10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

38. mál, fjárlög 1950

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Andstöðuflokkar ríkisstjórnarinnar hafa talað. þeir hafa lýst ástandinu, eins og þeir telja það vera, — og það er ófagurt. En hverju eru vesalings mennirnir að lýsa nema afleiðingum sinnar eigin stjórnarstefnu, sínum eigin viðskilnaði, því að núverandi stjórn hefur aðeins stjórnað fáar vikur? Var það ekki Alþfl., sem hafði stjórnarforustuna þrjú síðustu árin og var allra flokka ánægðastur með stefnuna? Með ádeilunni eru þessir flokkar því fyrst og fremst að löðrunga sjálfa sig. Það, sem við nú þurfum að vita og athuga til þess að dæma rétt í stjórnmálum, er þetta:

1. Við hvaða erfiðleikum tók ríkisstjórnin?

2. Hvaða leiðir voru tiltækar, og var valin sú rétta?

3. Hverjir gátu sameinazt um lausn mála, eins og á sér stað?

Ég mun nú gera grein fyrir þessum atriðum og á hvaða rökum Framsfl. reisti afstöðu sína. Engum, sem gefið hefur aðvörunum Framsfl. gaum undanfarin ár, getur komið á óvart öngþveitið í fjármálum og atvinnumálum. Engum, sem hlustað hefur á sömu rök, getur heldur dulizt, að leiðin út úr þessum ógöngum er torfarin og mjög tvísýn. Við framsóknarmenn skýrðum þjóðinni frá þessum afleiðingum þegar, er hin svokallaða nýsköpunarstefna, fjárfestingin mikla, hófst. Við gerðum þjóðinni það ljóst á s.l. vori, að þar væri nú komið, að niðurgreiðsluleiðin væri ófær orðin og grípa yrði til nýrra aðgerða, gengislækkunar eða niðurfærslu, til þess að reyna að bjarga. En við sögðum, að jafnframt því, sem skert yrðu kjör launamanna, verkamanna og bænda, yrðu stóreignamenn einnig að fórna, verzlunina yrði að lagfæra, húsaleigu yrði að lækka, verðlagseftirlitið þyrfti að komast í hendur neytenda og refsingar fyrir svartamarkaðsbrask og okur yrði að þyngja.

Þegar á þing kom á s.l. hausti, blasti við sú mynd af þjóðfélagi, sem stjórnarstefnurnar og fyrsta stjórn Alþýðuflokksins á Íslandi skildi eftir sig:

1. Bátaútvegurinn var gjaldþrota, en látinn skrimta með því að lögbjóða, að enginn mætti ganga eftir neinum skuldum hjá honum.

2. Gömlu togararnir höfðu verið stöðvaðir í langan tíma.

3. Nýsköpunartogararnir — blómi framleiðslunnar — voru að verða gjaldþrota og margir komnir í botnlausar vanskilaskuldir, en stöðvun yfirvofandi, ef þeir fengju ekki uppbætur á útflutningsvöruna.

4. Ríkissjóður, sem hafði greitt niður framleiðsluvörurnar og greitt uppbætur á útflutningsvörurnar, var kominn gersamlega í þrot, enda komst það upp, að hann hafði safnað 175 millj. kr. skuldum á síðustu árum. Veltuskatturinn, tollarnir, gjaldeyrisskatturinn o.s.frv., samtals um 70 millj., sem þjóðinni hafði verið sagt að væri innheimt til þess að greiða niður framleiðsluvörurnar innanlands og verðbæta útflutningsvörurnar, hafði farið í eyðslu. Uppbæturnar og niðurgreiðslurnar höfðu verið teknar að láni og voru nú samansafnaðar vanskilaskuldir. En þessu var vitanlega ekki hægt að halda áfram lengur, af þeirri einföldu ástæðu, að ríkissjóður fékk hvergi lán og var kominn í þrot.

Ef ekkert var gert og ekki samkomulag um neitt á Alþingi, ef allir hefðu gefizt upp við björgunartilraunirnar, eins og Alþfl., eftir að stýrt hafði verið út á foraðið, stöðvaðist framleiðslan, almennt atvinnuleysi dundi yfir, útflutningurinn stöðvaðist af sjálfu sér og þar með innflutningurinn, kaupgreiðslur til opinberra starfsmanna hættu og almennur skortur og gjaldþrot héldu innreið sína. Þetta er það, sem víða hefur gerzt, þegar illa hefur verið stjórnað og kreppan læknar sig sjálf. Eftir nauðungaruppboð og langvarandi neyð lækka framleiðslutækin í verði og kaupgjaldið einnig, þar til framleiðslan ber sig og sígur af stað aftur.

