14.03.1950
Sameinað þing: 34. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

Stjórnarskipti

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það þarf varla að taka það fram, svo mjög sem það liggur í augum uppi eftir stjórnmálaþróun síðustu mánaða, að Alþfl. hvorki styður þá stjórn, sem nú sezt að völdum, né veitir henni hlutleysi. Og þar sem ríkisstj. er fyrst og fremst til þess mynduð að knýja í gegn á Alþingi það gengislækkunarfrumvarp, sem fyrrv. ríkisstj. lagði fram og Alþfl. hefur lýst sig andvígan, þá leiðir það einnig rökrétt af þeirri mótuðu afstöðu flokksins, að hann er andstæður þeirri ríkisstjórn, sem mynduð er í þessu skyni.

Eins og alkunnugt er fóru fram vantraustsumræður hér á Alþingi fyrir tæpum tveim vikum. Hæstv. núverandi landbrh, Hermann Jónasson, og hæstv. núv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, fluttu þá vantraust á ríkisstjórn þá, er hæstv. núverandi atvmrh., Ólafur Thors, veitti forstöðu, en þar áttu þá einnig sæti hæstv. núverandi og þáverandi utanrrh., Bjarni Benediktsson, og hæstv. núv. og þáv. viðskmrh., Björn Ólafsson. Þá lá fyrir Alþingi, flutt af fyrrv. ríkisstjórn, gengislækkunarfrv. það, sem núv. ríkisstj. er mynduð til þess að fá samþ. Við Alþýðuflokksmenn lýstum þá yfir því við þessar vantraustsumræður, að okkur undraði nokkuð aðfarirnar á milli borgaraflokkanna, þar sem annar flutti vantraust á stjórn hins, en bak við lá það, sem nú er fram komið, að sameinast á eftir um stjórn. Hefur vantraustið þannig snúizt í traust á milli hinna áður stríðandi enn nú samstarfandi aðila. Orðaði hv. þm. Hafnf., Emil Jónsson, það þannig við vantraustsumræðurnar, að Framsfl. væri að berja Sjálfstfl. til ásta. Þetta virðist hafa tekizt. Tíminn mun svo leiða það í ljós, hversu haldgóður kærleikurinn verður og hversu vel hann þolir hina hversdagslegu gráu stjórnmálabaráttu og hvort afbrýðiseminni verði haldið í hóflegum skefjum í sambúðinni.

Alþýðuflokkurinn mun eins og endranær móta afstöðu sína til mála ríkisstjórnarinnar í samræmi við yfirlýsta stefnu sína og starfsaðferðir og ljá öllum þeim málum lið, er hann telur til heilla horfa, en berjast gegn þeim, er til óþurftar snúa fyrir alþýðu landsins. Afstaða hans verður eins og áður mótuð af málefnunum.

Alþfl. væntir þess, að núv. ríkisstj. haldi þeirri stefnu í utanríkismálum og afstöðu til ofbeldis- og einræðishneigða kommúnista, er hann fær við unað. Ætti það að vera nokkur trygging í þessu efni, að sá ráðherra fer áfram með utanríkismál, sem áður hefur haft þau með höndum í ríkisstjórn undir forustu Alþfl. og í góðu samkomulagi við hana. Og þó einhver ný og andstæð sjónarmið í utanríkismálum kynnu nú að skjóta upp kollinum í ríkisstj., þá er þess að vænta, að þeirra gæti ekki í utanríkisstefnunni.

Mun Alþfl. svo bíða og sjá, hvað setur, og á Alþingi standa vörð um markaða stefnu sína.