11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

38. mál, fjárlög 1950

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram nokkrar brtt. við frv., og eru þær á þskj. 710. Vil ég mæla með þeim örfá orð.

Eins og oft áður hefur komið fram í umræðunum, þá voru af fjvn. á síðasta þ. fluttar brtt. um dálitla lækkun á kostnaði við ríkisreksturinn. Þessar till. voru örfáar samþ., en flestar felldar. Vegna þessarar reynslu vildi meiri hl. n. ekki eiga við það að taka þær upp aftur. Þótti eigi ástæða til þess, því að ráð var fyrir gert, að það yrði jafnþýðingarlaust núna. Ég hef hins vegar reynt að gera sams konar tillögur nú, um að lækka launagreiðslur og annan kostnað. Tek ég það þó fram, að hvergi er gengið lengra en að áætla sömu fjárhæðir nú og á fjárl. síðasta árs, lagt m.ö.o. til að lækka kostnaðinn um þær fjárhæðir, er áætlað er nú að liðirnir hækki um frá síðasta árs fjárl. Ég sé ekki ástæðu til að fara orðum um hverja einstaka brtt.

Fyrst eru þrjár brtt. við 3. gr., um lækkun á launum, sem nemur nokkurri fjárhæð, og að öðru leyti um lækkun á öðrum rekstrarkostnaði. Mest er lækkunin hjá Tóbakseinkasölunni. Þar er gert ráð fyrir að lækka rekstrarkostnaðinn um 200 þús. kr. Hann er 937 þús. kr. í fjárlfrv., og sýnir þetta því allmikla lækkun. Þá eru nokkrar brtt. við 10. gr. Er þar hið sama hugsað, að færa liðina til sömu fjárhæða og eru á fjárl. Við 11. gr. hef ég tekið upp brtt. fjvn. frá í fyrra, þ.e. að fella niður kostnað við prentun hæstaréttardóma. Ég hef heyrt, að þeir væru fjölritaðir. Fá lögfræðingar eintök af þeim, og hafa þeir sagt, að það sé nægjanlegt. Mætti því spara þessa fjárhæð. Einnig hef ég gert brtt. við liðina um sakadómaraembættið, þannig að annar kostnaður lækki úr kr. 181.800 í kr. 131.800, og sömuleiðis bifreiðakostnað lögreglunnar, úr 200 þús. kr. í 150 þús. kr. Við þessa gr. er líka brtt. við liðinn „sakamál og lögreglumál“, að kostnaðurinn lækki úr 200 þús. kr. í 150 þús. kr. Og að síðustu er stærsta brtt. mín: að kostnaðurinn við eftirlit með viðskipta- og verðlagsmálum og við skömmtunarskrifstofu lækki úr kr. 3.496.000 í kr. 1.900.000. Í sambandi við þessar stofnanir vil ég geta þess, að árið 1948 kostuðu þær nærri kr. 3.500.000, en þá var kostnaðurinn við Alþ. 2.300.000 kr. Þetta kerfi kostaði því þriðjungi meira en Alþ., og þótt skömmtunarskrifstofan sé dregin frá, þá er kostnaðurinn miklu hærri en alþingiskostnaðurinn. Það er því ástæða til að gera verulegar breytingar á þessu, og því hef ég flutt þessa brtt., sem er svipuð því, sem fjvn. flutti brtt. um á síðasta þ. — Samtals nema lækkunartillögurnar rúml. 2 millj. kr., og mun það nema dálitlu á heildarútgjöldum fjárl.

Þá eru það fáein orð út af till. hæstv. ríkisstj. á þskj. 713, sem hæstv. fjmrh. mælti hér fyrir áðan. Ég vildi leyfa mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. ráðh. út af þessari till. Ég sé, að það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir að taka upp samkvæmt till., um stighækkandi uppbætur, er mjög til bóta frá því, sem verið hefur, en eins og ég sagði, þá langar mig til þess að bera fram eina fyrirspurn til hæstv. ráðh., því að mér er ekki kunnugt um, hvort uppbætur þær, sem hér er um að ræða, eigi að greiðast af öllum launum, þ.e.a.s. ef sami maður gegnir fleiri störfum en einu hjá ríkinu eins og á sér stað um marga. Mig langar til þess að fá um það upplýsingar, hvort þeir eigi þá líka að fá uppbætur fyrir þau aukastörf, sem þeir kynnu að hafa á hendi, hvort það hafi verið gert og hvort meiningin sé að gera það framvegis. Ég hef ekki getað aflað mér upplýsinga um þetta, og þætti því vænt um, ef hæstv. fjmrh. vildi veita þær.