Framsfl. vildi ekki, með því að neita að taka á sig ábyrgð, láta þessa neyð koma yfir þjóðina, án þess að reyna úrræði til að afstýra slíkum voða. En hverjar voru leiðirnar til þess?

1. Fræðilega var hugsanlegt að halda uppbótagreiðslum áfram, en það mundi hafa kostað í nýjum tollum og sköttum mikið á annað hundrað milljónir króna, eftir að fiskur féll svo mikið í verði, að nýju togararnir hættu einnig að bera sig. Allir stjórnmálaflokkar játuðu, að athuguðu máli, að dýrtíðin væri nú komin svo langt, að þessi leið væri gersamlega ófær orðin.

2. Niðurfærsluleiðin var athuguð, og komust allir hagfræðingarnir að þeirri niðurstöðu, að með henni væru þyngri byrðar lagðar á allan almenning, en með gengisbreytingunni, auk þess sem hún mundi lítt framkvæmanleg hér á landi.

3. Þá var gengislækkunarleiðin ein eftir, og hún var valin, eftir nákvæma athugun sérfróðra manna.

En þá kom spurningin: Með hverjum átti Framsfl. að framkvæma gengisbreytinguna þannig, að hún væri sem réttlátust fyrir almenning og í mestu samræmi við það, sem Framsfl. hafði barizt fyrir í síðustu kosningum? Framsfl. hefur hvorki meiri hluta á Alþingi með Alþfl.Sósfl. og gat því með hvorugum þessara flokka myndað meirihlutastjórn. Þegar af þessum ástæðum var stjórnarmyndun Framsfl. með öðrum hvorum þessara flokka útilokuð. En samkomulagið milli Alþfl. og Sósfl. er þannig, að samstarf milli þeirra er algerlega útilokað, og stjórnarmyndun með þessum flokkum tveimur sameiginlega er því óframkvæmanleg. Svo grómteknir af hatri hvor til annars eru þessir flokkar, að þeir geta ekki einu sinni, báðir í stjórnarandstöðu. komið sér saman um kröfurnar á kröfuspjöldin 1. maí né að ganga saman á götu nokkra metra. Það má renna grun í, hvernig samstarf svona flokka yrði í ríkisstjórn.

Framsfl. telur stefnuskrár Framsfl. og Alþfl. svo líkar og hagsmuni kjósendanna í báðum flokkunum svo sameiginlega, að ef við það er miðað, ætti að vera auðvelt fyrir þessa flokka að koma sér saman um lausn allra vandamála. Framsfl. sneri sér því til Alþfl. þegar á s.l. hausti og fór þess á leit, að þessir flokkar mynduðu minnihlutastjórn, sem víst þótti að forseti Íslands mundi fallast á, þar sem á bak við slíka stjórn stóð mun fleira af þingmönnum, en bak við minnihlutastjórn Sjálfstfl. Við stungum upp á því, að þessi stjórn léti skeika að sköpuðu um málin. Ef hún yrði felld, skyldu flokkarnir ganga til kosninga í samstarfi og bandalagi. Og auðvelt er að sýna fram á, að allar líkur voru til þess, að þeir hefðu fengið hreinan meiri hluta saman. Alþfl. neitaði þessu. — Þá fór Framsfl. fram á það við Alþfl., að þessir tveir flokkar semdu um aðalmálin, mynduðu blokk í þinginu og byðu síðan öðrum samstarf um þá stefnu, er þeir sameiginlega mörkuðu, en ef ekki yrði gengið að þessari stefnu af hinum flokkunum, beittu þeir sér fyrir því, að þing yrði rofið og kosið, og skyldu þeir þá hafa samstarf og freista þannig að vinna meiri hluta fyrir stefnu sinni. Alþfl. neitaði þessu líka. Hann tjáði okkur, að hann væri á móti gengislækkun, á móti niðurfærslu og játaði, að niðurgreiðslu- og uppbótarleiðin væri lokuð eins og komið væri. Við spurðum flokkinn, hvort hann vildi benda á einhverjar leiðir út úr því neyðarástandi, sem nú væri komið í, en flokkurinn kvaðst ekki ætla að taka þátt í neinu fyrst um sinn. Þessi voru svör Alþfl. síðastl. haust, og þau voru söm, þegar Framsfl. leitaði til hans eftir bæjarstjórnarkosningarnar í vetur. Það var því þrautreynt og margreynt af Framsfl., að þeir kostir einir voru fyrir hendi, er nú skulu taldir:

