10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

38. mál, fjárlög 1950

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. um nýjan lið í 22. gr., þar sem heimilað sé:

„Að veita útvegsmönnum, er síldveiðar stunduðu fyrir Norðurlandi sumurin 1948 og 1949, eftirgjöf að nokkru eða öllu leyti á aðstoðarlánum þeim, sem Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands h.f. veittu nefnd sumur með ábyrgð ríkissjóðs, svo og sjóveðskröfum frá síldarvertíð sumarið 1949, sem ríkissjóður kann að greiða samkvæmt heimild í þessa árs fjárlögum. Skilyrði fyrir þessari eftirgjöf eru þau sömu og um ræðir í 14. gr. laga nr. 100/1948.“

Þessi skilyrði, sem setja á, eru kunn af gildandi l., og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þau hér. Ég hygg, að upphæðin verði nálega 3.5 millj. kr., aðstoðin frá 1948 nemur 640 þús. kr., frá 1949 1.300 þús. kr., og svo þarf að auki upphæð til að leysa af sjóveð, sbr. 15. brtt. á þskj. 699. Einnig er hv. þm. kunnugt um, að hér eru enn gamlar sakir óuppgerðar, þar sem eru kreppulánin, sem námu 1946 4 millj. kr., 1947 5 millj. kr. og 1948 7.5 millj. kr., eða alls 16.5 millj. kr. Þar við bætast svo 3.5 millj. kr., sem ég gat áðan, svo að alls verður þetta um 20 millj. kr., og þarf að binda endi á þessi mál hið bráðasta. Skilanefndin starfar enn, en þó hafa engar endanlegar ákvarðanir verið teknar. Ég hef haft tækifæri til að athuga gögn málsins og hef af þeim getað myndað mér ákveðna skoðun. Ég hefði haft mesta tilhneigingu til þess, að ríkissjóður gæfi öll þessi lán eftir með þeim skilyrðum, að viðkomandi aðilar sönnuðu, að þeir þyrftu eftirgjafar með, og enn fremur, að þeir gætu haldið áfram að reka útgerð, a.m.k. eina vertíð. Þarna koma mörg önnur sjónarmið til greina, og mitt sjónarmið strandaði þegar á því, að Landsbankinn taldi sér ekki fært að segja skoðun sína um rekstrarlán handa þessum útgerðarmönnum, fyrr en hann hefði sannfærzt um ástæður þeirra með innköllun skulda. Mitt sjónarmið strandaði því þegar á þessu. Af þessu hefur þótt nauðsynlegt að safna skýrslum um ástandið og ákveða síðan, hvernig skuldaskil skuli fram fara. Lögin frá 1948 gera aðallega ráð fyrir frjálsum skuldaskilum, og ríkisstj. mun ekki gera till. um að þröngva mönnum til skuldaskila, a.m.k. ekki fyrr en frekari gögn liggja fyrir í málinu. Margir útvegsmenn hafa óskað eftir að fá þessi lán eftirgefin, svo að þeir geti gert skuldaskil við aðra, en samkv. gildandi l. hafa þessir aðilar greiðslufrest, eða „moratorium“, og ef kemur til innköllunar skulda og afnáms greiðslufrests, þá er ástæða ,til að ætla, að ýmsir aðrir kröfuhafar geri skuldakröfur, og gæti þetta torveldað síldarvertíð á komandi sumri. Hins vegar er ljóst, að slíkt „moratorium“ getur ekki staðið í það óendanlega, og hefur það nú raunar staðið lengur en nokkurn óraði fyrir í öndverðu. Og tilgangur ríkisstj. er að koma þessum málum í viðunandi horf sem fyrst, og vænti ég, að skuldaskilum geti orðið lokið fyrir 1. okt. n.k. og að stj. gefi þá út tilkynningu um, að „moratorium“ verði ekki í gildi nema nokkrar vikur frá þeim tíma.

Ef síldveiði verður bærileg í sumar og verðið hátt, þá er viðhorfið breytt hvað marga útgerðarmenn snertir, þó að hins vegar verði ekki komizt hjá skuldaskilum, ef veiðarnar bregðast í sjötta skiptið. Það er því ekki hyggilegt, að ríkissjóður gefi eftir sínar kröfur ná, heldur á ríkið að eiga sinn fulla rétt móti öðrum.

Ég vona, að till. fái góðar undirtektir, og vil taka það fram, að ráðuneytið leggur sérstaka áherzlu á að innleysa sjóveðskröfurnar frá 1949. Ég hygg svo, að ég hafi ekki frekari upplýsingar að gefa á þessu stigi málsins.