alefli, að fjárlög verði samþ. án greiðsluhalla og að lausaskuldir ríkisins verði lækkaðar eftir megni.

Með stóreignaskatti þeim, er stuðningsflokkar ríkisstj. hafa samið um, verður efnuðustu borgurum þjóðfélagsins gert að leggja fram allverulegan hluta af eignum sínum til að mæta erfiðleikum þeim, sem fram undan eru, og verður allmiklu af því fé varið til að greiða úr húsnæðismálum almennings með byggingu verkamannabústaða og tryggja fjármagn til íbúðarhúsabygginga í sveitum, en að öðru leyti til að létta skuldabyrði ríkisins og þar með árleg útgjöld, sem af henni stafa.

Ríkisstj. er það ljóst, að lífskjör almennings hér á landi eru ekki það rúm, að þeir, sem lágar tekjur hafa, megi vel við því að taka á sig auknar byrðar.

Ríkisstj. er því staðráðin í því að gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að þær byrðar, sem almenningur kann að þurfa að taka á sig vegna leiðréttingar á hinu skráða gengi krónunnar, verði sem minnstar, og óskar í því sambandi að hafa samráð og samstarf, svo sem verða má, við stéttarsamtök almennings og forustumenn þeirra.

Flokkar þeir, sem nú hafa tekið höndum saman um myndun ríkisstjórnar og lausn aðkallandi vandamála, hafa löngum staðið á öndverðum meið í íslenzkum stjórnmálum, enda eru sjónarmið þeirra ólík í mörgu.

En vegna þess mikla vanda, sem Alþingi og þjóðinni er nú á höndum, hafa þeir nú talið sér skylt að sameina krafta sína, eftir því sem unnt er, í trausti þess, að með þeim hætti mætti fremur takast að afstýra þjóðarvoða.

Enginn sanngjarn maður getur neitað því, að erfiðlega horfi um margt varðandi hag og afkomu þessarar þjóðar og að þörfin sé meiri nú en áður á traustu samstarfi um úrlausn hinna aðsteðjandi vandamála. Þegar flokkur minn skoraði á mig að mynda þessa ríkisstjórn og Sjálfstfl. féllst á, að Framsfl. hefði forsætisráðherrann, taldi ég mér ekki fært að neita því. Ég tekst þetta á hendur í þeirri von, að með þessu samstarfi megi takast að sigrast á þeim örðugleikum, sem nú ógna hag þjóðarinnar, — og treysti ég því, að ríkisstjórnin njóti skilnings og velvildar sem flestra þegna þjóðfélagsins í þessari viðleitni sinni.