1. Að kasta öllu frá sér, eins og Alþfl., og láta allt stöðvast, með þeim afleiðingum, sem áður er lýst.

2. Að láta minnihlutastjórn Sjálfstfl. fara með völd, sem raunverulega var sama og láta allt stöðvast, því að vitanlega gat slík stjórn ekki ráðið við erfiðleikana.

3. Að Framsfl. og Sjálfstfl. semdu.

4. Að stuðla að utanþingsstjórn, ef ekki næðust þolanlegir samningar.

Framsfl. hafnaði fyrstu og annarri leiðinni. Við töldum okkur ekki fært að leggja hendur í skaut og bíða unz Alþfl. kynni að vilja taka þátt í einhverju eða sósíalistar hyrfu frá Moskvalínunni. Eftir að stjórn Sjálfstfl. var felld, skýrði ég forseta Íslands frá því munnlega, þegar í stað, að ég teldi ólíklegt, að meirihlutastjórn yrði mynduð. Eftir að samningar við Sjálfstfl. höfðu strandað, gaf ég forsetanum um þetta ýtarlega skriflega skýrslu og benti á, að utanþingsstjórn virtist eina leiðin, eins og komið væri. með því að óhægt væri fyrir Framsfl. að mynda minnihlutastjórn, eins og málum væri þá komið, þó að flokkurinn vildi ekki skorast undan því, ef allt þryti. En Framsfl. bauðst þá jafnframt til þess að leysa gengismálið eitt út af fyrir sig, ef hann hefði fulla tiltrú til forsætisráðherrans í utanþingsstjórn og sá ráðherra lýsti yfir á Alþingi, að það yrði ekki rofið eða því slitið fyrr, en það hefði tekið afstöðu til þeirra mála, sem Framsfl. lagði áherzlu á í sambandi við gengisbreytinguna. Með þessu myndaðist nýr möguleiki fyrir utanþingsstjórn að koma gengismálinu fram, og stóð forseti Íslands í samningum við Vilhjálm Þór um að mynda slíka stjórn. Var Vilhjálmur Þór kominn langt áleiðis með myndun slíkrar utanþingsstjórnar, og hafði Framsfl. tjáð sig reiðubúinn til að eiga samstarf við hana. — En þá óskaði Sjálfstfl. eftir samningsviðræðum við Framsfl. að nýju — og með því að Vilhjálmur Þór var þess hvetjandi, að þær viðræður væru upp teknar, var orðið við þeim tilmælum, með þeim árangri, sem kunnur er.

Framsfl. var það að sjálfsögðu ljóst, hvílík niðurlæging það var fyrir Alþingi að geta ekki myndað stjórn, og honum var jafnljóst, að utanþingsstjórn gat ekki starfað, nema semja við þingflokkana um afgreiðslu mála, þ. á m. um afgreiðslu fjárlaga og margt fleira, en allt var í óvissu um það, hvernig flokkarnir mundu nota sér aðstöðu sína í slíkum samningum. En Framsfl. kaus þó utanþingsstjórn heldur en að ganga að þeim samningum, sem hann hafði til þessa tíma átt kost á. En í þeim samningum, sem Framsfl. að lokum náði í síðustu atrennu, var hins vegar ákveðið:

a. Að ríkisstjórnin væri mynduð undir forsæti Framsfl.

b. Framsfl. fékk því ákvæði breytt, að skattur á fasteignir væri lagður á sjóði samvinnufélaga, og kom því til vegar, að sjóðunum var deilt niður á raunverulega eigendur þeirra, samvinnumennina, og síðan skattlagt samkvæmt þeirri reglu, og nemur þessi réttláta leiðrétting allmörgum milljónum fyrir samvinnufélögin.

c. Framsfl. hefur einatt skýrt þjóðinni frá því, að gengisbreyting, þar sem 80–100 millj. kr. eru fluttar til útgerðarinnar frá öðrum þegnum þjóðfélagsins, væri fórn. Slíkur tilflutningur fjármuna verður einhvers staðar að koma niður, þótt það sé minni fórn en að láta framleiðsluna stöðvast og fjármálakerfið hrynja. Hins vegar telur flokkurinn, að þeir, sem mest eiga, eigi fyrst og fremst að fórna. Framsfl. fékk því til vegar komið, að í stað 10-12% skatts á fasteignir einar var lagður stighækkandi eignarskattur á allar eignir yfir 300 þús. krónur, eftir að fasteignamat hefur verið allt að sexfaldað, en skattur þessi verður 25%, eða 1/4 eigna, eftir að komið er yfir 11/2 millj. kr. Eignaraukaskatturinn var felldur niður, eins og þeir hagfræðingar lögðu til, er þó höfðu gengið lengst í tillögum um eignarskatt, en þeir höfðu og lagt til, að eignarskatturinn yrði 35% í stað 25% eins og um samdist.

d. Framsfl. fékk því til leiðar komið, að eftir að 15 millj. kr. höfðu verið teknar af eignarskattinum, rennur helmingurinn til ríkissjóðs, en hinn helmingurinn rennur að jöfnu til byggingarfélaga verkamanna og ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs Búnaðarbankans. Og ef sá auður er til staðar, sem menn hafa talið að safnazt hafi, hlýtur þetta að vera veruleg fjárhæð.

e. Framsfl. fékk því til vegar komið, að gengishagnaður bankanna, sem talinn er um 16–18 millj. kr., rennur að einum þriðja til byggingarsjóðs Búnaðarbankans, 1/3 til ræktunarsjóðs bankans og 1/3 til byggingar verkamannabústaða.

f. Framsfl. fékk því til leiðar komið, að frv. um verðlagseftirlit gengur fram, og er það nú orðið að lögum, með litlum breytingum frá því, sem áður var.

g. Frv. um lækkun húsaleigu er að komast í gegnum þingið, og er valdið um það, hvort húsaleigulögin skuli gilda áfram, lagt í hendur bæjarstjórna.

h. Samkomulag varð um það, að verzlunarmálin skyldu útkljáð á þinginu, og eins og fyrr lagt á vald verkamannaflokkana, hvort málið kemst í gegn, en meðan Framsfl. var í samstjórn með Sjálfstfl. og Alþfl., felldi Alþfl. þetta mál tvívegis — og er nú að murka úr því lífið í þriðja sinn.

Ég skal ekki fjölyrða um þessa samninga, en ég fullyrði, að eins og á stóð kom Framsfl. furðu miklu fram. Og svo mikið er víst, að eftir nákvæma athugun og eftir að flokkurinn hafði reynt alla möguleika, var þingflokkurinn og miðstjórnin sammála um að taka þessum samningum, sem beztu mögulegu leið, er um væri að velja.

Ég hef þá lýst aðkomu núverandi ríkisstjórnar og fram úr hverju var að ráða. Ég hef sýnt, að ekki var um neitt nema neyðarúrræði að velja — og að neyðarúrræðið, sem valið var, gengislækkunina, töldu allir hagfræðingar úr öllum flokkum skástu leiðina. Ég hef enn fremur sannað, að um engin flokkasamtök var að velja á Alþingi til þess að reyna þessa leið nema núverandi stjórnarsamstarf. Út frá þessum gögnum verða menn svo að dæma um það samstarf, sem Framsfl. hefur stofnað til með Sjálfstæðisfl. Það er framsóknarmönnum vissulega ekkert gleðiefni, en það var ekki um annað að ræða, nema flokksmenn vilji halda því fram, að Framsfl. eigi að fara í fýlu og draga sig út úr pólitík, ef Alþfl. gerir það og sósíalistar einangra sig við Moskvu. En það hefur ekki verið og verður ekki starfsregla Framsfl. að binda sig við það, hvað aðrir flokkar gera eða láta ógert. — Hann fer þá sínar leiðir.

Ýmsa hef ég heyrt segja það, að rangt hafi veríð af Framsfl. að ganga í stjórnarsamstarf nú, þegar allt hafi verið strandað og óvinsælar neyðarráðstafanir óumflýjanlegar. Sem svar við þessu segi ég aðeins það, að ef það er vinsælla og líklegra til kjörfylgis að hlaupa frá öllu saman, eftir að hafa komið öllu í þrot, heldur en að ganga í það að bjarga því, sem bjargað verður. — ef svo er, segi ég, væri hugsunarhátturinn þannig, að hann væri ekkert síður sjúklegur, en fjármálaástandið, og vandast þá málið allt.

Ýmsir segja, að þetta geti allt mistekizt og hrunið í höndum núverandi stjórnar. Ég skal ekkert um það fullyrða, því að allt var komið og er á tæpasta vaði. En Framsfl. hefur þá trú á landsmönnum, að þeir skilji það, að þegar bátaútvegurinn var kominn í þrot, gömlu togararnir stöðvaðir, nýju togararnir að stöðvast, nema að fá síhækkaðar útflutningsuppbætur úr ríkissjóði, sem hefur safnað 175 millj. kr. skuldum á þremur árum og er auk þess að verða tómur, lánstraustslaus, — Framsfl. trúir því, að þegar þetta blasir við landsmönnum, þá skilji þeir, að stöðvun var yfirvofandi og neyðin við hvers manns dyr. Og ef landsmenn hafa ekki almennt skilið, hvernig komið var í vetur, þá skilja þeir það áreiðanlega ekki fyrr, en neyðin er komin inn fyrir dyrnar.

Gengisbreytingin var talin skásta neyðarúrræðið til þess að reyna að bægja þessu böli frá dyrum landsmanna. En gengisbreytingin og sársauki hennar er ekki sök þeirra, sem framkvæma hana, heldur hinna, sem með rangri stjórnarstefnu ollu því ástandi, sem gerði hana nauðsynlega. Gengisbreyting er vitanlega kjaraskerðing. Engin sársaukalaus leið hefur verið fundin, né mun finnast, út úr ógöngum þjóðar, sem röng fjármálastefna hefur komið í þrot.

Gengisbreytingu má líkja við uppskurð á helsærðum manni. og hún er álíka tvísýn. En það er ekki læknirinn, sem á sök á uppskurðinum eða þeim sársauka, er hann veldur, — heldur þeir, sem valdið hafa þeim slysum, er gerðu uppskurðinn óumflýjanlegan. Gengisbreyting hefur verið gerð á öllum tímum vegna sjúks fjármálalífs margra þjóða. Gengislækkun hefur stundum lánazt og oft mistekizt. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvernig þetta neyðarúrræði tekst hér. Það er komið undir mörkuðum fyrir framleiðsluvörur okkar, verðlagi og því, hvernig þessari ráðstöfun verður tekið innanlands. En hvernig sem þetta fer, var ekki um önnur skárri úrræði að velja, og það var heldur ekki um önnur flokkasamtök að ræða til að framkvæma þau.

Það voru fyrst og fremst þessi atriði, sem ég vildi gera grein fyrir í þeim fáu orðum, sem ég segi hér. En um langlífi eða skammlífi ríkisstjórnarinnar vil ég aðeins segja það, að ég tel, að framtíð hennar eigi að velta á því, hvernig henni tekst að draga saman kostnaðinn við ríkisbáknið, sem er að sliga þjóðina. Það var ekki eðlilegt, að hægt væri að gera þessa ráðstöfun nú á miðju ári, án frekari undirbúnings.

Ég tel framtíð ríkisstj. eiga að velta á því, hve vel henni tekst að fækka því fólki, sem vinnur við hin allt of dýru og fólksfreku milliliðastörf, og flytja það yfir í framleiðsluna. Ég tel, að framtíð ríkisstj. eigi að velta á því, hve vel henni tekst að efla þann iðnað, sem sparar gjaldeyri, en ekki íþyngir framleiðslu þjóðarinnar, og útrýma á hinn bóginn hinum rándýra, óþarfa og fólksfreka iðnaði, sem að ýmsu leyti er plága á þjóðinni. Úr öllum þessum atvinnugreinum verður vinnuafl þjóðarinnar að flytjast yfir í framleiðsluna, framleiðslu, sem er afkastamikil, ódýr og fjölbreytt. Og fyrir þessa framleiðslu verðum við með öllum heiðarlegum ráðum að vinna markaði. Á því, hvernig þetta tekst, á það að velta, hvort þessi ríkisstj. á rétt á sér til frambúðar eða ekki, því að á framkvæmd þessara mála og þeirra mála allra, sem að þessu stefna, veltur það fyrst og fremst, hvort þjóðin getur haldið áfram að lifa sem sjálfstæð þjóð fjármálalega og stjórnarfarslega.